Rauður eða bleikur? (FB leikur)

Rauður kjóll. Bleik rúmföt. Rautt hár, bleikar geirvörtur (aarrrg… ekki öfugt)

Ég vil gjarnan hafa mjúka og dempaða liti í umhverfi mínu en klæðist yfirleitt sterkum litum. Líklega lít ég á útlit mitt sem tjáningu á karakter en umhverfi sem tjáningu á þörfum. Vertu bleikur við mig, sérstaklega ef þú vilt að ég fari úr rauða kjólnum.

Ætli ég þurfi að yfirstíga tepruskapinn?

Það er hægt að halda uppi símasamræðum við móður mína, allavega að vissu marki, á meðan maður reynir að lifa sig inn í Trainspotting. Rankaði við mér þegar hún tók sér í munn orðið endaþarmsmök. Ég er bara svo mikil tepra að mér hálfbregður alltaf þegar móðir mín byrjar að ræða sódómí og annað á þeirri línu. Halda áfram að lesa

Lena farin

Þá er hún farin. Ég lít á það sem morðtilraun.

Jódís fór út með sömu vél og bað mig þess lengstra orða að sleppa öllum fárviðrisgöldrum. Hmprff… það var hvort sem er afleit hugmynd og ég efast um að ég hefði náð neinu áhrifaríkara en slyddu.

Fullt tungl um helgina og upp úr því geta tiltekin dusilmenni vænst þess að eitthvað fari að visna undan þeim. Ég er nefnilega miklu jákvæðari gagnvart endurgjaldsgöldrum en því að möndla við náttúruna og hef enga trú á jafnvel dánarvottorð dugi til þess að þetta pakk læri að skammast sín.

Sundlaugarsaga

Þessi saga er tileinkuð félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar

Barnið kastaði sér skríkjandi út í djúpu laugina. Ekki með kút og ekki einu sinni kork og ekkert benti til þess að það kynni að synda. Barnið sökk en skaut upp aftur, virtist skemmta sér prýðilega og ekki gera sér minnstu grein fyrir hættunni. Halda áfram að lesa

Góður dagur

Mikið var þetta góður dagur.

Við fórum í Austurbæ og sáum Annie og svo komu afi Bjarni og amma Hanna í mat til okkar. Ég bjó til lasagne með spínati og möndlum sem uppistöðu og eftirrétturinn var mjög fljótlegur heimatilbúinn ís.

Ég er ákveðin í því að halda matarboð reglulega á þessu ári. Ég hef svo mikla ánægju af því að fá fólk í mat og matarboð útheimtir hvorki að maður þurfi að standa í stórþvotti sökum reykmengunar daginn eftir, né að maður missi svefn. Það er nákvæmlega ekkert vesen ef maður hefur lítinn tíma, mín reynsla er allavega sú að fólk kunni almennt vel að meta ofnrétti, pottrétti og annað sem hægt er að undirbúa með fyrirvara og það þarf heldur alls ekki að vera dýrt að bjóða fólki í mat.

Ruglus

Ég hef heldur betur ruglast í kvartilaskiptunum. Eins gott að ég galdraði um áramótin. Var mér enganveginn meðvituð um að einmitt á gamlársdag var nýtt tungl, það fyrsta eftir vetrarsólstöður. Ég galdraði allavega helling af hamingju svo þetta hlýtur að verða gott ár.

Næsti verulega magnaði galdradagur er semsagt ekki í dag heldur föstudagurinn 13. en þá um nóttina er einnig fyrsta fullt tungl í nýju ári. Ég endurtek þá bara lækningagaldrara sem ég framdi síðustu nótt, þeir verða bara magnaðri fyrir vikið.

Urr

Ég kemst ekki inn á bloggsíðuna mína (þ.e.a.s. síðuna sem birtist a blogspot.) Aðrar blogspot síður koma upp en mín er bara hvít. Fékk andartak hland fyrir hjartað því ég á ekki afrit af þessum textum og ég hugsa að ég sæi eftir nokkrum þeirra ef kæmi í ljós að síðan væri bara horfin. Ég get allavega afritað þá ennþá, það kom í ljós þegar ég reyndi að komast inn á ritsíðuna (blogger) eða hvað sem það heitir á íslensku).

Ég um mig til minnar listsköpunar

Það er nú mannsins eðli að álíta sjálfan sig áhugaverðusta einstakling á jarðríki. Flestir hafa mikla þörf fyrir að tala um sjálfa sig (annars þrifust ekki allar þessar bloggsíður) og sumir eiga svolítið erfitt með að átta sig á því að allir hinir hafa þessa sömu þörf fyrir að tjá sig um sjálfa sig. Mikilvægasta orð í heimi er „ég“. Halda áfram að lesa

Gerningar

Gerast nú dröm mikil í þeim þáttum sápuóperu tilveru minnar sem eigi er birtingarhæf í bloggheimum. Hef þegar varið 30 mínútum af þessum morgni í að reyna að leiða möppudýrum kerfisins fyrir sjónir þau voðaverk sem eru í uppsiglingu en spádómsgáfa mín er að engu höfð.

Ég hef aldrei gert alvarlega tilraun til veðurgaldurs en mun nú beita mér af öllu afli fyrir því að aðfaranótt 10. janúar gangi fellibylur yfir Keflavíkurflugvöll.

Niðurstaðan varð magadans

Urr.
Ég var að reyna að skrá mig á námskeið hjá Kramhúsinu en tekst ekki að senda skráninguna og enginn svarar síma.

Afródansar eru kenndir á laugardögum sem hentar mér enganveginn, svo ég skráði mig í magadans. Held reyndar að það sé ekki fljótleg leið til að auka úthald en öll hreyfing er betri en engin og þetta hlýtur þó að vera aðeins erfiðara en jóga. Auk þess er minni hætta á að mér finnist magadans leiðinlegur og markmið númer eitt er nú einmitt að leiðrétta þá skoðun að ég sé bara ekki þessi týpa sem hoppar. Kannski árangursríkara að velja eitthvað sem samræmist því þótt það skili ekki tígrisdýrslungum fyrir páska.

Reyndar kostar þetta aðeins meira en ég hafði hugsað mér að setja í viðhorfssnúninginn en ég hef náttúrulega allra síst efni á því að eyðileggja dæluna með notkunarleysi.

Kannski Afró

Er búin að skoða netsíður með námskeiðum. Það hlýtur bara að vera til einhver leikur eða íþrótt sem ég get haft gaman af. Það væru ekki til svona margar íþróttir ef líkamleg áreynsla væri í eðli sínu leiðinleg svo það hljóta að vera mín viðhorf sem eru eitthvað gölluð.

Ekkert af því sem er í boði vekur áhuga minn enda finnst mér fátt ógeðslegra en að finna svitatauma renna niður með síðunum (set það í sama ógeðsflokk og að þrífa öskubakka eða ælu.)

Ég er samt ákveðin í að finna eitthvað sem ég hef gaman af, svo þetta verði ekki bara íþyngjandi þriggja mánaða skylduræknisátak og svo ekki söguna meir. Hugsa að lendingin verði Afródans. Hann er allavega fyndinn.

Narnía

narniaNarnía stóð alveg undir væntingum. Ekki stórvirki kannski en alveg ágætis fjölskylduafþreying.

Mér fannst hvíta nornin frábær, jólasveinninn talsvert meira sannfærandi en kókakólaskrípið og sleppti því alveg að segja hohohó, hugmyndin um börnin sem holdgervinga frumefnanna kemst vel til skila og bardagaatriðin voru ekki óþolandi löng.

Drengurinn sem lék Edmund stendur upp úr af systkinunum sem „svipbrigðaleikari“ þótt þau hafi öll komist mjög vel frá sínum hlutverkum. Það er kannski bara af því að hans hlutverk gerir mestar kröfur að því leyti að hann þarf oft að sýna hugsanir með svipbrigðum fremur en með að koma þeim til skila með orðum, raddblæ og líkamstjáningu. Ég spái því allavega að honum verði boðin töluvert krefjandi hlutverk í framtíðinni.

Símtal

Ég hringdi í Manninn sem vill ekki eiga brauðrist með konunni sinni.

-Eru þunnur?
-Ekki lengur.
-Eitthvað planað í kvöld?
-Nei.
-Viltu skiptast á líkamsvessum við mig?
-Oj!
-Oj, er það persónulegt gagnvart mér eða ertu bara ekki í stuði?
-Þú hefur allavega orðaforðann til að kippa manni úr stuði. Djöfull skal ég veðja að þú ert í hjúkkubúningi.
-Nei, ég er bara í gallabuxum og bol, ég lofa.
-Eigum við að þá að fara eitthvað út?
-Út?
-Já. Við höfum aldrei farið neitt út saman.
-Af hverju ættum við að fara út saman?
-Fólk sem sefur saman fer stundum líka út saman.
-Elskan, við sofum ekki saman. Við skiptumst á líkamsvessum. Finnst þér það ekki nóg?

Hann þagði smá stund. Ráðlagði mér síðan að fara til sálfræðings, í frekar pirruðum tón. Lagði svo á án þess að kveðja.

Sumir bara ná þessu ekki

Ég er ekki símaglöð kona. Ég lít á síma sem öryggis og upplýsingatæki, ekki afþreyingartæki. Þeir sem vilja halda uppi einhverjum félagslegum samskiptum við mig verða bara vessgú að koma í heimsókn eða í versta falli hringja og segja hratt skýrt og skorinort, geturðu hitt mig á kaffihúsi í kvöld, ókei, bæ, sjáumst. Þetta vita allir sem þekkja mig. Nema sumir. Sumir bara ná þessu ekki. Halda áfram að lesa

Beðið eftir Georgie

Á þeim tíma var margt öðruvísi, eiginlega allt. Nema sumt. Það breytist ekki.

-Það er svo skrýtið að dauðinn er það skiljanlegasta af þessu öllu, sagði ég við Carmen og heyrði að enskan mín var farin að smitast af spænska hreimnum hennar. Sagði henni svo að þótt hann væri dáinn væri ég í rauninni ekkert sorgmæddari en ég hafði orðið í öll skiptin sem við slitum sambandinu og að ég hefði dálítið samviskubit vegna þess. Halda áfram að lesa