Afhendingar handa Eynari

Þessar afhendingar skrifaði ég handa Einari fyrsta árið sem við bjuggum saman. Að strákunum mínum frátöldum er Einar er það besta sem hefur hent mig í lífinu.

Ást ég festi á eðalmanni, ósköp vænum,
bý á góðum stað og grænum.

Áður hafði ég af því frétt að Eynar væri
fjaðurmagnað fyrirbæri.

Gæðablóð og gáfum prýddur gleðimaður
upp úr skónum auðheillaður.

Státinn megastærðfræðingur, strjáll og fróður
dándimaður, drengur góður.

Viðurstyggð á valdaklíkum vel hann þekkir
andverðuga einatt hrekkir.

Bindur tryggð við fjallapríl og fléttufræði
elskar’ann mig þó meira en bæði.

Hvern þann veg sem Eynar vill um veröld stika
elti ég hann og aldrei hika.

Á skemmtigöngum skal ég honum skunda á hæla
yndi er það og ástarsæla.

Og ef hann vill um illfærur og urðir skálma.
ber hann mig yfir alla tálma.

Ekki er vafi að Eynar veit hvað Eynar syngur
þótt vefj’ann sig um minn vísifingur.

Og eilíflega ætla ég að unna honum
og seiða hann upp úr sandölonum.

Share to Facebook