Sápuópera tilveru minnar

Á árunum 2003-2009 var stór hluti bloggskrifa minna svipmyndir úr daglegu lífi mínu, æskuminningar, samskipti við vini og vandamenn og mínar eigin hugrenningar um samskipti mín við loðnara kynið og fleira persónulegt. Þessi persónulegu skrif fengu yfirleitt meiri athygli en samfélagspistlanir sem ég birti á sama vef. Þennan persónulega hluta vefbókarinnar hef ég ýmist kallað Reykjavíkurdrama eða Sápuóperu tilveru minnar.

Það er ákveðnum vandkvæðum háð að skrifa um einkamál sín í rauntíma. Til þess að komast hjá því að skaða sjálfa mig og annað fólk notaði ég aðferðir eins og að skrifa rósamál, blanda saman skáldskap og veruleika, breyta tíma og staðsetningu, gera eina persónu að mörgum eða skeyta mörgum saman í eina.

Að sumu leyti leiddi þessi aðferð til betri skrifa en á hinn bóginn er sápuóperan á köflum ákaflega loðin og illskiljanleg öðrum en þeim sem þekkja mig persónulega.

Þessi vefsíða er tilraun til endurvinnslu á Sápuóperunni. Ég hef fellt út það sem á betur heima annarsstaðar og birt það á öðrum þemasíðum á Norn.is en það efni sem tilheyrir Sápunni hef ég að hluta endurskrifað og bætt inn í, með það fyrir augum að setja sápuna í betra samhengi.