Leikarinn, lektorinn, #metoo og mannréttindi

Sigrúnu er sagt upp störfum. Frekara vinnuframlag afþakkað en hún fær greidd laun meðan á uppsagnarfresti stendur. Þar sem hún er ekki opinber starfsmaður þarf atvinnurekandinn ekki að gefa henni upp neina ástæðu. Sigrún hefur hingað til verið talin góður starfsmaður og veit ekki upp á sig neina sök. Hún gengur á starfsmannastjórann og þótt hún eigi engan rétt á skýringu fær hún svar – yfirmaður hennar hefur kvartað undan því að hún sé bara ekki nógu innileg og hafi t.d. gengið burt með þjósti þegar hann sat nakinn í heitum potti í vinnustaðaferð og vildi fá hana ofan í pottinn til sín.

[Uppfært: þetta er tilbúið dæmi, ég veit ekki til þess að neinum hafi verið sagt upp störfum á þessum forsendum, það virðist hinsvegar vera löglegt.]

Við skulum athuga að Hæstiréttur Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að slíkt framferði yfirmanns teljist ekki kynferðisleg áreitni í skilningi jafnréttislaga, sbr. dóm Hæstaréttar frá 16. febrúar 2012 í máli nr. 267/2011. Samkvæmt þeirri stórmerkilegu íslensku lögfræði að dómar Hæstaréttar hafi fordæmisgildi enda þótt þeir séu á skjön við sett lög og almenna skynsemi, hlýtur sú túlkun að standa.*

Sigrún varð semsagt ekki fyrir kynferðislegri áreitni (að mati Hæstaréttar). En dettur nokkrum í hug að vinnuveitandi megi losa sig við starfsfólk á þeirri forsendu að það sé þurrt á manninn þegar yfirmenn viðra á sér tólin í návist þess? Sigrún hlýtur að eiga einhvern rétt við þær aðstæður – eða hvað?

Lektorinn, leikarinn og uppsagnir í kjölfar #metoo

Þann 7. ágúst sl. komst héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að vinnuveitanda á almennum markaði væri heimilt að segja starfsmanni upp fyrir það að nýta sér stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt. Ég er að vísa til máls nr. E-4046/2018, þ.e. máls Kristins Sigurjónssonar, lektorsins sem missti stöðu sína við Háskólann í Reykjavík, vegna opinberra ummæla konur. Nánar tiltekið hafði lektorinn á orði að konur væru að eyðileggja vinnustaði með kröfu um að karlar hugsi, tali og hegði sér eins og „kerlingar“ og því viðhorfi að klámfengnir brandarar jafngiltu kynferðisofbeldi. Vegna slíkra viðhorfa vildi hann síður vinna með konum eða hafa þær nærri sér.

Héraðsdómur taldi uppsögnina réttmæta. Niðurstöðu sína byggði dómarinn á þeim forsendum að starfmaðurinn nyti ekki réttarstöðu opinbers starfsmanns og að á almennum vinnumarkaði ríki gagnkvæmur réttur til að segja upp ráðningarsamningi af hvaða ástæðu sem er, svo fremi sem uppsagnarfrestur sé virtur. Takmörkun tjáningarfrelsis lektorsins í nafni jafnréttisgilda skólans taldi héraðsdómari nauðsynlega og geta samrýmst lýðræðishefðum.

Ekki er að finna í dómnum neinar skýringar á því hvaða lýðræðishefðir það eru sem réttlæta slíka takmörkun á tjáningarfrelsi en samkvæmt þessu geta vinnuveitendur á almennum markaði losað sig við starfsmenn sem utan vinnustaðar tjá skoðanir sem eru yfirmönnum þeirra ekki að skapi, án viðvörunar. Sami dómari hefði því væntanlega talið uppsögn Sigrúnar í dæminu hér að ofan löglega. Eitt af gildum vinnustaðarins er „samlyndi“ og annað „gleði“ og það var ekkert verið að níðast á kynfrelsi Sigrúnar með uppsögninni. Það er nefnilega ekkert í friðhelgiákvæði stjórnarskrárinnar eða Mannréttindasáttmála Evrópu sem skikkar vinnuveitanda til að viðhalda ráðningarsambandi við konu sem ekki er tilkippileg við nakta yfirmenn.

Þann 30. október sl. felldi héraðsdómur Reykjavíkur dóm máli nr. E-137/2019. Það er mál leikarans Atla Rafns Sigurðarsonar gegn Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur. Eins og mál Kristins Sigurjónssonar snerist mál Atla Rafns um uppsögn sem starfsmaður taldi ólögmæta og ærumeiðandi. Leikaranum var sagt upp störfum vegna meintra kynferðisbrota án þess að fá nokkrar skýringar á því í hverskonar háttsemi brotin fælust eða gagnvart hverjum hann hefði brotið. Í þetta sinn féllst héraðsdómur á sjónarmið starfsmannsins enda hefði vinnuveitandinn ekki farið eftir ákvæðum reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, í aðdraganda uppsagnarinnar.

Álit Láru V. Júlíusdóttur

Þann 5. nóvember sl. birti visir.is skoðanapistil eftir Láru V. Júlíusdóttur, undir heitinu U-beygja í vinnurétti. Niðurstaða höfundar er sú að í máli Atla Rafns hafi héraðsdómur tekið U-beygju í vinnurétti með því að beita sjónarmiðum úr opinberum vinnurétti í máli aðila á almennum vinnumarkaði. Það hafi verið gert með vísan til reglugerðar sem ætlað er að fyrirbyggja og taka á áreitni og einelti á vinnustöðum.

Lára er hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti. Hún veit auðvitað að umrædd reglugerð gildir á almennum vinnumarkaði en hún virðist álíta að reglugerðin sé ekki reist á sömu sjónarmiðum og gilda í opinberum vinnurétti. Það er helst að sjá að hún taki undir þann málflutning Leikfélags Reykjavíkur og Kristínar Eysteinsdóttur að þar sem reglugerðinni sé ætlað að vernda rétt brotaþola eigi ekki að túlka neitt í henni á þá leið að sá sem borinn er sökum njóti nokkurra réttinda.

Ágreiningur leikarans og Leikfélags Reykjavíkur snýst að verulegu leyti um það hvort starfsmaður sem borinn er sökum um kynferðislega áreitni eða aðra þá háttsemi sem fellur undir ákvæði reglugerðarinnar teljist „hlutaðeigandi“ í skilningi hennar. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að vinnuveitandi sem fær ábendingu um, eða verður var við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað skuli leggja mat á aðstæður og við það mat skuli „hlutaðeigandi starfsmönnum gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri“. Í 4. og 5. mgr. sömu greinar er jafnframt kveðið á um skyldu til að upplýsa „hlutaðeigandi starfsmenn“ um meðferð máls og lyktir þess. Þetta túlkar LR þannig að „hlutaðeigandi“ séu aðeins þeir sem kvarta – ekki þeir sem kvartað er undan. Lára virðist taka undir þá skoðun. Hún bendir jafnframt á úrskurð Persónuverndar, sem taldi leikarann ekki eiga rétt á aðgangi að þeim gögnum sem uppsögn hans var byggð á. Byggðist það mat á því að um væri að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar, m.a. um upplifun tiltekinna einstaklinga á háttsemi leikarans.

Rétt er að benda á að niðurstöðu Persónuverndar er ekki unnt að skilja á þann veg að réttlætanlegt sé að segja starfsmanni upp á grundvelli gagna sem hann á ekki rétt á aðgangi að. Persónuvernd tók ekki afstöðu til þess enda er það ekki á hennar verksviði. Úrskurðurinn felur það heldur ekki í sér að starfsmaður sem er sakaður um einelti eða áreitni teljist ekki einn hinna „hlutaðeigandi“ sem eiga að fá að koma að sínum sjónarmiðum og sem vinnuveitandi á að halda upplýstum. Það vildi bara svo til í þessu tilviki að gögnin þóttu of viðkvæm til þess að hann ætti rétt á aðgangi að þeim

Mannréttindasjónarmið

Héraðsdómarinn sem dæmdi mál leikarans hafnar því að starfsmaður sem er ásakaður um áreitni eða einelti teljist ekki „hlutaðeigandi“ í skilningi reglugerðarinnar. Þvert á móti hafi Leikfélagi Reykjavíkur borið að gefa starfsmanninum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en til þess hefði þurft að upplýsa hann um eðli ásakananna. Lára V. Júlíusdóttir telur að með þessari túlkun sé dómarinn að beita sjónarmiðum úr opinberum vinnurétti. Allt eins má líta svo á að reglugerðin sé, rétt eins og lög um skyldur og réttindi starfsmanna ríkisins, reist á mannréttindasjónarmiðum sem hljóti almennt að liggja íslenskum lögum til grundvallar. Má þar nefna sjónarmið um jafnrétti og friðhelgi einkalífs sem nær m.a. til kynfrelsis – en einnig sjónarmið um réttláta málsmeðferð, rétt hvers manns til þess að teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð og réttinn til æruverndar sem einnig er þáttur í friðhelgi einkalífs.

Ekki veit ég hvaða „sambærilegu mála“ Lára er að vísa til þegar hún talar um háar miskabætur. Málið er fordæmalaust já – ekki aðeins vegna þess að framkvæmdastjórinn er dreginn persónulega til ábyrgðar heldur finnast þess engin dæmi úr íslenskri dómaframkvæmd að vinnubrögð atvinnurekanda við uppsögn hafi farið jafn illa í bága við mannréttindasjónarmið.

Undarleg er sú afstaða að mannréttindi séu atvinnurekendum í einkageiranum óviðkomandi og að réttur vinnuveitanda til að losa sig við starfsfólk á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða sé takmarkalaus. Slíkur réttur þrífst vitaskuld í skjóli þeirrar ógeðfelldu reglu að atvinnurekanda teljist heimilt að segja starfsmanni upp án þess að gefa upp ástæðu nema þegar sérstök verndarákvæði eru í lögum eða samningum. Það gerir þá reglu ekki hið minnsta geðslegri þótt þessi réttur sé gagnkvæmur enda mun fátítt að það setji líf atvinnurekanda á annan endann þótt starfsmaður segi upp starfi með samningsbundnum fyrirvara. Það er hinsvegar regla fremur en undantekning að uppsögn hefur veruleg áhrif á líf starfsmanns.

Undirliggjandi þessum valdníðsluheimildum atvinnurekenda er sú aldagamla hugmynd að í ráðningarsambandi sé launþeginn auðmjúkur þiggjandi launa, í skjóli stöðu sem vinnuveitandinn veitir honum af örlæti sínu. Veruleiki 21. aldarinnar er aftur á móti sá að starfsmenn eru ekki húsdýr sem hægt er að afskrifa ef þau henta ekki þörfum eigandans heldur manneskjur sem njóta réttinda sem ganga framar valdi atvinnurekenda, meira að segja framar valdi stjórnvalda. Það er skömm að því að löggjafinn skuli ekki fyrir löngu hafa gert aðilum á vinnumarkaði það ljóst og tekið fyrir þá ósvinnu að hægt sé að segja fólki upp án þess að gefa því upp ástæðu og gefa því kost á að taka til varna.

Ótakmarkað geðþóttavald atvinnurekanda getur allt eins bitnað á konum

Mál lektorsins við HR og leikarans hjá LR eiga það sameiginlegt að þar fóru atvinnurekendur ekki þá leið að neita að gefa upp ástæðu fyrir uppsögninni. Ástæðurnar voru í báðum tilvikum geðþóttaákvarðanir sprottnar upp úr þeirri múgæsingarherferð sem fyrir tveimur árum hófst á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu metoo, Geðþóttaákvarðanir þar sem sjónarmiðum um meðalhóf, sanngirni og réttinn til að verja sig var varpað fyrir róða. Það er í meira lagi ömurlegt að sjá sérfræðing í vinnurétti taka undir þá skoðun að það sé bara allt í lagi. En Lára V. Júlíusdóttir á það kannski sameiginlegt með þeim sem í #metoo vímunni sjá uppsagnir Kristins og Atla Rafns sem einhverskonar sigur fyrir femínismann að gleyma því að sama vinnuréttarlöggjöf gildir fyrir konur og karla.

Sé það réttur lagaskilningur að atvinnurekandi sem vill losna við starfsmann geti gefið skít í bæði stjórnarskrána og Mannréttindasáttmála Evrópu þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að vinnuveitandi strípalingsins í heita pottinum stilli til friðar á vinnustaðnum með því að segja upp ráðningarsamningi konunnar sem þá nótt lagðist til svefns í fötunum en fékk ekki svefnfrið fyrir ágangi yfirmannsins. #Metoo er nefnilega ekki réttarheimild og dómar verða ekki reistir á því fári hvort kyns sem starfsmaðurinn er. Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu eru hinsvegar réttarheimildir og lög sem eru í andstöðu við þau ákvæði eru ólög sem dómstólum ber að virða að vettugi. Vonandi hafa dómarar það í huga þegar þeir fá til meðferðar mál Áslaugar Thelmu Einarsdóttur sem telur fyrirvaralausa uppsögn sína hjá Orku náttúrunnar eiga rætur að rekja til kvörtunar sinnar vegna ósæmilegrar framkomu yfirmanns, þurfti að ganga á eftir skýringum (sem hún telur að haldi ekki vatni) og var synjað um andmælarétt.

Vonandi hafa dómarar mannréttindasjónarmið einnig í huga þegar þeir fá til meðferðar aðrar geðþóttakenndar uppsagnir, hvort heldur það eru dólgafemínismi, rótgróin karlremba eða önnur mannfjandsamleg sjónarmið sem liggja að baki. Þess væri ennfremur óskandi að Lára V. Júlíusdóttir og aðrir sérfræðingar sem tjá sig um dóma í vinnuréttarmálum tækju þau með í reikninginn. Því ef það er U-beygja í vinnurétti að skikka atvinnurekendur til þess að virða lágmarks mannréttindi þá er sú U-beygja til stórkostlegra bóta.

 

Deila færslunni

Share to Facebook

Leikhússmálið, karlveldið og bótagreiðslur til brotaþola

Leikara eru dæmdar bætur vegna ólögmætrar uppsagnar og alda reiði og hneykslunar rís á samfélagsmiðlum. Hneykslunin beinist ekki gegn atvinnurekanda sem viðhefur stalínísk vinnubrögð heldur „karlveldinu“ sem dæmir karli sem missir vinnuna hærri bætur en brotaþolum í kynferðisbrotamálum. Það var að vísu kona sem kvað upp dóminn en einn kynlitnigur til eða frá ræður víst engum úrslitum um það hvort dómari gengur erinda feðraveldisins eður ei.

Réttargæslumenn skrifa grein þar sem tíndir eru til fjórir dómar, tveir sem snúast um óviðunandi framkomu atvinnurekenda og tveir sem snúast um kynferðisbrot. Af þessum fjórum dómum er dregin sú almenna ályktun að æra og persóna þeirra sem missa vinnuna vegi að mati dómstóla þyngra en þjáningar fórnarlamba kynferðisglæpamanna.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fullyrðir að umræddur leikari hafi fengið hærri bætur en 17 ára stúlka sem var svipt frelsi sínu og nauðgað heila helgi. Þórdís Elva segist líka þekkja leikkonur (í fleirtölu) sem hafi verið þvingaðar á leiksvið í miðju fósturláti. Fjölmiðill hefur þessar upplýsingar eftir henni án þess að benda á dóminn sem hún virðist vera að vísa í eða afla nokkurra gagna sem styðja hina óhugnanlegu sögu um nauðung gagnvart leikkonum sem missa fóstur.

Á Pírataspjallinu (sem haldið er úti og ritstýrt af Framkvæmdaráði Pírata) fær fólk óáreitt að halda fram þeirri þvælu að bætur til brotaþola í nauðgunarmálum séu sjaldan hærri en 300 þúsund krónur. Þegar ég bendi á að þetta sé ekki rétt og pósta tenglum á dóma sem sýna hið sanna, þá er þráðurinn frystur enda ekki boðlegt að spilla góðu ofstækispartýi með gögnum sem sýna fram á þvæluna. Þráðurinn var reyndar opnaður aftur en þöggunartilburðir eru dæmigerð viðbrögð hinna rétthugsandi við málefnalegum athugasemdum.

 

Skaðabætur vegna fjártjóns eru ekki það sama og miskabætur

Miskabætur til brotaþola í kynferðisbrotamálum eru lágar. Miskabætur eru almennt lágar. Sú hugmynd að dómstólar séu nískari við fólk sem hefur orðið fyrir nauðgun en við aðra bótakrefjendur stenst ekki skoðun. Til þess að fá rétta mynd þurfum við í fyrsta lagi að greina á milli skaðabóta vegna fjártjóns og miskabóta sem eru greiddar þeim sem verða fyrir ólögmætri meingjörð sem hefur eyðileggjandi áhrif á líf þolandans, óháð því hvort viðkomandi varð fyrir fjártjóni vegna málsins. Í öðru lagi þarf að skoða dómaframkvæmd í mismunandi málaflokkum, bæði niðurstöður dómara og forsendur.

Í þessu umdeilda máli voru leikaranum dæmdar 5,5 milljónir vegna ólögmætrar uppsagnar. Þar af eru 4 milljónir vegna tekjumissis og annars fjártjóns. 1,5 milljón er vegna ólögmætrar meingjörðar. Dómarinn komst þannig að þeirri niðurstöðu að leikhússtjóri hafi með uppsögninni og því hvernig staðið var að henni, brotið gegn starfsmanninum á saknæman hátt. Ekki á refsiverðan hátt heldur saknæman í þeim skilningi að henni mátti vera það ljóst að málsmeðferð Leikfélags Reykjavíkur á málinu og uppsögnin sjálf hefði mikil og skaðleg áhrif á mannorð og líðan leikarans og hefði líklega neikvæðar afleiðingar til langs tíma.

 

Miskabætur vegna uppsagnar eru venjulega mun lægri

Miskabætur vegna ólögmætrar meingjörðar vinnuveitanda eru í langflestum tilvikum  lágar. Síðla árs 2017 fengu tveir dómarar sem gengið var framhjá við skipun Landsréttardómara hvor um sig 700 þús. kr. í  miskabætur. Miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar eru síður en svo rausnarlegri. Þann 1. mars sl. dæmdi Landsréttur aðstoðarskólastjóra í fjölbrautarskóla 500 þúsund kr. í miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar.

Í máli frá 2015 þar sem vinnuveitandi hafði sakað starfsmann um fjárdrátt og rekið hann var  miski starfsmanns metinn á 200 þúsund kr. Annar áhugaverður Hæstaréttardómur sem féll 2015 var í máli slökkviliðsmanns sem varð fyrir óögmætri uppsögn og einelti af hálfu vinnuveitanda. Þar taldi Hæstiréttur 500 þús kr. hæfilegar bætur.

Þetta er alls ekki tæmandi talning en gefur þó nokkra hugmynd um það hversu alvarlegum augum dómstólar líta ólögmæta meingjörð vinnuveitanda gagnvart starfsmanni. Rétt er að taka fram að það er ekkert gefið að þeir sem verða fyrir ólögmætri uppsögn fái miskabætur. Starfsmaður fær bara miskabætur ef vinnuveitandanum mátti vera það ljóst að hann var að brjóta gegn honum með uppsögninni. Snorri í Betel fékk t.d. engar miskabætur (bara bætur fyrir fjártjón) þegar honum var sagt upp ólöglega. Forsendur þeirrar niðurstöðu að skólastjórinn og aðrir starfsmenn Akureyrarbæjar sem komu að málinu hefðu ekki komið fram með saknæmum hætti eru óljósar. Kannski mátti þeim ekki ljóst vera að fólk með úreltar skoðanir njóti sama tjáningar- og trúfrelsis og annað fólk.

 

Miskabætur í nauðgunarmálum

Í kynferðisbrotamálum er brotaþolum heldur ekki sýnd nein ofrausn. Síðustu árin hafa miskabætur vegna nauðgunar í flestum tilvikum verið á bilinu 1-2 milljónir eftir því hvort brotaþoli er barn eða fullorðinn, eftir því hvort brotaþoli er í sérstaklega viðkvæmri stöðu og því hversu hrottaleg nauðgunin var.

Í sumar dæmdi Landsréttur barni sem var misnotað um langt árabil 2,5 milljónir í miskabætur. Í öðru nýlegu Landsréttarmáli voru barni sem hafði verið misnotað af afa sínum dæmdar 1.7 milljónir króna í miska. Einnig er stutt síðan maður sem hafði misnotað fatlaða konu var dæmdur til að greiða henni 2 milljónir í miskabætur.  Í júní mat Landsréttur miska fullvaxta konu vegna hrottalegrar nauðgunar sem botaþoli bar líkamlega áverka eftir á 1,8 milljónir. Í öðru máli var andlegt ástand brotaþola slæmt en ekki er getið um líkamlega áverka, í því máli voru brotaþola dæmdar miskabætur upp á 1,2 milljónir.

Þetta eru nýleg mál en árin 2014-2015, á sama tíma og Hæstiréttur dæmdi miskabætur vegna ólögmætra uppsagna upp á 200-500 þúsund, voru miskabætur til fullorðinna vegna nauðgunar á bilinu 500 þúsund til 1,2 milljónir. Í maí 2014 voru brotaþola sem bar áverka eftir nauðgun dæmdar 1,2 milljónir í miska. Í árslok 2014 staðfesti Hæstiréttur sakfellingu manns fyrir nauðgun gegn konu sem hann hitti reglulega en aðeins einn ákæruliður af mörgum taldist sannaður. Í því tilviki var miski metinn á 500 þúsund. Um hálfu ári síðar var maður sem misnotaði ölvun og svefndrunga konu til þess að nauðga henni dæmdur til að greiða henni 800 þúsund í miskabætur. Í nóvember 2015 voru karlmanni dæmdar miskabætur upp á 1 milljón vegna munnmaka sem hann var ófær um að sporna gegn vegna ölvunar og svefndrunga.

 

Það sem málið snýst raunverulega um

Úttektin hér að ofan er ekki ítarleg en nægir þó til að sýna fram á að staðhæfingar um að miskabætur í nauðgunarmálum séu lægri en bætur vegna ærumeiðandi uppsagna halda ekki vatni. Bæturnar í máli leikarans eru mun hærri en þolendur ólögmætra uppsagna hafa fengið hingað til. Ástæðan er væntanlega sú að þessi uppsögn er óvenju meiðandi og sóðaleg enda gekk leikhússtjóri einstaklega langt í brotum sínum gegn lögum og reglum við meðferð málsins, einmitt þeim reglum sem eiga að daga úr líkum á því að starfsmaður verði fyrir miska. Miðað við dómaframkvæmd í þessum málum hingað til kæmi þó ekki á óvart þótt miskabætur yrðu lækkaðar fyrir Landsrétti.

Ástæðan fyrir því að mál Atla Rafns gegn Leikfélagi Reykjavíkur vekur svo sterk viðbrögð með tlheyrandi rangfærslum um bætur til þolenda í nauðgunarmálum er sennilega sú að hávær hópur réttlætisriddara vill helst að hugmyndafræðin á bak við #metoo hreyfinguna fái stöðu réttarheimildar. Að vinnuveitendur fái frelsi til þess að losa sig við starfsmenn að eigin geðþótta án þess að skeyta hið minnsta um grundvallarsjónarmið réttarríkisins, án þess að virða rétt starfsmanns til æruverndar, án þess að gefa starfsmanni sjálfsagðar upplýsingar um það hvað honum er gefið að sök, hvað þá tækifæri til að svara fyrir sig.

Ég veit ekki hvort þetta fólk gerir sér grein fyrir því hvað það er að biðja um en ef það fær vilja sínum framgengt verður afleiðingin á endanum sú að starfsöryggi verður úr sögunni og konur jafnt sem karlar þurfa einfaldlega að sætta sig við atvinnumissi og mannorðshnekki vegna fantalegrar framgöngu vinnuveitenda. Sennilega er brýnni þörf á að draga úr þvi valdi sem atvinnurekendur hafa yfir starfsfóki en að auka það og nær væri að fagna háum miskabótum og nota fordæmið til að styðja kröfur um hærri bætur í öðrum málaflokkum en að grenja yfir meintu karlveldi þegar dómstólar viðurkenna rétt starfsmanna gagnvart atvinnurekendum.

Og sé það virkilega rétt að íslenskir atvinnurekendur neyði konur sem eru að missa fóstur til að ljúka vaktinni er beinlínis stórhættulegt að færa þeim meiri völd en þeir hafa nú þegar.

 

[Uppfært: Mér var bent á dóminn í máli 17 ára stúlkunnar, sem ÞEÞ vísar til. Þetta er dómur frá 2001. Stúlkunni var dæmd milljón í miskabætur og Hæstiréttur staðfesti þá fjárhæð og þyngdi dóminn yfir nauðgaranum. Framreiknuð til dagsins í dag er þessi bótafjárhæð 2,2 milljónir. Það er ekki mikið fyrir aðra eins meðferð. Vonandi fengi hún meira í dag en þetta er þó augljóslega meira en sú miskabótafjárhæð sem Atla Rafni var dæmd í vikunni.]

Deila færslunni

Share to Facebook

Þurfa íslenskir blaðamenn að leita til MDE eina ferðina enn?

Mynd: Martin Leveneur

Eitt þeirra ráða sem það afsprengi nazismans er kallast Útlendingastofnun hefur gripið til í því skyni að einangra flóttafólk er að banna heimsóknir á staði þar sem það er vistað. Þetta bann nær einnig til blaðamanna.

Heimsóknabannið var sett á undir því yfirskyni að með því ætti að vernda friðhelgi einkalífs þeirra sem þar dvelja. Þetta yfirskin er í meira lagi kaldhæðnislegt í ljósi þess að þeir sem gista Útlendingastofnun njóta alls ekki friðhelgi einkalífs sem þó er kveðið á um í stjórnarskrá sem og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þvert á móti geta umsækjendur um alþjóðlega vernd átt von á því hvenær sem er að lögreglan ryðjist inn til þeirra og gramsi í eigum þeirra á grundvelli venslasektar. Leiki grunur á um að einn úr hópi hælisleitenda hafi aðhafst eitthvað misjafnt, er þvingunaraðgerðum á borð við húsleit beint að öllum – jafnvel þótt engin tengsl séu á milli þeirra önnur en þau að koma úr skelfilegum aðstæðum og hafa lagt fram umsókn um vernd. Því síður nýtur flóttafólk friðhelgi einkalífs þegar lögreglan birtist um miðjar nætur og rífur það upp úr rúmi og sendir út í óvissuna, oftast í ömurlegar aðstæður sem varla nokkur Íslendingur myndi telja mannsæmandi ef hann ætti að lifa við þær sjálfur.

Raunverulega ástæðan fyrir heimsóknarbanninu er sú að þegar almenningur í landiu vaknaði loksins til meðvitunar um að flóttafólk væri geymt í Reykjanesbæ árum saman og synjað um réttláta málsmeðferð fóru anarkistar og aðrir róttækir aðgerðasinnar að venja komur sínar þangað. Sjálfboðaliðar á vegum mannúðarsamtaka höfðu komið þangað áður en þeir voru að mati yfirvaldsins meinlausir, buðu upp á félagsskap og öxl til að gráta á en trufluðu ekki störf þeirra sem leggja metað sinn í að halda útlendingum í skefjum – með öllum ráðum. Nærvera fólks með pólitískar meiningar var eitthvað nýtt og yfirvaldinu varð á endanum ljóst að heimsóknir þeirra voru til þess fallnar að stappa stálinu í viðföng Útlendingastofnunar. Það var alls ekki nógu gott því þessi verndari hins ættgöfuga og feykiduglega íslenska kynstofns stóð þá frammi fyrir þeim skelfilegu afleiðingum að flóttafólk fór að mótmæla meðferðinni á sér, eignast íslenska vini og sýna allskyns óæskilega sjálfsbjargarviðleitni. Ekki nóg með það, heldur tóku flóttamenn upp á þeim óskunda að leita til lögmanna sem anarkistar og annað snarbrjálað fólk mælti með og nenntu að vinna. Allt jók þetta álagið á starfsfólk stofnunarinnar og gerði því erfiðara að brjóta gegn mannréttindum flóttafólks.

En nú gæti hyllt undir breytingar í þessum efnum. Fyrr í þessum mánuði komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að enda þótt ríkin hafi rúmt svigrúm til að meta þörfina á því að takmarka aðgang að flóttamannabúðum, hafi Ungverjaland brotið gegn tjáningarfrelsi blaðamanns með því að synja honum um aðgang að flóttamannabúðum. Skipti þar máli að yfirvöld gátu ekki sýnt fram á að nærvera hans ógnaði öryggi íbúanna, enda höfðu þeir sjálfir samþykkt myndatökur og viðtöl.

Nú er ekki endilega víst að íslensk stjórnvöld og dómstólar telji að sér komi skoðun Mannréttindadómstólsins neitt við. Það er góð ástæða fyrir því að íslenskir blaðamenn eru fastagestir hjá Mannréttindadómstólnum. En ég vona að einhver þeirra láti nú á það reyna.

 

Deila færslunni

Share to Facebook

Hvernig hefði Mannréttindadómstóllinn metið Múhammeðsmyndir Charlie Hebdo?

Þann 15. október 2018 komst Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) að þeirri niðurstöðu að það fæli ekki í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði Mannréttindasáttmálans (MSE) að refsa konu í Austurríki fyrir gefa til kynna að Múhammeð spámaður hefði verið haldinn barnagirnd. Konan hafði látið slík orð falla í fyrirlestrum á vegum stjórnmálaflokks sem á rætur í Nazisma og hatast við innflytjendur. Sá veruleiki hefur þó ekki þýðingu í málinu því hún var ekki sakfelld fyrir hatursorðræðu heldur fyrir guðlast. Talið var að aðdróttanir hennar ættu sér ekki sannleiksstoð enda þótt Múhammeð hefði, samkvæmt trúarritum Islams, kvænst 6 ára telpu og fullkomnað hjónabandið þegar hún var 9 ára – hann gat vel hafa kvænst barni án þess að vera haldinn barnagirnd samkvæmt skilgreiningu alþjóðastofnana. Ég hef ýmislegt við þennan dóm að athuga en sú gagnrýni bíður betri tíma. Það sem mig langar að gera hér og nú er að skoða Múhammeðsmyndir Charlie Hebdo í ljósi þessarar niðuðstöðu og reyna að segja til um það hvernig MDE hefði metið  hefðu þær komið til kasta dómstólsins.

Tjáningarfrelsi gagnvart trúarbrögðum

Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í verklag MDE en ef maður ætlar að geta sér til um hvað dómstóllinn hefði gert í máli Charlie Hebdo skiptir verulegu máli hverskonar tjáning nýtur verndar Mannréttindasáttmálans. Almennt þarf mikið til að réttmætt teljist að skerða tjáningarfrelsi gagnvart pólitískum málum en það er þó réttlætanlegt þegar gengið er of nærri rétti eða mannorði annarra. Á sama grundvellli hefur MDE fallist á rétt ríkja til að takmarka frelsi til guðlasts því dómstóllinn túlkar trúfrelsisákvæði MSE þannig að trúfrelsi feli í sér rétt til að þurfa ekki að þola móðganir í garð trúarinnar. (MSE kveður reyndar ekki á um neinn slíkan rétt en þetta er semsagt túlkun MDE.) Augljóslega skapast vandamál þegar ádeila á trúarbrögð er bæði móðgandi og pólitísk. Þann vinkil eiga barnagirndarmálið og Charlie Hebdo sameiginlegan.

Þegar rétturinn til að setja fram pólitíska gagnrýni á trúarbrögð og rétturinn til að verða ekki fyrir trúarlegri móðgun rekast á þá metur MDE hvort gagnrýnin teljist óþarflega særandi og til þess fallin að vekja réttláta reiði. Það má gagnrýna trúarbrögð en gagnrýnandinn þarf samt að sýna einhverja lágmarks virðingu. Og hér vandast málið. Það er bara hreint ekki augljóst hvað telst óþarflega særandi eða hvenær reiði telst réttlát. Reyndar sé ég ekki betur en að þetta viðmið gæti slegið alla satríu, íróníu og svartan húmor út af borðinu. Gerum samt ráð fyrir því í bili að satíra, sem tjáningarmáti um samfélagsmál og pólitík, finni náð fyrir augum MDE.

 

Múhammeðsmyndirnar

Síðasta Múhammeðsforsíða Charlie Hebdo fyrir fjöldamorðin árið 2015 kom út í október 2014. Íslamska ríkið hafði verið stórtækt í grimmdarverkum sínum árið 2014 og m.a. birt myndskeið þar sem vígamenn hreyfingarinnar hálshjuggu ísraelsk-amerískan blaðamann sem hafði verið að störfum í Sýrlandi. Forsíðan sýnir spámanninn í klóm eins af liðsmönnum Íslamska ríkisins, sem kallar hann trúvilling og býr sig undir að gera hann höfðinu styttri.

Þessi mynd býður augljóslega upp á þá túlkun að hún feli í sér pólitíska ádeilu á Íslamska ríkið: Þeir eru svo ofbeldishneigðir og svo öfgafullir í hugmyndum sínum um villutrú að þeir myndu drepa spámanninn sjálfan ef þeir næðu til hans. Þar sem Íslamska ríkið er pólitísk hreyfing og skilaboðunum er ekki beint að Múslímum almennt, hefði þessi mynd sennilega ekki verið talin óþarflega særandi.

Mynd sem birtist inni í blaðinu í September 2012 er annars eðlis. Hún sýnir mann sem liggur á bæn. Hann er með vefjarhött, stjarna hylur afturendann a honum en kynfærin blasa við. Myndatextinn segir „Múhammeð: Ný stjarna“. Myndin vísar til kvikmyndastiklu sem hafði birst á YouTube fyrr á árinu undir heitinu “Innocence of Muslims”. Stiklan sýnir kvikmyndasenur þar sem dregin er upp mynd af spámanninum sem siðlausum þrjóti og sögur af honum settar í klámfengið samhengi. Stiklan vakti mikla reiði meðal Múslíma og víða um veröld urðu uppþot sem leiddu á endanum til þess að minnst 50 manns létust og hundruð særðust. Eins og venjulega bitnaði reiði Íslamista verst á almennum borgurum í Mið Austurlöndum sem hvergi höfðu komið nálægt gerð stiklunnar.

Skilaboðin sem þessi mynd ber með sér eru líka skýr: Nú já, svo þú móðgast svona rosalega þegar einhver hæðist að spámanninum. Þú ættir nú bara að sætta þig við það því móðgunum af þessu tagi mun ekki linna. Þessari ögrun er ekki bara beint að ofbeldissinnuðum öfgamönnum, heldur hverjum þeim Múslíma sem krrafðist þess að myndin yrði fjarlægð af YouTube. Miðað við dómaframkvæmd MDE hefði hann sennilega talið þessa mynd óþarflega særandi.

Það er allt eins líklegt að einhverjum finnist alls ekki augljóst að þessi mynd sé nógu móðgandi til þess að verðskulda ekki vernd MSE en það getur verið mun flóknara að spá fyrir um viðbrögð dómstólsins. Umdeildasta Charlie Hebdo mynd allra tíma er forsíðumynd frá 2011. Sú mynd varð kveikjan að árásunum í nóvember 2011 þegar hakkarar brutust inn á vefsvæði tímaritsins og heimagerði sprengju var kastað á höfuðstöðvar þess. Í það sinn urðu ekki slys á fólki, bara töluverðar skemmdir. Á forsíðu blaðsins, sem fór í dreifingu kvöldið áður en árásin var gerð, sést tilbrigði við hinn venjulega forsíðuhaus. Í stað Charlie Hebdo stendur “Charia Hebdo” og Múhammeð spámaður er kynntur sem gesta-ritstjóri. Forsíðumyndin sýnir Múhammeð skælbrosandi, segja: „100 svipuhögg ef þú deyrð ekki úr hlátri“.

Myndin gefur klárlega í skyn að Múhammeð hafi verið haldinn kvalalosta og það er augljóslega móðgandi fyrir Múslíma. Samt sem áður vísar forsíðan til grimmilegs veruleika; lagabókstafs úr Kóraninum sjálfum, sem mælir fyrir um 100 svipuhögg sem refsingu fyrir hórdómsbrot. Refsingar sem lög margra ríkja kveða á um og er fylgt eftir af fullri hörku.

Myndin felur í sér pólitíska gagnrýni á „Sharia“ (þ.e. lög Islams) og skírskotar til staðreynda. En hún er líka niðrandi og ef menn endilega vilja taka hlutina úr samhengi er mögulegt að bera því við að það séu ósannindi að Múhammeð hefði viljað refsa einhverjum fyrir skort á skopskyni. Hvað hefði MDE gert? Miðað við barnagirndardóminn frá október 2018 hefði þess mynd talist óþarflega niðrandi og byggð á ósönnuðum aðdróttunum.

 

Ætlar enginn að bregðast við?

Þannig er nú komið fyrir tjáningarfrelsinu í Evrópu, þegar guðlast er annars vegar. Flestir fjölmiðar brugðust við Múhammeðsmyndum Jótlandspóstsins 2005 með því að neita að birta þær. Mikil er ábyrgð þeirra. Enginn ríkisfjölmiðill í Evrópu birti myndinar. (Uppfært: Ég sagði upphaflega að enginn miðill hefði birt Jótlandspóstsmyndirnar nema Charlie Hebdo en fékk ábendingu um að 11 miðlar í Evrópu þ.á.m. DV hefði birt þær.) Hvernig ætla fjölmiðlar að bregðast við þeirri niðurstöðu að gagnrýni á trúarbrögð, byggð á trúarritunum sjálfum, njóti ekki verndar Mannréttindasáttmálans? Ég hef engin viðbrögð séð hjá heimspressunni enn önnur en þau að birta eða endursegja fréttatilkynningu um niðurstöðu dómsins frá október sl.

Hvernig ætlum við öll að bregðast við þessari niðurstöðu? Styðja einhverja Nazistakerlingu? Eins mikið ógeð og ég hef á þjóðernishyggju þá segi ég já, í þessu tilviki. Það felur ekki í sér stuðning við þjóðernishyggju að lýsa yfir hneykslun á því hvernig MDE tók á málinu. Þetta snýst ekki um það hvað Nazistar megi segja eða við hvern, þeir njóta sama tjáningarfrelsis og aðrir. Þetta snýst um það hvað hvert okkar getur leyft sér að ganga langt í ádeilu á trúarbrögð. Ef má ekki tala um Múhammeð sem barnaníðing, má þá vísa til guðsins sem mælti fyrir um Nóaflóðið sem fjöldamorðinga?

Í hamingjunnar bænum stingið ekki upp á frekari fjandskap í garð Múslíma. Aukið hatur í garð minnihlutahópa er það síðasta sem okkur vantar og það er engin lausn að reyna að hindra innflutning Múslíma til Evrópu, það gæti hinsvegar gert illt verra. En eigum við virkilega að sætta okkur við það að Evrópuríki geti óátalið refsað fólki fyrir að móðga fylgjendur trúarbragða, jafnvel þegar móðgunin felst aðeins í því að benda á ritningastaf og trúartúlkun sem meirihluti fylgjenda tekur bókstaflega?

 

Deila færslunni

Share to Facebook

Alþjóðadómstóll telur Erdoğan ábyrgan fyrir stríðsglæpum


Í gær komst alþjóðadómstóll í málefnum Tyrkja og Kúrda að þeirri niðurstöðu að Erdoğan, þjóhöfðingi Tyrkja, bæri beina ábyrgð á stríðsglæpum tyrkneska ríkisins gagnvart Kúrdum á undangengum árum. Dómurinn mælir meðal annars með því „neyðarástandi“ verði aflétt en í skjóli þess hafa Tyrkir áskilið sér rétt til að sniðganga ýmis ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttarríkið verði endurreist í Tyrklandi, blaðamönnum og fræðimönnum sleppt úr haldi og fjölmiðlafrelsi endurvakið. Ennfremur að Tyrkir kalli herdeildir sínar frá Afrín og að stríðsglæpir verði rannsakaðir í Tyrklandi og sekum refsað fyrir stríðsglæpi. Halda áfram að lesa

Deila færslunni

Share to Facebook