Fjallajurt

Ég er vaxin upp í hrjóstri, harðgerð, lítil fjallajurt
sem lifði af þegar vindar feyktu vonarblómum burt.
Það vildi enginn gróðursetja í garði sínum rós
sem aldrei bað um aðhlynningu, aðeins regn og ljós.

Þó að viðkvæmari jurtir visni fljótt í höndum þér
og gleðin sé það eina sem þú gefið hefur mér,
eins og blóm sem þráir birtu, hefur Birta saknað þín
og breiðir móti geislum þínum ljósþyrst laufin sín.

Þótt þú hlúir engu blómi, enn í hjarta mér þú býrð
ég teygað hef úr ljósi þínu lita minna dýrð.
Og varnarlaus ég heldur vildi lifa fyrir þig
en hult í skjóli eikartrés, sem skugga varpi á mig.

Share to Facebook