Einn mánuður

Eftirlitssamfélagið hefur sína kosti. Fyrir bara 15 árum fór miklu meiri tími í allar reddingar. Nú er hægt að klára flest mál í gegnum netið eða síma og yfirleitt þarf maður ekki einu sinni að vera með skilríki því það er hægt að skoða mynd af manni í ‘kerfinu’ ef mikið liggur við. Margir geta skilað skattaskýrslu bara með því að ýta á enter.

Ég er með flugmiða fyrir framan mig og búin að ganga frá vegabréfi líka. Tók enga stund og ekkert vesen. Einn mánuður er fáránlega fljótur að líða og ég ætti að vera rosalega stessuð. Samt er hugmyndin um að ég sé að fara út einhvernveginn svo fjarstæðukennd að ég er nenni ekki einu sinni að ganga frá pappírum fyrir bókarann minn.

Annars kemur það mér á óvart hve margir virðast ekki hafa neinn skilning á því hversvegna ég vil gera þetta. Ég er alltaf að fá spurningar á borð við ‘hverju heldurðu að þú getir breytt?’ Málið er að ef tilgangurinn væri sá að geta sagt: jess, við unnum, við björguðum heiminum, þá færi enginn í hjálparstarf og sennilega enginn í lækningar eða hjúkrunarstörf heldur.

Varnarlaust fólk þarfnast stuðnings og sá stuðningur skiptir máli. Ég gleymi aldrei manninum sem hjálpaði mér heim þegar ég datt af hjólinu mínu 9 eða 10 ára. Hann breytti kannski ekki heiminum en hann breytti einum degi í lífi eins barns.

Stundum hvarflar það að mér að krafan um markmið og árangur sé hættulegri en við höldum.

Best er að deila með því að afrita slóðina