Eins og við séum að tala um sorphirðu

Benjamin Julian tók myndina

Þrír mánuðir. Þrettán vikur. Síðustu 92 morgna hef ég vaknað við drauma um leitina að Hauki. Mig dreymir engin samskipti við hann lengur, enga tölvupósta frá honum, heldur árangurslaus samtöl við yfirvöld, sundurtætta búka, leitarflokk í sprengjugíg,  fréttir af líkfundi, tölvupóst frá Rauða krossinum, hræætur að éta lík, nýjar yfirlýsingar frá þessari sem heldur því fram að yfirvaldið sé að gera allt sem mögulegt er til að afla upplýsinga en hundsar ábendingar um að líklegast sé að líkið liggi enn á víðavangi. Ef hann er þá látinn …

 

Garzan grafreiturinn eftir grafarrán tyrkneskra yfirvalda, tengill hér að neðan

Réttum mánuði fyrir innrás Tyrkja í Afrín, létu tyrknesk yfirvöld fremja helgispjöll á grafreit Kúrda í Garzan í suðaustur hluta Tyrklands. Ekki nóg með að grafir væru opnaðar heldur voru líkamsleifar 267 kúrdískra bardagamanna fluttar burt. Enginn aðstandenda var látinn vita að til stæði að grafa líkin upp og engar skýringar hafa enn fengist á þessu tiltæki. Þetta er alvarlegt brot, bæði á tyrkneskum lögum og alþjóðalögum en fyrirspurnum og bænaskjölum frá fjölskyldum hinna látnu, m.a. til Erdoğans sjálfs, hefur ekki verið svarað.

Þetta er langt frá því að vera eina dæmið um svívirðilega meðferð tyrkneskra yfirvalda á líkum andstæðinga. Grafarspjöll hafa verið framin í fleiri grafreitum og oft eru lík látin hverfa áður en næst að grafa þau. Þeim er fleygt í skurði og ár og villidýr og hræætur látin um þau. Um fimmtiu kúrdískar fjölskyldur hafa nú biðlað til mannréttindasamtaka um aðstoð við að fá upplýsingar um hvar lík ástvina þeirra eru niðurkomin.

Sunneva Weisshappel tók myndina

Í dag eru 3 mánuðir síðan tyrkneskir fjölmiðlar fluttu þá frétt að Tyrkir væru með lík sonar míns og ætluðu að senda það til Íslands. Ekki bara einn eða tveir fjölmiðlar heldur tugir, þ.á.m. sjónvarpsstöð í eigu stjórnmálaflokks Erdoğans. Að sögn íslenskra stjórnvalda hafa Tyrkir neitað því að þeir séu með líkið. Utanríkisráðuneytið hefur synjað beiðni okkar um að spyrja fjölmiðlana út í heimilidir fyrir þessum fréttum, þau treysta bara tyrkneskum stjórnvöldum. Þessum sem bera ábyrgð á grafarspjöllunum í Garzan grafreitnum.

Bæði forsætis- og utanríkisráðherra hafa látið hafa það eftir sér að „allra leiða“ hafi verið leitað til að komast fyrir um afdrif Hauks en um leið beitir utanríkisráðuneytið öllum mögulegum ráðum til að halda frá okkur upplýsingum um hvað þau hafa gert. Eru þýsk stjórnvöld (sem lofuðu aðstoð sinni)  t.d. meðvituð um þann fréttaflutning að líkið sé í höndum Tyrkja? Vita þau að svæðið þar sem Haukur á að hafa fallið er aðeins 3-4 ferkílómetrar að flatarmáli? Við vitum ekki hvort þýsk yfirvöld fengu nokkrar upplýsingar um málið eða hvort yfirvaldið telur sig hafa gert nóg með því að Katrín nefndi Hauk í kurteisisspjalli við Angelu Merkel. Við vitum heldur ekki hvort hefur verið leitað til International Commission on Missed Persons. Okkur er sagt að leitað hafi verið til blaðamanna en við höfum enga staðfestingu á því að það hafi í raun verið gert.

Bæði Katrín Jakobsdóttir og Guðlaugur Þór hafa hundsað ábendingar okkar um að sennilega hafi Tyrkir vanrækt þá skyldu sína að hirða lík og líkamsleifar af svæðinu og um svívirðilega meðferð Tyrkja á líkum andstæðinga sinna.

 

Þessari mynd frá Afrín var dreift á samfélagsmiðlum í maí 2018

Þögn þeirra er kannski bara það sem búast mátti við í ljósi þess að stundum hef ég ekki nennt að knýja fram rétt minn til svara við erindum til stjónsýslunnar. Einu sinni sendi ég t.d. sveitarfélagi ábendingar vegna sorphirðu en gerði svo ekkert í því að fylgja því eftir þegar ég fékk engin svör.

Kannski líta þau lík sonar míns sömu augum og venjulegt sorp. Ef svo er þá er kannski skiljanlegt að þau meðhöndli ábendingar og fyrirspurnir frá fjölskyldunni eins og við værum að kvarta um vanrækslu á venjulegri sorphirðu en ekki brot á þeim alþjóðlegu lögum sem gilda í stríði. Kannski vita þau ekki að stjórnsýslulög gilda líka þegar yfirvaldinu finnst erindið ómerkilegt.