Leikfimilagið

Finnst þér ýkt og ógeðslegt að vera fituhlass
og hlunkast um með hnakkaspikið lafandi oná rass
með siginn barm og undirhakan hristist er þú hlærð
og engar búðir selja föt í fílastærð.
Ef sætur strákur lítur á þig strax hann sér
að rassinn hvílir kekkjóttur á hælum þér.
Þeir líkja þér við hráan lifrarpylsukepp,
feita gyltu, flóðhest eða myglusvepp.

Finnst þér lítið kúl að vera karlmaður með brjóst
og ömurlegat að vita að það sé lýðnum ljóst
að langtum betra úthald hefur sjötug amma þín
sem myndi fyrir skvapið á þér skammast sín.
Með upphandleggjaspírur líkt og Óli Skans
og kokteilsósan rennur um þinn æðakrans.
Þú veist að stelpur ræða um þig sem rúmmetrann
og fellingarnar hylja á þér félagann.

Jón Hallur Stefánsson samdi einnig lag við þetta kvæði vorið 2010. Diskurinn er enn ekki kominn út.

Sótthreinsunarlagið

Eddi á að sjá til þess að fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins finni enga sýkla. Hann finnur lausnina á internetinu.

Eddi er með upplýsingatæknina á hreinu
og er nú búinn að finna ráð við vandamáli einu
hann komst að því að ótrúlegar upphæðir þið getið
sparað, ef þið eruð klár og notið internetið.

Með maurasýru, kvikasilfri og klór
kælilegi og slatta af stýflueyði,
vítissóda, bónleysi og bór,
bremsuvökva og smurolíuseyði,
ég garantera að sýklafárið sjatni,
og bæti í til öryggis,
brennsluspritti, frostlegi og flösku af sódavatni.

Lýtaaðgerðalagið

Ég ætla mér að finna lýtalækni
sem lagar helstu gallana á mér
hann af mér síða augnpokana sker
og loðna leggi fixar hann með leysertækni.
Hann smækkar útstæð eyru mín
og nefið langt og ljótt
og rífur úr mér rifbein
svo að mittið verði mjótt.
Hann spengir á mér tennurnar og spik úr lærum sýgur
hann klippir, sker og flakar þar ístran af mér flýgur.

Hann brjóst mitt sælu og silikoni fyllir.
Hann setur á mig Brasilíuvax
og stækkar síðan varir mínar strax.
Er eldist ég, mitt bótox-enni alla villir.
Hann skrapar burt minn skúffukjaft
og mjaðmabeinið breitt
og galdralyf hans geta
öllum gelgjubólum eytt.
Í grindarbotninn krukkar svo mér gefist þrengri píka
(Hallgerður:) „en neyðarlegt ef gæinn léti stækka vininn líka“.

Ég ætla góðan lýtalækni að finna
sem lagar helstu gallana á mér
þá verð ég loksins önnur en ég er
því engu hef ég enn að tapa en allt að vinna.

Trukkalessulagið

Mig langar ekki að anga eins og
lítið, veikt og ljósbleikt sumarblóm.
Með hárið sítt og fésið frítt
og silkiglans á sanseruðum skóm.
Þær mega leika píkubleikar tíkur fyrir mér.
Svo sætar að það veldur verk í kverkum.
En það er ekki þannig sem ég er.

Ég fíla þetta þvottabretti,
vöðvamassa, styrk og stæltan rass.
Því ég er svona kjarnakona,
stælakvendi, strákafæla og skass.
Ég örga grimmt og sigra þær sem megra og fegra sig.
Ég þóknast engum erkitýpuklerkum
sem vilja að normalformi fella mig.

Mér líður best í leðurvesti,
þekki mig með hlekki og hundaól.
Ég fíla brútal blætisstíl
og keðjudót, og keyri mótorhjól.
Mér finnst svo gott og flott að vera hot og hrottaleg.
Því mér er ætlað merki þeirra sterku,
mér fer svo vel að vera bara ég.

Harmóníulagið

Þetta kvæði lýsir lífsafstöðu leikfimigúrúsins

Ég boða yður innri frið
svo andið djúpt –já oní kvið.
Finnið hvernig friðsemdin
flæðir hrein um innyflin.
Teygðu þínum öngum á
og allri streitu vísa frá.
Hefst nú losun hugarkúks
Í harmóníu anda og búks.

#Létt er verk að losa þig við spikið.
En hamingju og hugarró
hreppirðu ef þú borgar nógu mikið.#

Ætlir þú að lifa létt,
lærðu þá að borða rétt:
Grænkáli í sig gúlla má
og gluða tófúi ofaná.
Baunamauk er best með því
það bætir lífsins harmóní
en mæjónes á veika vörn
það veldur ólgu í sál og görn.

Staðfast hjarta styrkjum við
Með stæltum vöðva og mjúkum lið
Átök spara aldrei skalt
því andinn græðir þúsundfalt.
Er þú lóðum lyftir hátt
losar þú um hugans mátt,
vér minnust bljúgir Mullers dans
með mjaðmasveiflu kærleikans.

Af hugareitri og sálarsótt
mun sjóðheitt blóðið hreinsast fljótt,
losum þannig líkamann
við lostann gegnum pungsvitann.
Á eftir skal svo anda í hring
og enda hjartans hreingerning
er sálarinnar samastað
sendum við í steypibað.