Andlit barns

Kannski veistu aldrei hvar þú stendur
né hver ég er.
Engill er ég ekki af himnum sendur
en er þó hér.
Og fjandinn er af félögunum kenndur
því fer sem fer.

Sérhver er með sínu marki brenndur
það sagt er mér.
Fjall er ég og fagrugrænar lendur
og flæðisker.
Andlit hef ég barns en öldungs hendur
og auga á þér.

Boðorð nýrrar aldar

1. Heyr barn 21. aldarinnar. Ég er Drottinn Guð þinn, sem stjórna verðbólgunni, genginu og öllu öðru sem enginn botnar í og er engum að kenna. Þú skalt endilega hafa sem flesta guði en skipa mér í 1. sætið.

2. Forðast skaltu að gefa mér eða öðrum guðum nafn því það gæti orðið til þess að einhverjum dytti í hug að þú sért ósjálfstæður og þig skorti sjálfstraust.

3. Gættu þess að fylla sérhverja frístund af ýmisskonar afþreyingu, svo það hendi þig aldrei að sitja bara og bora í nefið og hugsa um ekki neitt.

4. Sýndu engum manni virðingu. Slíkt er í skásta falli sleikjuháttur en oftast merki um veikgeðja karakter sem skortir sjálfsálit.

5. Reyndu að komast hjá því að drepa neinn. Ef þú vilt eyðileggja líf einhvers er alltaf hægt að gerast lögfræðingur eða blaðamaður.

6. Ríddu sem allra flestum á sem furðulegustum stöðum og talaðu um það við hvern sem er en láttu ekki nokkurn mann vita af þeim pervasjónum þínum sem ekki eru almennt viðurkenndar, svo sem smekk fyrir bakraufarmök og flengingar.

7. Þú skalt ekki láta nappa þig ef þú stelur almannafé. Leyfilegt er þó að svíkja undan skatti, skrifa á sig óunna yfirvinnutíma og fá sér ýmis fríðindi svo framarlega sem starfsmenn Byko eru ekki með nefið ofan í fjármálunum þínum.

8. Reyndu að komast hjá því að ljúga opinberlega. Það er svo miklu huggulegra að láta bara satt kyrrt liggja eða hagræða pínulítið. Í einkalífinu er þó heimilt að ljúga þegar þess gerist þörf, því ekki viljum við nú særa neinn.

9. Þú skalt leggja þig fram um að auka hagvöxtinn með gengdarlausri neyslu, hlusta samviskusamlega á eins margar auglýsingar og þú kemst yfir og FARA EFTIR ÞVÍ sem þær boða þér.

10. Þú skalt ekki spyrja heimskulegra spurninga, sýna tilfinningasemi á almannafæri, keyra eins og kelling né gera nokkuð annað það sem farið gæti í taugarnar á náunga þínum.

Óður til Samfylkingarinnar

Stóriðjulauslátir, gandreiðarstígvélabrögðóttir fyrirtækisfærissinnar
gengu í hring út frá innkomu utan um afkomu.
Veraldarauðkífið leit upp og lyfti hægindastólpípuhattinum;
„frúin er framboðleg“.

Afskiptaráðandinn tilkynnti að almúgnum vandlátnum
yfirtöku á skaflajárntjaldsúlunni úr rökþrotabúinu.
Tvínegldi tágleiður
öfugsnúinn sætabrauðfótabúnað gangsskiptagæðingsins.
Hleypti á skeið og stökk yfir vegtálma
vammlausnarsteingerðarbeiðenda.

Umkomulausholda of- eða van- hugsjónleikstjórastólræðan
stefndi að misgengisfellingu
á vel kýldri vömb afturgönguHrólfs
með afgangi af uppgangi inni í Ráðhúsi.
Dýr eru óráð í góðæri, góð ráð í óráði,
vandræði á vergangi.

Afturfótafiðrildi
flögrandi í áttina að útgangi.

Leitarmýta 2002

forvitni – forleikur – forlög
örvænting -örlæti – örlög
ávani – álagning – álög
þátíð – nútíð – ætíð

leitið og yður mun neitað
heimtið og yður mun skammtað
efist og yður mun gefast.

Annað módel

vona – vond – vændi – væntir

………………… – yndi

…………………. – undu

kona – kvon – kvendi – kvæntur

…………………. – kyndi

…………………. – kondu

Lesist í þeirri röð sem hver og einn bara fílar,
með þeim beygingarendingum sem lesandinn tekur viðeigandi hverju sinni.