Mér finnst nú frekar lélegt hjá sendiráði Tyrklands í Osló að staðfesta ekki einu sinni móttöku á póstinum frá mér. Ég ætla rétt að vona að kortin frá mér komist til skila. Þúsundir hafa sætt lögreglurannsókn og margir þeirra verið sakfelldir fyrir að mógða karlhelvítið, og hann hefur iðulega krafist þess að færslur um hann séu fjarlægðar af samfélagsmiðlum, svo það virðist auðvelt – komist boðin á annað borð til skila.
Það er uppi einhver misskilningur um að ég telji að það að ausa skít yfir Erdoğan komi að gagni við leitina að syni mínum. Ég skil eiginlega ekki hvernig nokkrum getur dottið það í hug. Fyrst Tyrkir eru ekki löngu búnir að gefa einhverjar upplýsingar um afdrif Hauks þá annaðhvort ætla þeir sér ekki að gera það eða þá að þeir vita ekki neitt. Ég tala hreint út um álit mitt á Erdoğan sjálfri mér til skemmtunar og vegna þess að ég vil að Alþingi Íslendinga viðurkenni rétt minn og annarra til að mógða fínimenn til jafns við óbreytta borgara.
Og það mun ég gera áfram. Hvenær sem mér dettur það í hug. Hvort sem ég er á íslensku vefsvæði eða íslenskri grund og hvort sem mektarmennið heitir Erdoğan, Trump eða eitthvað annað. Það er einfaldlega ógeðslegt að árið 2018 skuli vera í gildi lög sem veita helstu drullusokkum veraldarinnar vernd frá áliti annarra á embættisfærslum þeirra og innræti.