Í dag er ársfjórðungur síðan fréttist að bandamenn okkar í Nató hefðu drepið Hauk í tilefnislausri innrás Tyrkja í Sýrland. Andlát hans hefur ekki verið staðfest. Þessa fjóra mánuði þykist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafa verið að leita að honum samtímis því sem hún hefur lagt sig fram um að treysta vináttu og viðskiptasambönd við fasistaríkið Tyrkland. Þau fylgja leiðbeiningum tyrknesku lögreglunnar við leitina.
Þau hafa enn ekki spurt tyrknesk stjórnvöld hvenær þau hyggist leyfa Rauða krossinum að leita að líkum á svæðinu. Samkvæmishjal á ekkert skylt við leit að týndum manni þegar grundvallarspurningar eru sniðgengnar en dugar þó til þess að fátækir í anda sannfærast. Utanríkisráðherra talar eins og viðskiptum sé ætlað að stuðla að mannréttindum sem í ljósi viðbragða efnahagsmálaráðherra Tyrkja er beinlínis hlægilegt.
Gögnum haldið leyndum
Kröfur okkar um gögn sem sýna fram á hvað gert hefur verið til að hafa upp á Hauki skila engu. Líklega hafa þau ekkert að sýna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál svarar því til að meðalafgreiðslutími kærumála sé sjö mánuðir en nefndin stefni samt á að afgreiða kæru vegna gagna sem urðu til fyrir 13. mars í júlí eða ágúst. Kannski taka þau afstöðu til þess sem út af stendur fyrir áramót.
Að sjálfsögðu hafa flestir ástvina Hauks gefið upp vonina um að íslensk stjórnvöld vilji vita um afdrif hans og eru því að reyna að afla upplýsinga frá tyrkneskum stjórnvöldum eftir eigin leiðum. Ef við hefðum glögga mynd af því hvað ráðuneytið hefur gert – ef nokkuð – væri kannski hægt að útiloka einhverja möguleika. En þar sem ráðuneytið liggur á gögnum málsins, líkt og þau væru eign starfsmanna, verðum við að ganga út frá því að ekkert hafi verið gert. Þegar þetta er ritað hefur þegar verið farin ein ferð til Tyrklands í þeim erindagerðum að afla upplýsinga frá fólki sem er undir eftirliti þarlendra stjórnvalda. Ferðin var langt frá því að vera hættulaus en gekk áfallalaust – í þetta sinn. Ég veit ekki til þess að neinn hafi enn farið til Sýrlands að leita að Hauki. Það stóð til að hópur vina færi þangað í maí. Ég hélt þá að það hefðu verið ýkjur hjá Lalla sjúkraliða að fólk biði við landamærin en það reyndist vera rétt – hópur Evrópubúa fór til Afrín í maí, í öðrum erindum, og okkar fólk ætlaði með þeim. Þau gerðu það fyrir mín orð að hætta við.
Mega leikmenn hirða mannabein?
Svæðið milli Badina og Dumilya (þar sem Haukur á að hafa látist) er varla meira en 4 ferkílómetrar. Ég gæti farið þangað og leitað sjálf. Það er friðsamlegt í Afrín sem stendur. Svo langt sem það nær. Það liggur reyndar 5 – 10 ára fangelsi við því að fara þangað ólöglega en ég gæti farið löglega. Ég yrði þá væntanlega undir eftirliti. Í Afrín fara jihadistar nú með lögregluvald í umboði Tyrkja.
-2014 ISIS member in Aleppo
-After ISIS, he became one of Al-Nusre Leaders in Aleppo too
-Now, he is first lieutenant in free police in Afrin pic.twitter.com/wsEahrTOmE— Mousa (Roj) Mousa (@RojMousa) May 31, 2018
Þeir fara samt fjandakornið ekki að skjóta móður manns sem Tyrkir kalla hryðjuverkamann (af því að hann reyndi að verjast ólöglegri innrás.) Ég myndi bara veifa passanum. Islamistar hljóta að virða íslenskt vegabréf. Þeir hálshöggva bara blaðamenn og svoleiðis fólk. Ekki móður sem leitar að líkamsleifum sonar síns í hæðum Badina.
Líkið er löngu orðið holdlaust. Ef hann er þá látinn. En kannski fyndi ég blóðstokkinn jakkagarm. Er erfðaefni í storknu blóði? Það hlýtur eiginlega að vera en stundum veit maður minna en maður heldur. Ég hélt að erfðaefni fyndist í hári og afhenti löggunni hárflóka af Hauki. En afklippt hár dugar ekki. Það þarf víst að slíta það úr rót. Ég hef ekki horft á nógu marga CSI þætti. Ég hefði átt að læra meiri líffæði. En það er örugglega erfðaefni í beinum og það er líklegra að ég fyndi bein en blóðstokkinn jakka. Flækir málið að vísu að það voru fleiri sem féllu á svæðinu. Sennilega gengi ég fram á nokkrar beinagrindur. Og þá myndi ég …
Já, hvað myndi ég þá gera? Má maður taka mannabein sem maður finnur á víðavangi í Mið-Austurlöndum og fara með þau heim? Það hljómar einhvernveginn vafasamt en ég hef svosem ekki fundið neitt sem bannar það. Það má ekki opna líkkistu sem flutt hefur verið á milli landa en má þá flytja bein án þess að innsigla þau? Skiptir máli hvaða bein er tekið? Er nóg að taka fremstu kjúku litlutáar? Er kannski nóg að skafa ysta lagið af mjaðmarbeini eða höfuðskel? Þarf að varðveita sýni á einhvern sérstakan hátt? Tennur eru pottþétt sönnun en ef ég rækist nú á mannskjálka, mætti ég þá draga úr honum tönn eða flokkast það sem vanvirðandi meðferð á líki?
Hvað myndi Guðlaugur gera?
Og hvað ef ég fyndi fimmtán beinagrindur í skurði? Hvert hringir maður ef maður finnur fjöldagröf eða skurð, fullan af líkamsleifum? Í Rauða krossinn, sem hefur ekki aðgang að svæðinu?
Ég myndi auðvitað hringja í Guðlaug Þór. Hann hlyti að svara ef ég hringdi úr tyrknesku símanúmeri. Af því að það gæti verið einhver sem vill selja skip. Eða gefa honum Tyrkjasælu.
Sæll ráðherra, þetta er hún Eva. mamma hans Hauks. Ég er í Badína. Það er hérna skurður fullur af beinum.
Nei, Guðlaugur Þór ég er ekki að bjóða hundinum þínum bein. Þetta eru mannabein. Reyndar gæti verið að hann vildi þau. Í apríl sást hundur í Badína með mannsfót í kjaftinum en ég veit ekki hvort sá fótur tilheyrði Hauki. Þeir eru víst fyrir mannakjöt þessir hundar hér um slóðir.
Ég ætlaði semsagt að spyrja hvort þú gætir sent hingað einhvern sem kann að taka lífsýni.
Hann myndi redda þessu kallinn. Eða ekki. Það er viðbúið að tyrkneska lögregla ráðlegði honum að vera ekkert að skipta sér af þessu.
Réttlæting ríkisvaldsins
Réttlætingin fyrir tilvist þjóðríkisins er sú að ríkisvaldið verndi borgarana gegn utanaðkomandi ógn og standi með þeim gegn öðrum ríkjum Mál Hauks er bara eitt dæmi um hversu marklaus sú réttlæting er. Ríkið hefur engan áhuga á velferð og réttindum borgaranna, það þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að viðhalda sjálfu sér. Það er að minnsta kosti gagnslaust þegar reynir á réttindi þeirra sem eru öfugu megin í pólitík og hafa hvorki fjölskyldu- né vinatengsl við ráðamenn.