Áramótaheit

Árið 2006 ætla ég að losa mig við það viðhorf að öll hreyfing sem reynir á hjarta og lungu gegni eingöngu því hlutverki að viðhalda líkamanum en sé í eðli sínu leiðinleg.

Ég hef aldrei haft ánægju af líkamlegri áreynslu.
Ég hef aldrei upplifað endorfínkikk.
Mín hugmynd um skemmtilega líkamsrækt er jóga.
Ég hef stundum verið virkilega dugleg að hreyfa mig nokkra mánuði í senn og oft ráðið mig í störf sem útheimta áreynslu en ekki af því að ég hafi ánægju af því, heldur af því að ég er ekki nógu fær í sjálfsblekkingu til að telja að ég komist upp með að halda heilsu með þeim lifnaðarháttum sem mér þykja þægilegastir.

Vélsmiðjan og byggingarvinnan síðasta vor dugðu til að ég er enn ekki að því komin að leggjast í kör en á þessu ári mun ég aðallega sitja við föndur og textagerð. Sé fram á að hjartað í mér hætti að reyna að hafa fyrir því að slá svona um eða upp úr páskum.

Mér finnst ekki gaman að svitna en ef ég ætla bæði að halda góðri heilsu og standa við það að gera ekkert sem ég vil ekki, þá er bara eitt til ráða; að skipta um skoðun.

Þekkja lesendur einhver dæmi um íþrótt eða annað sem kemur blóðinu á hreyfingu sem er hægt að stunda innandyra (ég hef ekki góð tök á veðurgaldri) og er ekki leiðinlegt, dýrt eða tímafrekt? Allar tillögur vel þegnar.

Best er að deila með því að afrita slóðina