Nostalgía

Sumrin þegar drengirnir mínir voru litlir. Í minningunni er alltaf sól.

Ég var í fríi. Fór með strákana í húsdýragarðinn um helgar á meðan við bjuggum í Reykjavík. Fyrir austan var enginn húsdýragarður en við fórum í sund daglega. Ég tók lit og gekk í stuttum kjólum og strigaskóm. Ég gat ennþá stjórnað því hvernig Haukur klæddi sig og Darri varð svo brúnn að sundskýlufarið sást allan veturinn.

Ég drakk kaffi á veröndinni og las blöðin. Ég smurði nesti fyrir Darra og Lindu og þau bundu klúta utan um, þræddu malina upp á trjágreinar og fóru í langferðir uppí móa. Las fyrir strákana uppi í rúmi á morgnana. Bakaði pönnukökur á sunnudögum og bauð vinum í mat á þriðjudagskvöldum. Málaði íbúðina og nostraði við blómin mín. Eyddi sólardögum með strákunum og hundinum inni í Hallormsstað. Afi og amma komu í heimsókn. Stundum drakk ég 2-3 rauðvínsglös með Ölfu og Ármanni á laugardagskvöldum og þau kvöld fóru drengirnir svo seint í rúmið að Darri sofnaði án þess að ég þyrfti að syngja fyrir hann.

Við Sigrún kynntumst flugmanni og buðum honum í mat. Daginn eftir kom hann í heimsókn þegar við vorum að elda úr afgöngunum og varð fyrir áfalli. Vissi ekki að afgangar gætu flokkast sem matur og skundaði út í Kaupfélag til að kaupa kjöt. Eftir það kom hann oft og borðaði með okkur, hann grillaði en við Sigrún sáum um salatið og bjuggum til eftirrétt. Hann kom alltaf með kjöt eða fisk með sér og yfirleitt nóg ofan í 10 manns, ætlaði víst ekki að láta byrla sér afganga aftur. Við Sigrún elduðum afgangana þegar hann var ekki á staðnum og matarreikningurinn á báðum heimilum snarlækkaði.

Haukur og félagar klömbruðu saman tréskjöldum og sverðum og komu með áverka inn úr „stríðinu“, fengu plástur og drifu sig svo í stríðið aftur, syngjandi kátir. Ég reyndi að telja Darra trú um að stríð væru ekki fyrir litla drengi en því var hann ósammála og var fljótlega orðinn fullgildur bardagakappi sem grenjaði ekki þótt hann fengi einn og einn marblett og sprungna vör, það bara tilheyrði stríðsrekstri. Þegar hiti hljóp í leikinn og ég fór að hafa áhyggjur af því að einhver yrði höggvinn í herðar niður, fór ég út á lóð til að fylgjast með og hafði þvottinn að yfirskini. Hermennirnir róuðust yfirleitt ögn í nærveru fullorðinna. Auk þess er eitthvað notalegt við að hengja út þvott í sólskini. Ég sakna þess dálítið.

Það er sumar að sjá. En hitastigið kallar ekki á sundferðir, grillveislur og stutta kjóla.

Best er að deila með því að afrita slóðina