Í dag byrjaði ég í megrun. Fjórum sinnum.
Fyrst þegar ég vaknaði.
Næst þegar við Sigrún gengum út af veitingastað þar sem ég hafði troðið í mig hádegisverði sem hefði nægt til að brauðfæða heilt þorp í Afríku. Halda áfram að lesa
Í dag byrjaði ég í megrun. Fjórum sinnum.
Fyrst þegar ég vaknaði.
Næst þegar við Sigrún gengum út af veitingastað þar sem ég hafði troðið í mig hádegisverði sem hefði nægt til að brauðfæða heilt þorp í Afríku. Halda áfram að lesa
-Ooooooo Sigrún! Ég þarf svo á því að halda að komast í almennilegt frí og ég sé ekki fram á að það takist nokkurntíma. Mammon kemur bara með endalausar skítareddingar, aldrei neitt sem breytir stöðunni varanlega og það er sko ekki það að ég hefi ekki gert mína samninga við Djöfulinn, því það hef ég reynt, trúðu mér. En svo ég vitni í Laxness; ‘Pokurinn sveik mig’. Aftur. Og það er ekki bara það að ég sé skíthrædd um að þurfa að selja bréfin mín, heldur er ég bara líka að drepast úr höfnunarkennd. Ekki einu sinni Andskotinn vill mig, hversu ömurlegt er það? Halda áfram að lesa
Sumrin þegar drengirnir mínir voru litlir. Í minningunni er alltaf sól.
Ég var í fríi. Fór með strákana í húsdýragarðinn um helgar á meðan við bjuggum í Reykjavík. Fyrir austan var enginn húsdýragarður en við fórum í sund daglega. Ég tók lit og gekk í stuttum kjólum og strigaskóm. Ég gat ennþá stjórnað því hvernig Haukur klæddi sig og Darri varð svo brúnn að sundskýlufarið sást allan veturinn. Halda áfram að lesa
Pegasus er búinn að trixa eldhúsið mitt svo nú get ég lokað skáp sem annars stóð alltaf opinn. Þessi maður gerir allt fyrir mig.
Skemmtilegar vikur framundan. Hitti systtkini mín um helgina, búin að plana kvöld með Darra (sem ég hef varla hitt síðan á jólunum) Sigrún á stórafmæli og svo er að hefjast frönsk kvikmyndahátíð, einmitt á þessum rólega árstíma. Ég sé fram á að geta flutt lögheimilið mitt í bíó. Já og svo á ég gjafakort í Þjóðleikhúsið. Kannski maður fari að skoða hvað er í boði þar.
Notaði páskana til að þrífa hólf og lakka gólf. Gerði reyndar líka fleira, fór t.d. á leiksýninguna „Epli og eikur“ hjá Hugleik, alltaf gaman að þeim. Fór í mat á Selfoss til pabba og Rögnu á föstudaginn langa. Prísa mig sæla fyrir að vera ekki í mat hjá Rögnu á hverjum degi því það væri vís leið til að koma mér upp krónískri átfíkn. Ég er ennþá södd en reyndar gætu kjúklingabringurnar sem Sigrún eldaði ofan í mig í gær og keisaralega páskaeggið sem Stefán færði mér frá útlandinu haft einhver áhrif. Fyrir nú utan allar kaloríurnar sem Elías er búinn að troða í mig en hann hefur reyndar líka lagt sitt af mörkum til að láta mig brenna þeim aftur og það fannst mér nú skemmtilegt.
Þótt sé góð tilbreyting að hafa búðina lokaða og dunda bara við að lakka og þrífa er samt varla hægt að kalla það páskafrí. Ég er ákveðin í því að taka mér frí fyrstu helgina í júní. Svona alvöru frí, fara burt heila helgi. Ég veit reyndar ekkert hvert ég ætla. Nenni varla austur fyrir svona stuttan tíma en þar sem ég verð þá flutt í kjallarann á Vesturgötunni, kemur ekki til greina að vera heima í því fríi.
Fyrir tæpu ári trúði ég því að dömuskór í mínu númeri væru einfaldlega ófáanlegir nema kannski í Kolaportinu, notaðir með snúnum hæl úr einhverju dánarbúinu. Ég leitaði og leitaði, spurði og spurði, réðst á litlar gular konur á götu og yfirheyrði þær um skókaup sín (þær fá sína skó senda frá Thailandi) hringdi út um allar trissur og bað alla sem ég þekkti að hafa augun opin. Halda áfram að lesa
Á föstudaginn var ég svo veik að ég fór ekki í vinnu og hélt mig í bælinu mestan hluta dagsins. Það gerist ekki oft. Líklega var þetta hefnd örlaganna fyrir að fara lasin á tónleika en ég sé samt ekkert eftir því. Ef ég hefði samt sem áður verið svona slöpp hefði ég nagað handabökin inn í bein fyrir að hafa ekki farið. Halda áfram að lesa
Má vel vera að það sé lítt við hæfi að staupa sig á dönskum brjóstdropum og íbúfeni á Vínartónleikum en só bí itt, það hefði verið ennþá verra að hósta. Ég var búin að kaupa miðana og strákarnir vildu ekki nota þá svo ég dró Sigrúnu með mér.
Skemmti mér konunglega þrátt fyrir snýtupappír í annarri hendi og hóstamixtúru í hinni. Meðalaldur tónleikagesta var líklega 65 ára. Ég er nú dálítið hissa á því að sjá ekki fleira ungt fólk á svona léttum og skemmtilegum tónleikum sem gera í raun engar kröfur um að maður hafi „vit“ á tónlist til að njóta þeirra. Skil heldur ekki hverslags ómenning er eiginlega hlaupin í Darra. Haukur hefur aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um tónleika nema þá bara eitthvert dauðarokk og annan viðbjóð en við Darri vorum fastagestir í Salnum í fyrravetur og nú virðist hann algerlega búinn að missa áhugann. Frekar sorglegt finnst mér.
Fyrsta aðfangadag ævi minnar horfði ég ekkert á barnaefnið í sjónvarpinu. Við sváfum frameftir (enda hafði öll nóttin farið í að gera það sem við gerum venjulega síðustu 2 kvöldin fyrir jól) og stoppuðum svo góða stund hjá ömmu Hönnu og afa Bjarna. Halda áfram að lesa
Ég fór út til að grafa holu og áttaði mig þá á því að ég þyrfti að grafa fleira en hræið af kettinum. T.d. áform sem kosta mig meira strit en ánægju. Þegar allt kemur til alls var tilgangurinn sá að gera ekkert sem ég vildi ekki og allt sem ég vildi og undanfarna mánuði hefur það klikkað oftar en ég er sátt við. Halda áfram að lesa
Eitt vont gerir margt gott.
Margt vont ætti þá að gera eitt frábært.
Húsnæðið er sprungið. Það er vont mál sem kemur til af góðu. Þótt þrengslin séu til vandræða hefur það stóra kosti að fá stóra hópa. Það er miklu hagkvæmara fyrir mig en að vera bundinn yfir 6 eða 7 hræðum öll kvöld vikunnar. Reyndar er skemmtilegra að fá litla hópa en þar sem Bragi er hlaupin í mig reikna ég hvort sem er með að skemmta mér betur með honum en í vinnunni á næstunni. Halda áfram að lesa
Þessi vika hefur verið sannkallað sumarfrí. Kraftasafnið mitt er orðið svo stórt að það kemst vara fyrir í geymslunni.
Ég er að vísu búin að lóða helling og steypa kerti, mála rúnir, þvo og þrífa og sitja fundi út af jafn leiðinlegum hlutum og bókhaldi en ég er líka búin að hvíla mig, horfa á sjónvarpið, mæta í matarboð, halda matarboð, fara til spákonu, nota pinnahælana frá Ameríkunni tvö kvöld í röð! fá fréttir sem ég veit ekki hvort eru góðar eða slæmar, lenda í þriðju gráðu lögregluyfirheyrslu og setja á mig andlitsmaska. Svo er Málarinn búinn að setja upp vinnuljós í eldhúsinu og herða allar skúfur í eldhússinnréttingunni svo heimilið er óðum að verða fullkomið eins og allt annað í lífi mínu.
Í dag ætla ég að ráða krossgátu og drekka kappútsínó. Það er nefnilega hamingjan. Svo ætla ég í Grasagarðinn og sýna dindilhosunum Ingibjörgu og Sigrúnu forvitnilegasta skilti sem sett hefur verið upp á Íslandi -ever.
Já það er fjör.
Þegar fólk segir „það er ekkert til í ísskápnum“ á það venjulega við „ekkert sem mig langar sérstaklega í, í augnablikinu.“ Í mínu eldhúsi er þetta hinsvegar nokkuð nálægt því að vera bókstaflegt. Halda áfram að lesa
Sigrún tyllti spágleraugunum á nefbroddinn og mundaði bollann.
-Hringur, sagði hún ákveðin.
Ég þráttaði. Þóttist sjá fullt tungl en ekki hring og taldi víst að þetta boðaði blæðingarugl, eina ferðina enn enda hef ég vanrækt að drekka Maríustakk. Halda áfram að lesa
Í dag sannaðist að stór karl með kúbein, vinnur á þremur mínútum verk sem tekur litla konu með skrúfjárn þrjár klukkustundir.
Þegar hendurnar á mér voru orðnar of blógnar til að ég héldi taki á skrúfjárninu, útséð um að nokkur iðnaðarmaður á höfuðborgarsvæðinu gæti fórnað þremur mínútum af tíma sínum og enginn þeirra duslimenna sem hafa lýst yfir ástríðufullri þrá sinni eftir að þjóna mér, á lausu, hringdi ég í Sigrúnu og bað hana að beita töfrum sínum til að fá að senda mér vélsmiðjustrák. Halda áfram að lesa
Við erum búnar að fá „ráðstefnusalinn“ afhentan… vííí!
Fáum 25 manna hóp úr MH í heimsókn á mánudaginn svo ég reikna með að fyrirhuguð dansæfing með Hörpu og Sigrúnu (sem stóð til að yrði fjögurra tíma sessjón) verði í styttri kantinum.
Nú þegar búið er að fixa og trixa bloggið mitt svo ég get fengið ritræpu án þess að lenda í vandræðum, hef ég hvorki tíma né andríki til að skrifa.
En þessa dagana gerast góðir hlutir á viðunandi hraða og bráðum verður allt fullkomið.
Mikið er gott að eiga jólafrí. Ég ætla alltaf að eiga jólafrí hér eftir.
Ég var næstum búin að gleyma hvað mér finnst notalegt að elda þegar ég hef nógan tíma til þess. Hef hitt fullt af fólki sem ég eyði sjaldan tíma með, búin að lesa 3 bækur og liggja í suduko og krossgátum. Halda áfram að lesa
Það virðist útilokað að fá vini og ættingja til að kóa með mér í örvæntingarfullri þrá minni eftir að selja íbúðina. Í dag fór ég til Sigrúnar og reyndi að fá hana til að samþykkja að flutningar gætu aukið hamingju mína til muna en hún er jafn viss um það og allir aðrir að skynsamlega leiðin sé sú að halda út í a.m.k. ár í viðbót.
Ég get ekki útskýrt óbeit mína á því að búa hér. Það er ekkert að íbúðinni. Lögun hennar fer í taugarnar á mér og herbergjaskipan er óhentug en ég hef áður búið í íbúðum sem voru ekki fullkomnar og liðið prýðilega þar. Ekki er það staðsetningin og eina truflunin frá nágrönnunum er barnagráturinn sem hefst stundvíslega kl 7:03 á hverjum morgni og öskrin í foreldrunum sem hefjast 4 mínútum síðar. Þetta morgunritúal þeirra tekur ekki nema um 7 mínútur í allt og það er alls ekki þess vegna sem ég vil flytja. Ég bara þoli ekki íbúðina og reyni að vera eins lítið heima og ég mögulega get. Verst að þótt ég hefði efni á að tapa hálfri eða heilli milljón á því að flytja strax, þá hef ég ekki efni á neinu sem mér finnst meira aðlaðandi.
Ég hafði nefnilega ágæta ástæðu fyrir því að kaupa einmitt þessa íbúð; það var gerlegt.
Í gær gerðist pínu skrýtið.
Við Darri ákváðum að fara í þrjúbíó og á leiðinni út varð mér litið í spegil en fannst eitthvað undarlegt við andlitið á mér. Ég var smástund að átta mig á því en ég hafði gleymt að mála mig. Samt æptu augnpokarnir ekkert á mig. Ég var semsé í þessari óvenjulegu, eiginlega flippuðu stöðu, að vera ómáluð en samt ekkert ljót. Halda áfram að lesa
Klukkuna vantar 20 mínútur í 7 á laugardagsmorgni og ég er á leiðinni á Nesjavelli. Ekki skrýtið að fólk haldi að ég sé galin. Ekki nóg með að ég ætli að eyða laugardeginum, þessum eina í vikunni, við að skrúfa saman hommarör (hvað sem það nú er) heldur ætla ég líka að hætta lífi mínu með því að sitja í bíl með Sigrúnu. Ojæja einn laugardagur Mammoni til heiðurs og hinum fríða flokki karlmanna sem er vistaður þarna uppfrá til yndisauka er víst ekkert óyfirstíganlegt.
Ég er búin að komast að því hvað varð um ostinn minn. Þarf bara að yfirstíga eina hindrun svo ég komist til að sækja hann en það er ekki bara verkefni heldur raunveruleg hindrun. Samkvæmt Brian Tracy er hindrun víst öruggt merki þess að maður sé á vegi velgengninnar. Það er kannski bull í kallinum en ég ætla allavega að hafa það.