320 dögum síðar

Benjamin Julian tók myndina

Sennilega hefur mér aldrei orðið minna úr verki en árið 2018. Mánuðum saman gat ég ekki einbeitt mér að neinu nema Hauki og Kúrdistan. Ég finn enn ekki fyrir sérstökum áhuga á öðrum hlutum þótt ég haldi nokkurnveginn eðlilegri einbeitingu.

Ég fann aldrei neitt sérstakt á mér eins og mér skilst að allar alminilegar mæður finni þegar synir þeirra eru að sögn dánir en ekki grafnir. Draumfarir voru ágengar en tákngildi þeirra ekkert. Særði einhverja með því að afþakka skyggnilýsingar en er eiginlega fokk sama. Finn hvorki fyrir von né vonleysi.

Gleðin yfir því að hafa fengið meira en 30 góð ár með litla drengnum mínum sem síðar varð einn af mínum bestu vinum ætti að toppa missinn en 10 mánuðum síðar er ég enn ekki komin þangað. Þakklæti í garð þeirra mörgu sem hafa sýnt mér og öðrum aðstandendum hlýhug sinn og samstöðu toppar þó óánægju mína með afgreiðslu stjórnvalda á málinu. Það hjálpar mér a.m.k. að vita til þess að fólk hugsi til okkar.  Og samhygðin var ekki aðeins tjáð með hlýjum orðum heldur líka í verki. Systkini mín og nokkrir úr vinahópnum lögðu nótt við dag til þess að hafa upp á öllum sem gætu gefið upplýsingar eða varpað einhverju ljósi á málið og jafnvel bláókunnugt fólk bauð fram aðstoð við að koma okkur í samband við fólk á svæðinu. Margir stjórnmálamenn hafa líka sýnt okkur samstöðu. Í lok apríl lýsti Guðmundur Andri Thorsson þeirri skoðun á Alþingi að það mætti ekki skilja aðstandendur Hauks eftir með þá tilfinningu að stjórnvöld stæðu ekki heilshugar með þeim. Mér þykir afskaplega vænt um það og ekki síður að Margrét Tryggvadóttir skyldi taka málið aftur upp í nóvember og benda á rétt ríkis og aðstandenda til að fá upplýsingar um það hvað varð um líkið (en Tyrkir halda því fram að Haukur sé látinn og hljóta því að vita það). Utanríkisráðherra svaraði því sama og venjulega að hann hefði gert allt sem í hans valdi stæði. Við fréttum það í fjölmiðlum að athugun Borgaraþjónustunnar á málinu væri lokið. Við höfum aldrei fengið skýringar á því hversvegna má ekki leita til alþjóðastofnana um aðstoð við að afla svara frá Tyrkjum, hvort heldur um það hvað varð um líkamsleifar þeirra sem féllu í Afrín eða hversvegna Rauða Krossinum var ekki leyft að leita.

Fyrir utan fólk sem ég þekki persónulega var einn stjórnmálamaður sem strax hafði beint samband við mig og bauð fram aðstoð. Það var Ögmundur Jónasson. Ég hef alveg látið hann Ögmund heyra það í gegnum tíðina þegar ég hef verið óánægð með hann en hann lét það greinilega ekki hafa nein áhrif á sig. Hann kom á beinu sambandi milli fjölskyldunnar og talsmanns Kúrda hjá Evrópuþinginu, sem talaði við bæði mig og Hilmar í síma og sendi bréf. Nú í janúar kom Ögmundur svo á fundi með þremur talsmönnum Kúrda og bauð mér m.a.s. heim til sín til að hitta þau. Sá fundur hefur nú skilað þeim árangri að tölvan hans Hauks er komin til Evrópu og við reiknum með að hún komi til Íslands fljótlega. Takk Ögmundur, innilega.

Nú vonum við bara að hægt verði að endurheimta gögn. Ég er hóflega bjartsýn á það en það er hugsanlegt. Kannski er þar eitthvað að finna sem varpar frekara ljósi á það sem Haukur var að hugsa og gera í Sýrlandi og þetta ár sem hann var að undirbúa för sína þangað.

Ég veit svosem ekki hvort maður jafnar sig nokkurntíma á ástvinamissi, í þeirri merkingu að hann hætti að stinga en ef allt er eðlilegt heldur fólk nú samt áfram að vera til. Og þá meina ég ekki í þeirri merkingu að druslast einhvernveginn í gegnum lífið og sinna því sem þarf að sinna af nauðsyn eða vana fremur en áhuga. Mig er farið að langa að gera „eitthvað“ en veit ekki alveg hvað. Allavega ekki það sem ég á að vera að gera. Finn ekki fyrir neinum fítonsanda. Langar ekkert nema að skoða þessa tölvu. Finna kannski dagbókarfærslur, kannski skrýtnar hugrenningar eða einhver þessara kvæða  sem ég kann ekki nema að hluta. Ég reikna ekki með fleiri orðaskiptum eða fleiri faðmlögum en mögulega eigum við eftir að sjá eitthvað um það hvernig skoðanir hans og hugmyndir breyttust síðasta árið. Kannski, en bara kannski, leynist þar einhver fjársjóður. Kannski ein lítil frásögn. Kannski eitt ljóð enn.

Deila færslunni

Share to Facebook

Góðra vina fundur

Mér finnst þessi mynd svo táknræn. Katrín Jakobsdóttir í snertifæri við bæði Theresu May og Erdoğan. Stendur á milli þeirra, nógu nálægt þeim til að leggja hönd á öxl hvors um sig og segja; „má ég eiga við ykkur orð?“ Hún sagðist ætla að fylgja eftir fyrirspurnum íslenskra stjórnvalda ef tækifæri gæfist til. Hvernig gefast slík tækifæri? Gefast þau ekki einmitt þegar maður stendur við hlið þess sem maður vill tala við? Ætli hún hafi notað þetta tækifæri? Mér hefur þá að minnsta kosti ekki verið skýrt frá því. Halda áfram að lesa

Deila færslunni

Share to Facebook

Fjórum mánuðum síðar

Í dag er ársfjórðungur síðan fréttist að bandamenn okkar í Nató hefðu drepið Hauk í tilefnislausri innrás Tyrkja í Sýrland. Andlát hans hefur ekki verið staðfest. Þessa fjóra mánuði þykist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafa verið að leita að honum samtímis því sem hún hefur lagt sig fram um að treysta vináttu og viðskiptasambönd við fasistaríkið Tyrkland. Þau fylgja leiðbeiningum tyrknesku lögreglunnar við leitina. Halda áfram að lesa

Deila færslunni

Share to Facebook

My Reply to Turks’ Hatemail

Dear Erdoğan worshippers who have been sending me hate mail

Do you really think that I am shallow enough to get upset about tacky photoshop of the Icelandic flag with a heap of shit on it? Look, you are the suckers who worship flags and politicians, I don’t. A few decades ago the Icelandic flag symbolised the nation’s fight for independence. Today it is just a symbol of toxic nationalism, celebrated mainly by Islamophobes, including those despicable racists who attack Turks for being Turkish. Please shit on the Icelandic flag as often as you like. I will shit on it too, once I run out of pictures of Erdoğan. Halda áfram að lesa

Deila færslunni

Share to Facebook

Svar mitt við haturspóstum Tyrkja

Originally published in English

Kæru Erdoğandýrkendur sem hafið sent mér haturspósta

Haldið þið virkilega að ég sé svo grunnhyggin að drulluléleg samklippt mynd af íslenska fánanum með skítahaug geti komið mér í upnám? Sjáið til, það eruð þið vesalingar, sem tilbiðjið stjórnmálamenn og fána, ekki ég. Fyrir nokkrum áratugum var íslenski fáninn tákn sjálfstæðisbaráttunnar. Núorðið er hann aðeins tákn illkynja þjóðernishyggju og þeir sem helst hampa honum eru múslímahatarar, þar á meðal fyrirlitlegir rasistar sem ráðast á Tyrki fyrir það eitt að vera tyrkneskir. Fyrir alla muni drullið yfir íslenska fánann hvenær sem ykkur lystir. Ég mun gera það líka þegar ég verð uppskroppa með myndir af Erdoğan. Halda áfram að lesa

Deila færslunni

Share to Facebook

Eins og við séum að tala um sorphirðu

Benjamin Julian tók myndina

Þrír mánuðir. Þrettán vikur. Síðustu 92 morgna hef ég vaknað við drauma um leitina að Hauki. Mig dreymir engin samskipti við hann lengur, enga tölvupósta frá honum, heldur árangurslaus samtöl við yfirvöld, sundurtætta búka, leitarflokk í sprengjugíg,  fréttir af líkfundi, tölvupóst frá Rauða krossinum, hræætur að éta lík, nýjar yfirlýsingar frá þessari sem heldur því fram að yfirvaldið sé að gera allt sem mögulegt er til að afla upplýsinga en hundsar ábendingar um að líklegast sé að líkið liggi enn á víðavangi. Ef hann er þá látinn … Halda áfram að lesa

Deila færslunni

Share to Facebook

Fimmta bréf mitt til Erdoğans

Þessa kveðju fékk ógeð alheimsins frá mér í gær. Mér finnst nú hálflélegt af sendiráðinu að staðfesta ekki einu sinni móttöku en ég kommenta á síður kvikindisins á samfélagsmiðlum daglega svo vonandi komast kortin mín til samt til skila.

Deila færslunni

Share to Facebook

Fjórða kort mitt til Erdoğans

 

Viðbjóðurinn Erdoğan hefur ákveðið að flýta kosningum. Ekki svo að skilja að í Tyrklandi fari fram frjálsar kosningar en hann telur sennilega minni líkur á því að hann mæti andstöðu nú en eftir ár. Bæði af því að efnahagur landsins er á niðurleið og vegna þess að hann er að herða ritskoðun og hann veit að fólki mun líka það æ verr. Með því að boða til kosninga strax sviptir hann andstæðinga sína raunhæfu tækifæri til að kynna stefnu sína. Áhrifin verða þau, ef hann nær kosningu, að hann fær í hendur það alræðisvald sem fallist var á að veita forseta í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir ári.

Ég sendi honum þessa kveðju hér að ofan í morgun.

Deila færslunni

Share to Facebook

Önnur kveðja til Erdoğans

Ræðismaður Tyrklands á Íslandi svaraði beiðni minni um að koma kveðju minni til Erdoğans á miðvikudag. Hann var hinn elskulegasti og sagðist hafa framsent hana á sendiráðið í Osló, sem sér víst um samskiptin við Tyrkland. Ég hafði reyndar sent þeim póstinn líka og mun þá snúa mér þangað hér eftir. Halda áfram að lesa

Deila færslunni

Share to Facebook