Harmóníulagið

Þetta kvæði lýsir lífsafstöðu leikfimigúrúsins

Ég boða yður innri frið
svo andið djúpt –já oní kvið.
Finnið hvernig friðsemdin
flæðir hrein um innyflin.
Teygðu þínum öngum á
og allri streitu vísa frá.
Hefst nú losun hugarkúks
Í harmóníu anda og búks.

#Létt er verk að losa þig við spikið.
En hamingju og hugarró
hreppirðu ef þú borgar nógu mikið.#

Ætlir þú að lifa létt,
lærðu þá að borða rétt:
Grænkáli í sig gúlla má
og gluða tófúi ofaná.
Baunamauk er best með því
það bætir lífsins harmóní
en mæjónes á veika vörn
það veldur ólgu í sál og görn.

Staðfast hjarta styrkjum við
Með stæltum vöðva og mjúkum lið
Átök spara aldrei skalt
því andinn græðir þúsundfalt.
Er þú lóðum lyftir hátt
losar þú um hugans mátt,
vér minnust bljúgir Mullers dans
með mjaðmasveiflu kærleikans.

Af hugareitri og sálarsótt
mun sjóðheitt blóðið hreinsast fljótt,
losum þannig líkamann
við lostann gegnum pungsvitann.
Á eftir skal svo anda í hring
og enda hjartans hreingerning
er sálarinnar samastað
sendum við í steypibað.

Share to Facebook