Ljóð handa fylgjendum

Nýjum degi nægir
neyð er guðir gleyma.
Geta og þrek ef þrýtur
þín er höfnin heima
hlassi þessu þungu
þúfa ef viltu vetla
væta jarðar verða
varmi, svali og selta.

Gegnum regnið gráta
gagnast þeim er þagna
þegar þurrir dagar
þægilegir láta
léttra hlátra hljóma
hlýjan blæinn bera
Birtu að heitu hjarta
heims þá ljósin ljóma.

Fjallajurt

Ég er vaxin upp í hrjóstri, harðgerð, lítil fjallajurt
sem lifði af þegar vindar feyktu vonarblómum burt.
Það vildi enginn gróðursetja í garði sínum rós
sem aldrei bað um aðhlynningu, aðeins regn og ljós.

Þó að viðkvæmari jurtir visni fljótt í höndum þér
og gleðin sé það eina sem þú gefið hefur mér,
eins og blóm sem þráir birtu, hefur Birta saknað þín
og breiðir móti geislum þínum ljósþyrst laufin sín.

Þótt þú hlúir engu blómi, enn í hjarta mér þú býrð
ég teygað hef úr ljósi þínu lita minna dýrð.
Og varnarlaus ég heldur vildi lifa fyrir þig
en hult í skjóli eikartrés, sem skugga varpi á mig.

Haustljóð

Bera sér í fangi
blánætur
myrkrar moldar hvíld.
Ber munu þroskast
en blóm hníga
föl í jarðar faðm.

Eyða munu veður
veikum grösum
líknar sverði sól.
Svo er mín verund
vindum barin.
Und kyssir auga þitt.

Þíða

Ég er þess viss að enginn maður sér
þær annarlegu kenndir sem þú vekur.
Þú kveikir líf og ljós í hjarta mér,
um leið þú grundvöll tilverunnar skekur.

Við blíðu sólar bráðnar hem af tjörn
svo bláir yfir frerann, sál mín kalin
og ef sá klaki er eina hjartans vörn
er ógn í hverjum sólargeisla falin.

Þó finnst mér eins og flæði mér um sál
fögnuður, sem birti af degi nýjum.
Ég sökkva vildi í djúpt í draumsins tál
og drukkna þar á sumarmorgni hlýjum.

Ég trúi ekki á ást við fyrstu sýn
og engum meir en mátulega treysti.
Og sjálfsagt var það bara bilun mín
sem brosið þitt úr klakaböndum leysti.

Morgunsól

Morgunsól

Er ég vakna við morgunsól,
verma geislar hennar augnlokin
og flæða inn í huga minn.

Birtu stafar á brumuð tré,
brjóta knappa þeirra laufin græn
og ilma af ferskri morgunbæn.

#Ég er sáttur við sjálfan mig.
Ég er sáttur við sjálfan mig,
og morgunsólina og þig.#

Syngja fugler sinn fagra söng,
fljúga heim í mó með grös og strá,
í lautum flétta hreiður smá.

Syndir lonta í silfurlæk
sólarkossum stirnir tæran hyl
er gárar flötinn af og til.

#Ég er sáttur við sjálfan mig.
Ég er sáttur við sjálfan mig,
og alla veröldina og þig.#

Angar moldin af morgundögg
mjúka körfu teygir blóm mót sól
og blærinn strýkur grund og hól.

Greiðir stúlka sitt gullna hár
geislar augna hennar verma brá
og vekja í mér nýja þrá.

Gímaldin samdi síðar annað lag við þennan texta.