Sjúkraliðinn með pappaspjaldið

Efst á baugi

Í tilefni þessarar fréttar ætla ég að birta aftur þetta kvæði sem ég orti um djarfa framgöngu lögreglunnar gegn helsta ógnvaldi bandaríska sendiráðsins.

Lárus Páll Birgisson (venjulega kallaður Lalli sjúkraliði) var dæmdur fyrir óhlýðni við lögregluna vegna mótmælastöðu sinnar við ameríska Sendiráðið. Halda áfram að lesa

Afhendingar handa Eynari

Efst á baugi

Ást ég festi á eðalmanni, ósköp vænum,
bý á góðum stað og grænum.

Áður hafði ég af því frétt að Eynar væri
fjaðurmagnað fyrirbæri.

Gæðablóð og gáfum prýddur gleðimaður
upp úr skónum auðheillaður.

Státinn megastærðfræðingur, strjáll og fróður
dándimaður, drengur góður.

Viðurstyggð á valdaklíkum vel hann þekkir
andverðuga einatt hrekkir.

Bindur tryggð við fjallapríl og fléttufræði
elskar’ann mig þó meira en bæði.

Hvern þann veg sem Eynar vill um veröld stika
elti ég hann og aldrei hika.

Á skemmtigöngum skal ég honum skunda á hæla
yndi er það og ástarsæla.

Og ef hann vill um illfærur og urðir skálma.
ber hann mig yfir alla tálma.

Ekki er vafi að Eynar veit hvað Eynar syngur
þótt vefj’ann sig um minn vísifingur.

Og eilíflega ætla ég að unna honum
og seiða hann upp úr sandölonum.

Útivist

Þennan texta skrifaði ég við lag eftir Begga bróður minn. Sem hefur ekki verið gefið út og líklega ekki verið flutt opinberlega.

Sestu hjá mér sæta
er bæinn baðar sól
á bekk á Arnarhól.
Margt mun bölið bæta
að sötra Chardonnay
í sunnanblíðum þey.
Lækjartorg að lifna við
lítum þar á mannlífið,
á götutrúðinn og gamlinga og börn.
Og göngum niðrað tjörn.

Sæktu sumarjakkann.
Fóðrum fuglana
við fúlu tjörnina.
Vöppum vestur bakkann,
því Ingólfstorgi á
er ýmislegt að sjá.
Hjakka á hjólabrettum þar
illa gyrtir unglingar.
Við skulum horfa á þá skeita af list,
en skreppa á Hlölla fyrst.

Farðu í hvíta kjólinn.
Skoðum skúturnar
og skrúðgarðsstytturnar
Vermir sumarsólin,
bankakónana
og bæjarrónana.
Ég vil ekki fara á fjöll,
frekar út á Austurvöll.
Við getum sest í grasið og kysst,
keypt bjór, ef þú ert þyrst.
Það er fyrirtaks útivist.

Múrinn

Þennan texta skrifaði ég við lag eftir Begga bróður minn. Sem hefur ekki verið gefið út og líklega ekki verið flutt opinberlega.

Ramman saman reistum við
þennan rauða múrsteinsvegg.
Á þeim múr var ekkert hlið
af sér stóð hann storm og hregg.

Milli okkar múrinn stóð
þessi mörgu ár sem runnu í tímans lind.
Ég skrifaði á hann skrýtin ljóð
þú skreyttir hann með undarlegri mynd.

Einhvern daginn sproti spratt
út úr sprungu veggnum í.
Og glufur tóku að gliðna  hratt
þegar glóði vorsól hlý.

Við höfum aldrei um það spurt
hvort ættum kannski að vinna því í mót.
Nú vex í múrnum vafningsjurt
og úr veggnum hrynur stöðugt meira grjót.

Lekamálið

Á negrahyski níðast má,
þeim sem nauðir og stríð og átök þjá.
Þeim villimönnum vísar frá
okkar innanríkisríkisráðherra.

Í Fitjarhópnum einn þó er
sá sem íslenskt hæli veita ber,
því bráðum fæðist barn hans hér
það veit innanríkisráðherra.

Hæ hoppsa-sí, hæ hoppsa-sa
út með Hönnu Birnu og annan óþverra
Hæ hoppsa-sí, hæ hoppsa-sa
rekum innanríkisráðherra.

En minnisblað í Moggann lak
þegar manninn úr landi frúin rak.
Það átti víst að bera af blak
okkar innanríkisráðherra.

Nú upplýst hafði um einkamál
einhver aumkunarverð og skítleg sál.
Og brautin orðin ansi hál
fyrir innanríkisráðherra.

Hæ hoppsa-sí, hæ hoppsa-sa
út með Hönnu Birnu og annan óþverra
Hæ hoppsa-sí, hæ hoppsa-sa
rekum innanríkisráðherra.

Ritari blaðsins rætinn skeit
yfir réttindi fólks í hælisleit,
en hver það orti enginn veit
nema innanríkisráðherra.

Hver hafði svívirðu og svikum beitt?
eina svarið sem heyrist sökkar feitt;
„Við um það vitum ekki neitt“
segir innanríkisráðherra.

Hæ hoppsa-sí, hæ hoppsa-sa
út með Hönnu Birnu og annan óþverra
Hæ hoppsa-sí, hæ hoppsa-sa
rekum innanríkisráðherra.

En Dé á Vaffi voru tveir
sem vissu það var þvæla og leir.
„Við ykkur tölum ekki meir“,
sagði innanríkisráðherra.

Loks Sigga Friðjóns tók sér tak
þegar trega löggu að verki rak,
og ennþá skítur upp á bak,
þessi innanríkisráðherra.

Klípiklíp

Þennan texta skrifaði ég við ekta seventies-lag eftir Begga bróður minn. Sem hefur ekki verið gefið út og líklega ekki verið flutt opinberlega.

Elsku góða ekki grennast meir.
Ég dái mjúka magann þinn.
Þú er svo blómleg svona búttuð.
Ó besta ástarkrúttið
mitt.
Ég fíla þig.
Svo ekki far’í megrun fyrir mig.
Þú ert svo mjúk og fín og fitt.
Klípirí-klípi-klípí.

Svo smart og smellin
og smá og hnellin.
Með mjúkan maga
sem munúð alla daga,
hér
vekur mér.
Ég sé vart sólarlagið fyrir þér
þú fylgir mér, hvert sem ég fer.

Elsku, góða ekki grennast meir.
Ég þrái þrýstna kroppinn þinn.
Þú er svo fönguleg og fyndin.
Ó, fagra ástaryndið
mitt.
Ég fíla þig.
Svo ekki far’í megrun fyrir mig.
Þú ert svo þybbin, flott og fitt.
Klípirí-klípi-klípí.

Svo smart og smellin
og smá og hnellin.
Svo þekk og þrýstin
svo þetta hjarta tístir,
því,
þú ert svo hlý,
með bollukinnar til að klípa í,
í heitan faðminn þinn ég flý.

Elsku, góða ekki grennast meir
ég elska lostalærin þín.
Þú veist ég dýrka brjóst og bossa.
Ó, besta ástarhnossið
mitt.
Ég fíla þig
svo ekki far’í megrun fyrir mig.
Þú ert svo bústin, fín og fitt.
Klípirí-klíp.

Svo smart og smellin
og smá og hnellin.
Með mjaðmir mjúkar
sem mér finnst gott að strjúka,
því,
þú ert svo hlý,
með dáldið klípiklíp að klípa í,
ég þrái þennan kropp, jú sí.

Svo smart og smellin
og smá og hnellin.
Þig elska alveg
til æviloka skal – ég
– veit
þú ert svo heit
og hýr og elskuleg og undirleit
og alveg hæfilega feit.

Lenti í Bellman

Ef á annað borð er hægt að hugsa sér fánýtari dægradvöl en ljóðagerð, þá eru ljóðaþýðingar það fyrsta sem mér kemur í hug. Og að velja í þokkabót meira en 200 ára gamlan kveðskap við tónlist sem fáir geta sungið, það er náttúrulega bilun.  Á hinn bóginn er skynsemi ofmetin. Og Bellman yndi. Sem ég elska þar til ég fer að reyna að þýða hann, þá hata ég hann í smástund. Elska hann svo aftur.

Hér fyrir neðan er þýðing mín á Glimmande nymf. Lagið er hér í flutningi hins stórkostlega Freds Åkerström. Glimmande nymf hefst á mínútu 05:54.

frenchgirlsmall

Litfríða mær, leiftrandi auga
þitt lofnarblóm grær, við tírunnar bauga.
Þar, bak við sparlök blá
sem bólstraskýin há
er breidd þín hvíta rekkjuvoð.
Brátt skal blóta svefnsins goð.

Hurðin er læst, hangir á nagla
hárkolla glæst, með fléttuðu tagli.
Nátthúfan fast er hnýtt
hún felur hárið sítt.
Og út er brunnið kertið hvítt.
Sofna vært við sönglag þýtt.

Miðóttan blá. Bíbí og blaka,
bókfinkan smá, hætt er að kvaka.
Sólin er hnigin,
hnaukar upp skýin.
Þagnar foldin; friðarstund.
Freyju vil ég halda á fund.

LouisMarinBonnetWithoutFrame11

Öskrandi gnýr, úrhelli og þundur
eldingin sker hvolfið í sundur.
En purpura hjúpuð
í himnanna djúpi,
er ljósbraut gylltu og grænu rennd.
Jörð var ár af Jöfri kennd.

Sofna þú dís, við draumanna gígju.
Dýrðleg uns rís, sólin að nýju.
Og hálsinn þú reigir
og hendurnar teygir
að vatnskrús minni og vinarhönd.
Vígð eru okkar ástarbönd.

Dauða ertu nær! Drottinn, hún bærist;
í dauðanum tær lífsorkan hrærist.
Vart bifast hjartað hljótt,
samt blundar augað rótt.
Gígjan þagnar, góða nótt!
Gígjan þegir, góða nótt!

Halda áfram að lesa

Vísur handa Eynari

Mælir Eynar mjólkurtár í morgunsárið.
Hitar kaffi á hverjum degi
karlinn minn hinn elskulegi.

Uni ég í Eynars faðmi, ástarblíðum
inn í svefninn sætan líðum
saman út frá kvæðum þýðum.

 

 

Eynar brátt mig eflaust háttar
aldrei þráttað við hann hef
Geng því sátt til sælunáttar
segi fátt um næsta skref.

Hann er dós af draumi rósa
dekrar hárið ljósa mitt.
Launar drós með ljóði og prósa
liljur, kossa, hrós og hitt.

Kampavínsklúbbarnir

Ef drykkur er óhemju dýr
er drátturinn líklega frír
það er réttindabrot
þetta runk þeirra og pot
því Björk er jafn bústin og kýr.

Steiktasta þingræða sem flutt hefur verið síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Kampavínsklúbbarnir brjóta ekki bara gegn réttindum kvennanna sem vinna þar (líklega réttindum til að vera þvingaðar til fátæktar) heldur brjóta þeir líka gegn réttindum Bjarkar, af því að klámiðnaðurinn markaðssetur útlit og Björk er (heldur hún) of feit til að leika í klámmynd.

Bliss

Fram úr hjartans fylgsnum særa
fornar rúnir nýjan brag.
Vildi ég með þér vonir næra
vakna til þín sérhvern dag.
Ást þín heit og höndin blíða
héluð þíða kvæðin mín.
Frosin orð úr fjötrum losa,
mosa- augun -mjúku brosa,
má ég vera dindilhosan þín?

Bláar nætur, blíða daga
bergja af þinni fræðalind.
Skapa, galdra, skemma, laga
skálda úr brotum nýja mynd.
Vita af þér vakin, sofin
vekja spurn og svala þrá.
Rifa segl og björgum bifa,
lifa til að lesa og skrifa
ljóð, á meðan ævin tifar hjá.