Jónar

Ertu guðjón?
Eða meðaljón?
eðaljón?
Ójón, ójón!
Þetta verður allt í læ-jón!

Ort til tilvonandi guðjóna tilveru minnar þann 14. apríl 2008.

Konan sem bíður

Sat hún ein við sauma
sumarbjartar nætur,
brynju gerði úr Björkum
batt sér Jó um fætur.
Reið á klæðin risti,
ramman Þurs hún vakti.
Kontórstingja Kaunir
kossum sjálf hún þakti.

Ljóðasíminn

Ég hef velt talsvert fyrir mér hugmyndinni um gagnvirkar bókmenntir, þ.e.a.s. bókmenntir sem gefa lesandanum færi á að hafa áhrif á útkomuna. Einn möguleikinn væri ljóðasími sem byði upp á valkosti um nokkrar ólíkar útgáfur af sama ljóðinu. Maður hringir í tiltekið númer og nær sambandi við símsvara: Halda áfram að lesa

Á eftir

Það streymir.
Það flæðir.
-Eitt óp.
Og svo er því lokið
með rennilásshljóði.

Ég ligg hér
svo brothætt,
svo tóm
eins og skel í fjöru
og hlusta
á fótmál þitt hljóðna.

Og óveruleikinn
með deginum inn í mig smýgur
þótt ilmur þinn
loði ennþá við sængina mína,
og samt eru vorhljóð
í rigningu fuglarnir syngja
og veröldin lyktar af ösp.
Það er vor.

-Það er ljósgrænt.

Sett í skúffuna í apríl 1983