Útivist

Myndin er af vef Reykjavíkurborgar

Þennan texta skrifaði ég við lag eftir Begga bróður minn. Sem hefur ekki verið gefið út og líklega ekki verið flutt opinberlega. 

Sestu hjá mér sæta
er bæinn baðar sól
á bekk á Arnarhól.
Margt mun bölið bæta
að sötra Chardonnay
í sunnanblíðum þey.
Lækjartorg að lifna við
lítum þar á mannlífið,
á götutrúðinn og gamlingja og börn.
Og göngum niðrað tjörn.

Sæktu sumarjakkann.
Fóðrum fuglana
við fúlu tjörnina.
Vöppum vestur bakkann,
því Ingólfstorgi á
er ýmislegt að sjá.
Hjakka á hjólabrettum þar
illa gyrtir unglingar.
Við skulum horfa á þá skeita af list,
en skreppa á Hlölla fyrst.

Farðu í hvíta kjólinn.
Skoðum skúturnar
og skrúðgarðsstytturnar
Vermir sumarsólin,
bankakónana
og bæjarrónana.
Ég vil ekki fara á fjöll,
frekar út á Austurvöll.
Við getum sest í grasið og kysst,
keypt bjór, ef þú ert þyrst.
Það er fyrirtaks útivist.