Elías

Í gær reið hann Elías grænbláum hesti í hlað,
gæðinginn bauð mér til ferðar og tauminn mér rétti.
Fákurinn Pegasus fetaði rólega af stað
en fyrr en mig varði hann hóf sig á loft, fram af kletti. Halda áfram að lesa

Ljóð handa fiðlara

Svo tónar þínir ljóð mitt galdri glæði
ég grönnum boga snerti fiðlustrengi
sem styður þú með liprum fingrum lengi
uns líf mitt faðmar þitt í söng og kvæði.

Og ef þú heyrir annarlegan tón
sem ekki fellur rétt að þínu lagi
það gæti verið tónn af æðra tagi
þá titrar barmur Óðreris við Són.

Því ég skal gjarnan verða þín ef viltu
vekja hjá mér meira en orðin tóm
og finna þína fingurgóma loga.

Þá komdu nær og strengi þína stilltu
ég strjúka skal úr hverjum þeirra hljóm
því fiðla þín er fánýtt hjóm án boga.

Ástkonan

Er klæðist mánagyðjan möttli skýja
og myrkrið drýpur hljótt af birkigreinum
og skuggaverur skjótast undan steinum
skæruárar óttans dyra knýja.

Þá napur gjóstur nístir inn að beinum
og náköld skelfing grafarhúmsins hvískrar
og ryðgað hliðið hriktir, marrar, ískrar
með harmaþrungnum sorgarinnar kveinum.

Þar moldarinnar yfir opnu sári
ein hún grætur einu köldu tári
sem falli hrím á fylgju elskhugans

en engin blóm hún leggur á hans leiði
Í leynd svo engan veruleikinn meiði
vill hún í myrkri vitja grafar hans.