Kuldagallinn

Svo í morgun þegar ég var að klæða mig í kuldagallann, datt mér dálítið skrýtið í hug.

Viðfang giftingaróra minna sagði á blogginu sínu um daginn að besta tilfinning í heimi væri að koma inn úr kuldanum. Auðvitað er það ósköp gott en mér finnst nú tilfinningin samt ekki betri en svo að ég forðast yfirleitt að fara út í miklum kulda að nauðsynjalausu. Það á við jafnt í holdlegum skilningi og tilfinningalegum. Halda áfram að lesa

Hin eina rétta

-Kannski væri skynsamlegast af okkur að reikna ekki með að hittast oftar, sagði ég.

-Ef það er það sem þú vilt Mía litla.
-Ég sagði ekki að ég vildi það heldur að það væri skynsamlegt. Ég stóð sjálfa mig að því í kvöld að leggja mig fram um að bíða þín ekki með eftirvæntingu, og það er frekar hallærisleg sjálfsblekking. Ég vil ekki vera konan sem bíður.
-Það skil ég vel. Halda áfram að lesa

Uppeldið mistókst

Það er alltaf ákveðinn tregi sem fylgir því þegar börnin mann vaxa úr grasi og verða einfær um hluti sem þau þurftu áður aðstoð við. Ég játa að mér finnst út af fyrir sig ágætt að losna við að kaupa fatnað á syni mína en stundum hafa þeir annan fatasmekk en ég.

Eða eiginlega alltaf.

Heppilegur misskilningur

Ég játa að það kitlar hégómagirnd mína þegar huggulegir menn sýna mér áhuga og býst við að ég sé að eðlisfari fremur svona kókett. Það er samt þetta skilyrði; maðurinn verður að hafa eitthvað við sig svo ég sé verulega impóneruð. Ég kannast því ekki við að vera sérlega kókett við gamla menn.

Einhverja strauma hlýt ég nú samt að senda frá mér sem koma gamlingum til að halda að ég sé með einhverskonar afafetish, allavega eru þeir menn sem sýna áhuga á því að kynnast mér (annarsstaðar en í bælinu)iðulega komnir yfir sjötugt. Ég tek skýrt fram að ég hef ekkert á móti gömlum mönnum. Ég kann yfirleitt alveg ágætlega við gamalt fólk þótt ég hafi ekki heimahjúkrun að hugsjón.

Eldri maður sem ég vil gjarna þekkja SEM GAMLAN MANN, hefur það fyrir venju að klæðast grænum hosum þegar hann heimsækir mig. Frábær maður að nánast öllu leyti. Klár og skemmtilegur og sannarlega vænn maður. EN. Það skortir bara ákveðinn sjarma þegar maður sem er að reyna við mann er smjattandi -ekki af neinum perraskap, heldur af elli.

Í gær áttaði ég mig á því að hosuspengill þessi stendur í þeirri trú að ég sé heitkona Uppfinningamannsins. Ég ákvað að leiðrétta það ekki.

Snúður kemur í heimsókn

-Merktu mig, segir Elías og faðmar mig að sér
-Merkja þig? Eins og krakkar gera?
-Já, merktu mig með litlum rauðum bletti.
-Oj, það er subbulegt.
-Ég veit, merktu mig. Ég ætla að merkja þig líka, bara ekki þar sem það sést.
-Þú elskar mig.
Hann horfir í augu mín, sposkur.
-Gerirðu það Eva? Elskarðu mig?
-Efastu?
-Neei, já, ég veit það ekki. Þú virðist ekkert sakna mín. Halda áfram að lesa

Langar að flytja

Það virðist útilokað að fá vini og ættingja til að kóa með mér í örvæntingarfullri þrá minni eftir að selja íbúðina. Í dag fór ég til Sigrúnar og reyndi að fá hana til að samþykkja að flutningar gætu aukið hamingju mína til muna en hún er jafn viss um það og allir aðrir að skynsamlega leiðin sé sú að halda út í a.m.k. ár í viðbót.

Ég get ekki útskýrt óbeit mína á því að búa hér. Það er ekkert að íbúðinni. Lögun hennar fer í taugarnar á mér og herbergjaskipan er óhentug en ég hef áður búið í íbúðum sem voru ekki fullkomnar og liðið prýðilega þar. Ekki er það staðsetningin og eina truflunin frá nágrönnunum er barnagráturinn sem hefst stundvíslega kl 7:03 á hverjum morgni og öskrin í foreldrunum sem hefjast 4 mínútum síðar. Þetta morgunritúal þeirra tekur ekki nema um 7 mínútur í allt og það er alls ekki þess vegna sem ég vil flytja. Ég bara þoli ekki íbúðina og reyni að vera eins lítið heima og ég mögulega get. Verst að þótt ég hefði efni á að tapa hálfri eða heilli milljón á því að flytja strax, þá hef ég ekki efni á neinu sem mér finnst meira aðlaðandi.

Ég hafði nefnilega ágæta ástæðu fyrir því að kaupa einmitt þessa íbúð; það var gerlegt.

Haustblót

Ég hélt að ég hefði kollsteypst ofan í gríðarstóran lukkupott þegar Ásatrúarfélagið bauð mér að kynna fordæðuskap minn á haustblóti félagsins. Sá fyrir mér Fjörukrárstemmingu og taldi svo víst að þar yrði mikill fjöldi skemmtilegs fólks að ég sagði krökkunum að reikna ekki með mér heim fyrr en síðla nætur. Halda áfram að lesa

Heilun og menning

Í dag kom heilari í búðina til okkar. Nánar tiltekið „heilunarmeistari“ sem byggir aðferð sína á „hefðbundnum norrænum heilunarshamanisma að hætti víkinga“. Það vantar greinilega stóran kafla í þekkingu mína á norrænni menningu.

Meira um mennskuna

Hversu mörg tækifæri á maður að gefa einhverjum áður en maður afskrifar hann sem drullusokk? spurði Klikkun.

Ég held ekki að sé til nein þumalputtaregla í því sambandi. Þú þarft heldur ekkert að velta því fyrir þér ef þú bara horfist í augu við sjálfan þig og viðurkennir tilfinningar sem eru af einhverjum dularfullum ástæðum feimnismál. (T.d. höfnunarkennd, afbrýðisemi, biturð, niðurlæging, einmannaleiki og hefnarþorsti.) Ef þú gefur skýr skilaboð um leið og réttlætiskennd þín er særð, munu drullusokkar og dræsur hverfa úr lífi þínu af sjálfsdáðum. Þú verður kannski aldrei neitt rosalega vinsæll en þú getur allavega treyst þeim sem eftir standa. Halda áfram að lesa

Ekki alveg…

Þrátt fyrir að systir mín sé, eins og flestir í minni fjölskyldu, dálítið veruleikafirrt á köflum, (ég er eina manneskjan í minni móðurfjölskyldu sem jarðar við að vera normal) tilheyrir hún reyndar ekki þeim hópi meðvirkra vesælinga sem fá kikk út úr því að láta „góða stráka“ drulla yfir sig. Veit ekki betur en að Eiki sé bara nokkurn veginn í lagi, af karlmanni að vera.

Ef ég efaðist um að fullyrðingar systur minnar um að hún myndi „ekki breyta neinu“ ef hún fengi tækifæri til, séu vanhugsaðar, væri ég sennilega lögð af stað út til að reyna að koma henni undir læknishendur. Það er semsé ekki hún sem ég hafði í huga í reiðlestrum mínum um mennskuna þótt hugmyndir hennar um hamingjuna séu reyndar hið mesta kjaftæði.

Ég var að hugsa um það samsafn kvenna sem undanfarið hafa beðið mig um ráð til að endurheimta drulluhala sem hafa farið illa með þær. „Indælar“ konur sem þykjast algerlega lausar við reiði og afbrýðisemi, búnar að fyrirgefa allt og jaríjarí. Bara af því að þær hafa ekki kjark til að horfast í augu við eigin tilfinningar.

Galdrabrúður og aflátsbréf

Hmmm… Nú hefur það verið staðfest og það á internetinu að ég sé „vingjarnleg„. Ekki minnist ég þess að mér hafi verið gefin sú einkunn áður. Þvert á móti er freðýsulegt eðli mitt alkunna. En kannski hefur Anna óvenjulegt innsæi. Nema hún sé veruleikafirrt.

Hún er allavega flink, svo mikið er víst. Færði mér þessar líka dásamlegu galdrabrúður sem eru svo fínar að ég tók aflátsbréfið mitt niður af veggnum til að koma þeim fyrir á góðum stað.

Já, vel á minnst; ef þú hefur í hyggju að syndga, skaltu endilega leggja leið þína í Nornabúðina. Þar er nefnilega hægt að fá kreditfyrirgefningu fyrir hinar ýmsu syndir með hæfilegri fórnargjöf til Mammons. Það er nú aldeilis ekki ónýtt að eiga inni allt að 10 hórdómsbrot áður en maður gerist sjónvarpsbatsjellor eða vera búinn að tryggja sér syndafyrirgefningu fyrir lygar áður en maður fyllir út skattaskýrsluna.

Hvað getur verið yndislegra en að syndga í fullri sátt við Mammon og vita að krabbameinssjúk börn njóta góðs af saurlífi manns?

Reiðilestur um mennskuna

Ég held að ég sé að koma mér upp varanlegu ógeði á því alltumvefjandi ljósi kærleikans sem gerir veikgeðja manneskjur að „indælu“ fólki. Ég hef aldrei kynnst indælli manneskju sem ekki er um leið sjálfsblekkingarsjúkur hræsnari.

Þetta pakk getur talað fjálglega um kristilegt umburðarlyndi og fyrirgefningu en eina ástæða þess að það „fyrirgefur“ er sú að það þorir ekki að horfast í augu við sársaukann sem fylgir því að hafa verið beittur órétti. Þar með er auðvitað ekki um neina fyrirgefningu að ræða. Málin hafa ekki verið gerð upp, heldur litið fram hjá þeim. Staðreyndin er nú sú að þegar upp er staðið er tiltölulega auðvelt að fyrirgefa hvað sem er svo framarlega sem það bitnar ekki á þér og þínum.

Athyglisvert er líka að indæla liðið virðist eiga auðvelt með að hlaupast undan ábyrgð og ímynda sér að hlutirnir hafi bara „átt að fara svona“, í stað þess að skammast sín og læra eitthvað hagnýtt af reynslunni.

Óheilbrigð er sú afstaða að sjá ekki eftir neinu.
Rangt að ljúga til um eðli sitt og innræti.
Hættulegt að horfast ekki í augu við dýrið í sjálfum sér.
Og að álíta sjálfan sig „góða manneskju“, það er allt í senn; sjúkt, rangt og hættulegt.

Undir sauðagærunni leynist nefnilega eðlileg manneskja og maðurinn er í eðli sínu dýr.

I´d give up my halo for the horn

and the horn for the hat I once had.

(Jethro Tull -Passion Play)