-Ég man nú ekki almennilega eftir þessu. Hvenær mun þetta hafa verið?
-Manstu þetta virkilega ekki? Þetta var kvöldið sem þú svafst hjá Friðriki Atla.
Ég fann mig missa kjálkann niður á bringu.
-Er ekki í lagi með þig? Ég hef aldrei sofið hjá Friðriki Atla.
-Víst! Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: 8. hluti Margbrotin
Jaðarmaður knýr dyra
Eitt kvöldið knýr hann svo dyra einu sinni enn. Í þetta sinn opna ég því það er óhætt.
-Hvernig líður þér í hjartanu? spyr ég.
-Hjartað í mér dó í barnæsku, segir hann eins fráleitt og það nú er og kannski trúir hann því sjálfur. Halda áfram að lesa
Aldrei aftur Chernobyl
Stefán grillaði lúðu handa mér í kvöld. Drukkum Riesling sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Mér þykir vænt um fólk sem eldar ofan í mig.
Kertafleyting á tjörninni. Tíbet á morgun en við minnumst Chernobyl í kvöld. Halda áfram að lesa
Þú verður að skrifa …
Er það ég sem þoli afskiptasemi svona illa eða er annað fólk stöðugt að reyna segja mér hvað ég ætti að skrifa? Hversvegna í ósköpunum er allt þetta fólk sem telur heiminn hafa þörf fyrir fleiri glæpasögur, ástarsögur eða ævinsögur, ekki að hamast við að skrifa slíkar bókmenntir sjálft?
Ég gæti skilið þetta ef ég spyrði einhvern álits, væri með hundrað sögur í hausnum og vissi ekki hverja þeirra ég vildi skrifa eða bæði vini og vandamenn að lesa yfir handrit fyrir mig.
Er það bara ég sem verð fyrir þessu eða er fólk sífellt að reyna að stjórna lífi annarra? Geri ég þetta sjálf, óbeðin og án þess að taka eftir því? Vinsamlegast sparkið í mig ef þið standið mig að því.
Ég held að ég sé frá Júpíter
Ég er að lesa ‘You just don’t understand’ eftir Deborah Tannen.
Ég hef lengi dregið í efa þá kenningu að samskiptavandi kynjanna stafi af því að konur séu frá Venus og karlmenn frá Mars. Ég á nefnilega ekkert erfitt með að setja mig inn í hugsunarhátt Marsbúa (samkvæmt persónuleikaprófum hugsa ég að 53% eins og karlmaður) en þeim tekst samt að hegða sér eins og geimverur. Og ekki eins og þeir séu frá Venus heldur einhverju allt öðru sólkerfi. Ég skil Venusarruglugufuna þótt hún sé þreytandi og á alveg til að sökkva í hana sjálf. Ég ræð alveg við Marsbúann og kannast við durtsháttartilhneigingar hjá sjálfri mér. Ég ætti þessvegna alveg að skilja karlmenn hvort sem þeir eru frá Vensus eða Mars en um leið og ég held að ég sé að átta mig á þeim, kemur í ljós eitthvert fávitaelement sem var útilokað að ég gæti séð fyrir.
Eftir lestur þessarar bókar finnst mér kenningin um Mars og Venus ennþá fjarstæðukenndari. Ég skil ekki hvorttveggja heldur hvorugt og ég á satt að segja erfitt með að gera upp við mig hvort kynið mér finnst heimskara og verr innrætt.
Líklega er það ég sjálf sem er geimvera.
Hamskipti
Ef veruleikinn væri bíómynd kæmirðu til mín. Þú myndir setjast á rúmstokkinn og spyrja –hvernig byrjaði það? Og ég myndi segja þér sögu sem væri falleg og átakanleg í senn. Og þú myndir skilja.
Ef gult væri blátt væri rautt, hefðir þú kjark til að elska mig eins og á að elska.
Og ef gult væri einfaldlega gult, væri ég fær um að gera það sem ég geri best.
Og ef blátt væri blátt áfram. En svo er víst ekki.
Einu sinni þekkti ég mann sem var svo einmana að stærsta leyndarmálið í lífi hans var að hann átti ekkert leyndarmál. Ég gaf honum leyndarmál og hann var mjög þakklátur. Ekki beinlínis fyrir að hafa eignast leyndarmál, heldur fyrir að eiga leyndarmál með einhverjum. Samt var það hvorki fallegt né átakanlegt leyndarmál. Sem er í sjálfu sér allt í lagi því hann hefði hvort sem er aldrei sagt neinum leyndarmálið og saga er einskis virði fyrr en einhver fær að heyra hana. Hvað þá ef hún er ekki fögur og átakanleg.
Slíkt er eðli leyndarmála Baggalútur minn. Leyndarmál öðlast ekki líf fyrr en maður deilir því með öðrum Og þá er það ekki lengur leyndarmál heldur saga. Og þannig er þráin líka. Þú getur haldið áfram að þrá mig, endalaust, svo ákaft að þig verkjar í hjartað. En öll þessi þrá gerir ekki annað en að éta þig að innan fyrr en þú sleppir tökunum á henni og deilir henni með mér. Og það er þannig sem maður byrjar að elska.
Ég hef þráðarkorn að spinna þér held ég enn.
Slíkt er hlutskipti nornar.
Núna
-Kysstu mig.
-Núna?
-Er núna slæmur tími?
-Neeei, ekki þannig. Ég bara tek kossum mjög persónulega.
-Persónulega?
-Já. Ég get alveg sofið hjá þér samt. Eða ekki sofið heldur, þú veist …
-Skipst á líkamsvessum?
-Já, eða nei, ég er mjög hrifin af smokkum.
-Það er samt ekkert persónulegt þú veist. Þótt ég vilji ekki kyssa.
(Ókei, ég veit, það hljómar ekki beint rökrétt.)
Gekk ég yfir sjó og land
Hvalfjörður er bara ekki íslenskur í dag. Enginn kræklingur finnst í þessari endalausu fjöru, líklega þrífst hann ekki í sundlaugarvolgum sjónum og aðeins örfáir fuglar sjáanlegir. Sjálfsagt skortir þá æti en auk þess er íslenski herinn (allir tveir meðlimir hans) skjótandi út í loftið eins og vitleysingar. Ég veit ekki hvað ég þykist vilja til Palestínu. Það eru greinilega ágætar líkur á að verða fyrir slysaskoti hér heima.
Sjórinn hefur vikið og við förum úr skónum og öslum volga leðjuna, langt út á það sem venjulega er hafið bláa hafið. Leðjan spýtist mjúk og hlý milli tánna og andvarinn á meira skylt við hárþurrku en sjávargolu.
Við uppgötvuðum nýja gullnámu í dag við Anna. Framvegis munum við taka nettan leðjuslag í Hvalfirðinum á góðviðrisdögum, gegn aðgangseyri að sjálfsögðu. Með brjóstin á Önnu og rassinn á mér höfum við garantí fyrir góðri aðsókn. Ef einhver spengileg leggjasleggja vill slást með okkur þá endilega hafið samband.
Aðstæðubundin bókhaldsröskun
Það er ekki vegna skipulagsleysis, kæruleysis eða leti. Ég er bara haldin aðstæðubundinni bókhaldsröskun. Ræð hreinlega ekki við pappír. Halda áfram að lesa
Ég er veik
Og ég sem hélt að ég væri bara svona löt. Ég er semsagt sjúklingur, það hlaut að vera rökrétt skýring á þessu verkstoli mínu.
Ég er að hugsa um að taka mér veikindafrí á meðan ég er að jafna mig.
Ætli séu til LA samtök, Letihaugar Anonymous?
Held ég sé ástfangin…
… af Ragnari Aðalsteinssyni. Ég var að lesa yfir kröfu hans um leyfi til áfrýjunar dómnum í stóra vegatálmunarmálinu. Maðurinn er hvílíkur snillingur í því að koma fyrir sig orði að þessi lesning er á mörkum þess að vera ljóðræn. Ef hann væri bloggari myndi mig áreiðanlega langa að sofa hjá honum. Mig langar iðulega að sofa hjá góðum pennum, alveg þar til ég hitti þá í eigin persónu. Mín innri kynvera lifir í allt öðrum raunveruleika en ég sjálf. Sýndarveruleika netheima.
Skrýtið annars hvað það snertir djúpan streng í hjarta mínu að vita til þess að einhver verji mig. Þótt málið sé ómerkilegt og hafi ekki valdið mér umtalsverðum kvíða og jafnvel þótt hann fái borgað fyrir það, finnst mér samt eitthvað svo notalegt við það að einhver annar tali máli mínu. Kannski bara af því að það gerirst ekki oft. Venjulega er það ég sem stend í því að verja aðra.
Rapport
Ef allt gengur eftir fer ég til Tel Aviv þann 28. ágúst.
Kappa Fling Fling hringdi í mig og bauð mér betri kjör. Aftur! Ég skulda þessum banka helling af peningum og það hefði verið miklu rökréttara að skerða kjörin mín en bæta þau. Ég efast samt um að bankanum mínum þyki vænt um mig. Tek þessu frekar sem merki um að fýlan sé rokin úr Mammoni.
Ég er ekki frá því að hjartveikin í mér sé að skána. Ég á yfirleitt auðvelt með að taka ákvarðanir en er búin að vera í krísu út af búðinni alveg voðalega lengi. Mér þykir vænt um hana og vil ekki sleppa henni en hef svo sterka þörf fyrir að takast á við eitthvað nýtt að ég er lengi búin að vera að hugsa um að loka. Ég sé fram á að með því að fara í skólann geti ég bæði haldið í búðina og líka gert eitthvað fyrir heilann í mér.
Saving Iceland stendur fyrir dagskrá í Reyjavíkurakademíunni (JL húsinu) kl 19:30 í kvöld. Samarandra Des, indverskur sérfræðingur um áliðnaðinn heldur fyrirlestur um goðsögnina um hreina orku og Andri Snær Magnason mun einnig taka til máls. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og það er enginn aðgangseyrir. Ég hvet alla sem hafa áhuga á umhverfismálum eða vilja kynna sér rök stóriðjuandstæðinga til að mæta.
Einn mánuður
Eftirlitssamfélagið hefur sína kosti. Fyrir bara 15 árum fór miklu meiri tími í allar reddingar. Nú er hægt að klára flest mál í gegnum netið eða síma og yfirleitt þarf maður ekki einu sinni að vera með skilríki því það er hægt að skoða mynd af manni í ‘kerfinu’ ef mikið liggur við. Margir geta skilað skattaskýrslu bara með því að ýta á enter.
Ég er með flugmiða fyrir framan mig og búin að ganga frá vegabréfi líka. Tók enga stund og ekkert vesen. Einn mánuður er fáránlega fljótur að líða og ég ætti að vera rosalega stessuð. Samt er hugmyndin um að ég sé að fara út einhvernveginn svo fjarstæðukennd að ég er nenni ekki einu sinni að ganga frá pappírum fyrir bókarann minn.
Annars kemur það mér á óvart hve margir virðast ekki hafa neinn skilning á því hversvegna ég vil gera þetta. Ég er alltaf að fá spurningar á borð við ‘hverju heldurðu að þú getir breytt?’ Málið er að ef tilgangurinn væri sá að geta sagt: jess, við unnum, við björguðum heiminum, þá færi enginn í hjálparstarf og sennilega enginn í lækningar eða hjúkrunarstörf heldur.
Varnarlaust fólk þarfnast stuðnings og sá stuðningur skiptir máli. Ég gleymi aldrei manninum sem hjálpaði mér heim þegar ég datt af hjólinu mínu 9 eða 10 ára. Hann breytti kannski ekki heiminum en hann breytti einum degi í lífi eins barns.
Stundum hvarflar það að mér að krafan um markmið og árangur sé hættulegri en við höldum.
Fyrir vonlausan málstað
Sit með vinkonu, drekk rósavín með lakkrísröri og reyni að útskýra hversvegna sumt fólk vill endilega berjast fyrir vonlausan málstað. Halda áfram að lesa
Vitrun
Þegar ég lauk MA náminu fór ég að kenna. Tengdapabbi fór á límingunum yfir því að ég væri að ‘droppa út úr skóla’ og taldi víst að þar með væri lífi mínu sem vitsmunaveru lokið. Reyndar naut ég hvers einasta dags í Háskólanum. Mér leið vel í Árnagarði, fannst óskaplega gaman að sækja fyrirlestra, var í essinu mínu í umræðutímum og skilaði ritgerðum yfirleitt löngu fyrir eindaga. Ég hefði verið alveg til í að vera þar áfram sem BA eða MA nemi en mér fannst það hljóma bæði einmanalega og einhæft að sitja yfir sömu ritgerðinni í mörg ár.
En í morgun semsagt fékk ég vitrun. Ég hef að því leyti breyst á þessum árum að ég hef mun minni þörf fyrir félagsskap og síðustu 5 árin hef ég að mestu leyti unnið ein. Auk þess gæti ég þá haldið búðinni opinni eftir hádegi 3 daga í viku og haldið áfram að taka á móti hópum. Ég ætlaði hvort sem er að verða manneskja sem gerir það sem henni bara sýnist þegar ég yrði stór, svo því skyldi ég ekki bara hafa opið eftir hentugleikum?
Ég hringdi í nemendaskrá og jújú, þeir taka ennþá inn doktorsnema allt árið. Þá er það er semsagt ákveðið að svo fremi sem annaðhvort Bergljót eða Ásdís Egils vilja leiðbeina mér, þá er ég að fara í skóla um áramótin. Mér finnst dálítið skrýtið að hugsa til þess að vera í sama skóla og barnið mitt en hann er víst orðin stór. 22ja ára í dag. Ég held að Darri sé líka búinn að komast að niðurstöðu um það hvað hann ætlar að læra en voga mér ekki að uppljóstra því.
Ég er að fara til Palestínu í september. Vííí!
Mylla
Ilmur af jörð.
Ligg í grasinu hjá Gullinmuru og Gleymmérei og hlusta á Urriðafoss.
Handan Þjórsár eru nokkrir ísbirnir á beit.
Ég er ekki einu sinni neitt sérstakt náttúrubarn. Trúi bara á ákveðið réttlæti. Rétt fólks til að ákveða hvort það ætlar að selja jarðirnar sínar án þess að hafa áróðursmeistara inni á gafli hjá sér nánast vikulega (svo er fólk að hneykslast á ágengni votta Jehóva). Rétt almennings til að fá réttar upplýsingar. Rétt náttúrunnar sjálfrar.
Fullkomið veður til gönguferðar. Mömmurnar mættar líka. 10 félagar úr Sól á Suðurlandi komu og þeir sem ég talaði við taka bara mjög vel í að vinna með okkur.
Hvernig étur maður fíl? Einn bita í einu segja þeir. Við eigum mikinn fíl óétinn.
Við gætum kannski kryddað hann með blóðbergi
Aðstaðan er ekki ironisk. Hún er aluminumísk.
Legó
Hún leggst á hjartað í manni helvítis sorgin. Bókstaflega. Það er ekki tilviljun að öll menningarsamfélög lýsa sorginni eins og þetta tiltekna líffæri hafi orðið fyrir skaða. Brostið hjarta, kramið hjarta, grátandi hjarta, hjarta sem springur af harmi, hjartasár, blæðandi hjarta. Bjartur í Sumarhúsum var nett pirraður yfir helvítis hjartveikinni í kvenfólkinu.
Mig hefur oft verkjað í hjartað af sorg en það varir aldrei lengi. Þetta er aðeins öðruvísi tilfinning núna og svo er þetta orðinn langur tími. Þetta er ekki beint verkur. Ekki eins og vera með sáran sting í hjartanu eða sviðatifinningu og ekkert svona brostið hjarta eða neitt almennilega dramatískt, Samt er þetta raunveruleg, líkamleg tilfinning, þung og óþægileg eins og inngróinn legókubbur eða eitthvað svoleiðis.
Vinkona mín vill að ég fari til læknis en ég sé ekki tilgang í því. Ég veit nákvæmlega hvað er að mér. Einkennin eru líkamleg en orsökin andleg og ég þarf ekkert hjartalínurit til að staðfesta það. Og hvaða þjónustu á ég svosem að biðja um? Þetta er ekki beinlínis verkur. „Læknir ég með með svona þunga og sára tilfinningu eins og ég sé með legókubb fastan í hjartanu, hvítan legókubb og kámugan, og hann sé alltaf að þrýstast aðeins lengra inn. Get ég fengið eitthvað við því?“
Ég hélt að ég hefði sloppið svo vel í þetta sinn en kannski að fullkomið niðurbrot þjóni tilgangi eftir allt saman.
Eiga allar tilfinningar rétt á sér?
Mér ætti ekki að líða svona. Það er ekki einu sinni rökrétt, sagði ég. Vinkona mín horfði á mig þolinmóð og sagði mér svo í hundraðasta skipti að vera ekki svona vond við sjálfa mig. Það væri ekki hægt að afgreiða allar tilfinningar með rökum. Allar tilfinningar ættu rétt á sér… athyglisspan mitt náði ekki lengra. Ég dreg það satt að segja stórlega í efa að allar tilfinningar eigi rétt á sér. Þetta er svona álíka vitlaus klisja og að maður eigi að virða allar skoðanir. Halda áfram að lesa
Að elska land
Skrýtið að geta þótt svona vænt um skika af jörðinni. Ég er ekki einu sinni neitt sérstakt náttúrubarn og ég efast ekki um að mér gæti liðið vel nánast hvar sem er í heiminum en tilhugsunin um að fá ekki að vera hér, snertir mig furðulega illa.
Ég væri alveg til í að verða rík án fyrirhafnar en þetta ágæta tilboð stæði samt í mér.
Ást mín á landinu er ein af ástæðunum fyrir því að ég gæti ekki hugsað mér að giftast útlendingi. Ég á bara svo erfitt með að trúa því að nokkur vilji rjúfa tengslin við föðurland sitt. Mér finnst sú hugmynd að tengjast landi tilfinningaböndum fáránleg en mér líður svona samt.
Vesenið á þessum Gvuði
Fokk í helvíti. Þegar Gvuð birtist mér upp úr hádegi í dag og heimtaði að fá að opinbera mér sannleik sinn, benti ég honum á að blogga. Ætlaði sko ekki að fara að vera einhver senditík fyrir hann. Sagðist tilbúin til að veita honum aðgang að tölvu og geta hans á mínu bloggi, but that’s it.
Nú er hann búinn að hanga í tölvunni minni meira og minna í allan dag. Ef þetta verður svona áfram þá nenni ég ekki að hafa hann inni á gafli mikið lengur.