Einn mánuður

Eftirlitssamfélagið hefur sína kosti. Fyrir bara 15 árum fór miklu meiri tími í allar reddingar. Nú er hægt að klára flest mál í gegnum netið eða síma og yfirleitt þarf maður ekki einu sinni að vera með skilríki því það er hægt að skoða mynd af manni í ‘kerfinu’ ef mikið liggur við. Margir geta skilað skattaskýrslu bara með því að ýta á enter.

Ég er með flugmiða fyrir framan mig og búin að ganga frá vegabréfi líka. Tók enga stund og ekkert vesen. Einn mánuður er fáránlega fljótur að líða og ég ætti að vera rosalega stessuð. Samt er hugmyndin um að ég sé að fara út einhvernveginn svo fjarstæðukennd að ég er nenni ekki einu sinni að ganga frá pappírum fyrir bókarann minn.

Annars kemur það mér á óvart hve margir virðast ekki hafa neinn skilning á því hversvegna ég vil gera þetta. Ég er alltaf að fá spurningar á borð við ‘hverju heldurðu að þú getir breytt?’ Málið er að ef tilgangurinn væri sá að geta sagt: jess, við unnum, við björguðum heiminum, þá færi enginn í hjálparstarf og sennilega enginn í lækningar eða hjúkrunarstörf heldur.

Varnarlaust fólk þarfnast stuðnings og sá stuðningur skiptir máli. Ég gleymi aldrei manninum sem hjálpaði mér heim þegar ég datt af hjólinu mínu 9 eða 10 ára. Hann breytti kannski ekki heiminum en hann breytti einum degi í lífi eins barns.

Stundum hvarflar það að mér að krafan um markmið og árangur sé hættulegri en við höldum.

Daglegt líf

Má til að benda á þetta myndband sem ég sá hjá Sigga Hólm. Kannski snertir þetta myndband mig dýpra en ella af því að Haukur var í Tel Rumeida.Það eru einmitt svona hlutir sem rata ekki í fréttir og þessvegna erum við svo firrt. Við fáum fréttir af tölu látinna og særðra en lítið annað. Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hvernig það er að búa við þennan veruleika.

 

Komið til skila

Jæja Mogginn er búinn að leiðrétta mestu rangfærslurnar.

Ég varð frekar fúl þegar þeir sögðu frá þessu nánast eins og Haukur væri bara ranglandi um Palesínu á eigin vegum að snapa fæting en get kannski frekar lítið sagt þar sem ég neitaði að gefa upplýsingar (enda var ég búin að lofa Hauki að gera það ekki nema fá leyfi hjá honum fyrst.) Þetta er þá allavega komið á hreint og Haukur er kátur. Ekkert á heimleið held ég þótt flestum í fjölskyldunni hefði þótt best ef hann yrði bara rekinn úr þessu hræðilega landi.

 

Móðursýkin

Sonur minn Byltingin og Rósin sluppu lifandi úr eldsvoða nú um daginn. Gistu í trjáhýsi í 10-12 metra hæð og Haukur vaknaði við sviða í kokinu. Allt fullt af reyk og mér skilst að það sé ekkert grín að brölta hóstandi í gegnum brennandi tuskur og greinar og þurfa svo að klifra niður úr háu tré í niðamyrkri. Þau sluppu samt ósködduð og skógurinn líka. Af öllum frábæru ævintýrunum sem hann er búinn að segja mér frá er þetta það eina sem ég sé virkilega fyrir mér.

Rósin farin til Indlands og Byltingin einn á þvælingi um Evrópu. Mér fannst skárra að vita af honum með henni. Vil bara fá hann heim aftur sem fyrst og vita hann sofa innan dyra í alvöru húsi, þar sem er til sjúkrakassi og borða óhollan mat sem er búið að elda og setja á disk en ekki eitthvað gras sem hann finnur á víðavangi. Og svo vil ég líka fá að geyma vegabréfið hans sjálf.