Mér finnst þessi mynd svo táknræn. Katrín Jakobsdóttir í snertifæri við bæði Theresu May og Erdoğan. Stendur á milli þeirra, nógu nálægt þeim til að leggja hönd á öxl hvors um sig og segja; „má ég eiga við ykkur orð?“ Hún sagðist ætla að fylgja eftir fyrirspurnum íslenskra stjórnvalda ef tækifæri gæfist til. Hvernig gefast slík tækifæri? Gefast þau ekki einmitt þegar maður stendur við hlið þess sem maður vill tala við? Ætli hún hafi notað þetta tækifæri? Mér hefur þá að minnsta kosti ekki verið skýrt frá því.
Átta vikum fyrir þennan fund sendu foreldrar Hauks Hilmarssonar og Önnu Campbell sameiginlegt bréf til Katrínar Jakobsdóttur og Theresu May, þar sem farið var fram á að þær beittu sér fyrir því að ríkisstjórnir þeirra krefðu Tyrki svara um meðferð líkamsleifa þeirra sem Tyrkir drápu i innrás sinni í Afrín fyrr á árinu. Katrín hefur ekki brugðist við því bréfi á nokkurn hátt. Dirk Campbell fékk svar sem ritað var fyrir hönd Theresu May með vilyrði um að leitað yrði að líki Önnu ef hann gæti gefið upp staðsetningu. Þess má geta að staðsetning á því svæði sem Haukur var á þegar hans var saknað hefur legið fyrir frá 7. mars og var lögreglunni gerð grein fyrir því þann 8. mars þegar systir mín sendi þeim lögreglumanni sem þá stjórnaði rannsókninni allar þær upplýsingar sem fjölskyldan hafði aflað. Það eru varla meira en 3, í allra mesta lagi 4 ferkílómetrar sem koma til greina, nema líkið hafi verið fært.
Nú hittast þau á fundi NATO ríkja, öll þrjú. Katrín og Theresa fengu þar með tækifæri til að tala milliliðalaust við – ekki bara valdamesta mann Tyrklands, heldur einræðisherra. Ef þær teldu örlög ríkisborgara sinna koma sér eitthvað við hefðu þær talað saman fyrir fundinn og reynt að fá sameiginlegan fund með einvaldinum. Þær hefðu getað minnt hann á að samkvæmt alþjóðalögum ber að gefa breskum og íslenskum stjórnvöldum upplýsingar um meðferð tyrkneska ríkisins á líkum ríkisborgara þeirra. Það er ekki útilokað að þær hafi gert það en ekkert er fram komið sem bendir til þess.
Ég verð að játa að þrátt fyrir óánægju mína hef ég ákveðinn skilning á því að Katrín skuli ekki hafa rætt þetta mál við Erdoğan. Íslensk stjórnvöld hafa nefnilega ekki enn spurt Tyrki hvað þeir hafi gert við líkin og það yrði hálf neyðarlegt að biðja bandamann um að reka á eftir svörum við spurningum sem aldrei hafa verið bornar fram.