Birta: Nei sko, sjáðu hver er kominn!
Eva: Og hvað með það, hann á erindi.
Birta: Svona líka þaulskipulagt erindi.
Eva: Ef það væri skipulagt hefði hann komið fyrr.
Birta: Hann er ekki asni. Ef hann hefði komið fyrr hefði það litið út eins og hann væri að gera sér erindi.
Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: 6. hluti … og ég sé það fyrst á rykinu
Bölbæn dagsins
Ég vil þakka sætu stelpunni hjá Vísa, sem bjargaði hinum innkomumikla laugardegi með því að lána mér kort í posann og veita mér sálgæslu í geðbólgu minni gagnvart því eymdarinnar fyrirtæki Símanum sem hefur nú náð nýjum hæðum í slæmri þjónustu. Halda áfram að lesa
Hvað veit maður ekki?
Hún virti mig fyrir sér og spurði hvort ég væri ekki vinkona Stebba. Ég þekki engan Stebba og sagði henni það.
-Nú, varst það ekki þú sem komst einnu sinni með honum á fund hjá Sóló? sagði hún og ég kveikti auðvitað um leið.
Ég var eins og asni. Stefán tilheyrir mínum næstinnsta (og afskaplega fámenna) vinahring, þeim sem kemur næst á eftir fjölskyldunni en ég hafði ekki hugmynd um að hann væri kallaður Stebbi. Það sem meira er, það hefur aldrei hvarflað að mér. Væri samt rökrétt er það ekki? Eru ekki flestir Stefánar kallaðir Stebbar? Kannski er ekki aveg í lagi með mig.
Kannski er þetta alltaf svona. Kannski eru einhver grundvallaratriði sem maður veit ekki og hefur aldrei leitt hugann að. Og svo er spurning hvort slík grundvallaratriði skipta einhverju máli. Allavega finnst mér ótrúlegt að við Stefán værum neitt meiri vinir þótt ég kallaði hann Stebba.
Feminismus
Pilturinn bauðst til að bera pokana fyrir mig og ég þáði það. Lét þakklæti mitt í ljós og hafði á orði að fáir íslenskir karlmenn skildu gildi þess að sýna herramennsku.
-Ég skil það heldur ekkert, sagði pilturinn, ég geri þetta bara af því að ég skora svo mörg stig með því og það væri heimskulegt að nýta sér það ekki.
Halda áfram að lesa
Og hér kemur enn ein vísan …
-Hvernig líst þér á auglýsinguna? spurði auglýsingasalinn.
-Hún er bara mjög fín, svaraði ég.
-Gott að heyra en hvernig líkuðu þér vísurnar sem ég sendi þér?
Ég þagði smá stund og reyndi að hugsa upp viðeigandi svar.
-Þú ert nú betri sölumaður en skáld, sagði ég að lokum.
Upphóf hann þá mikinn kvæðalestur í því skyni að afsanna þá kenningu mína.
Ekkert persónulegt
Það er ekki óalgengt að fjarskyldir ættingjar og gamlir kunningjar reki nefið inn í Nornabúðina, rétt svona til að kasta á mig kveðju eða forvitnast. Eitthvað í fari hans sannfærði mig þó um að hann ætti brýnna erindi. Hann þáði kaffi, spurði út í vörunar af uppgerðaráhuga og trommaði fingrunum á borðið. Sagðist svo hafa rekist á vefsíðuna af tilviljun. Halda áfram að lesa
Grafið
-Ég þarf að tala við þig, sagði hann og þótt ég vissi ekki nákvæmlega hvað hann ætlaði að segja, vissi ég samt hvað það þýddi fyrir mig. Reyndi að kyngja kekkinum með allt of sterku kaffi en það mistókst og tárin brutust fram áður en hann kom næstu setningu að.
-Ég verð bráðum pabbi. Halda áfram að lesa
Eilífðarblóm
-Hef ég nokkurntíma vakið verndarþrá í brjósti þínu? spurði ég.
-Nei Eva, sagði hann. Ungbörn vekja manni verndarþrá og týndir kettlingar. Kannski sjúklingar. Ekki þú.
-Og litlar konur líka. Það er allavega kenning. Litlar konur vekja verndarþrána í brjósti karlmannsins. Eitthvað svona frá tímum hellisbúanna.
-Nope, ekki þú. Ég get ekki ímyndað mér að nokkrum karlmanni hafi nokkurntíma dottið í hug að þú værir ekki fullfær um að passa þig sjálf. Hvað ertu annars að hugsa? Ef ég þekki þig rétt þætti þér ekkert lítið pirrandi ef einhver héldi að þig vantaði verndara.
-Auðvitað vantar mig ekki verndara. Ég er bara að pæla í því hvort vanti í mig eitthvert mikilvægt, kvenlegt element.
Einu sinni fyrir mörgum árum hitti ég fræðimann á fylliríi. Hann var á blús og eitt af því sem honum þótti sorglegt var að hafa aldrei fengið blóm fyrir kennslu- eða fræðimannsstörf sín. Ég sagði honum hálfundrandi að það hefði aldrei hvarflað að mér að hann hefði gaman af blómum.
-Ég hef heldur ekkert gaman af blómum, sagði hann. En ég hefði gaman af því að vita að einhverjum þætti ég eiga skilið að fá blóm.
Hugvekja um hamingjuna
-Ég er svo ánægð með hann, sagði hún og strauk mælaborðinu ástúðlega. Ég gat vel skilið það. Lúxus er, tja… lúxus.
-Hvernig ferðu að því, einhleyp með unglinga, að eiga svona flott heimili, vera alltaf í nýjum fötum, alltaf í útlöndum og eiga nýjan, fjögurra milljón króna jeppa? spurði ég.
-Blessuð góða ég skulda þetta allt saman, sagði hún og hló glaðlega, rétt eins og það væri mikið fagnaðarefni að vera nýbúin að bæta fjórum millum við skuldahalann.
-Gott ef það virkar fyrir þig en ég gæti þetta ekki, sagði ég. Minn er nú bara gamall og ljótur en ég á hann þó allavega skuldlausan.
Hún kveikti sér ekki í sígarettu, því maður reykir ekki í nýjum bíl en handahreyfingarnar komu upp um hana. Hana dauðlangaði.
-Veistu dálítið Eva. Einu sinni átti ég allt skuldlaust. Litla íbúð, lélegan bíl og ljótt innbú. Gerði aldrei neitt og fór aldrei neitt, eldaði soyjakjöt og grjónagraut til skiptis. Ég var skuldlaus en ég var samt ekki baun hamingjusöm. Nú er ég svo skuldug að ef ég verð bráðkvödd mun bankinn setja hræið af mér á uppboð. En so what? Þegar ég kem út á morgnana, í almennilegum rúskinnsstígvélum og set þennan í gang, þá finnst mér ég eiga heiminn. Skuldlausan. Og maður lifir bara einu sinni.
Ég skil hana. Mér finnst eitthvað sjúkt og rangt við þetta viðhorf. Samt velti ég því fyrir mér hvort ég sé að missa af einhverju.
Mara
Skrattinn steig niður af veggnum og tróð sér undir sængina.
-Hvað varð um líkið sem þú geymdir í kjallaranum? spurði hann og rak kaldar klaufirnar í vinstri sköflunginn á mér.
-Ég gróf það, svaraði ég og breiddi betur úr mér í von um að hann yrði fljótt leiður á þrengslunum.
-Meeeehhh. Hversvegna varstu að grafa þetta fallega lík? spurði hann og lét ekki á sér finna að plássleysið færi neitt fyrir brjóstið á sér. Halda áfram að lesa
Brú
Auðvitað hlaut að koma að því að við hittumst á götu. Nánar tiltekið rétt fyrir utan Nornabúðina -sem er reyndar rökrétt.
-Nú er ég „hið óumflýjanlega“, hugsaði ég kampakát, kastaði á hann kveðju, bauð honum ekki inn með orðum en skildi dyrnar eftir opnar, bara svona til að kanna viðbrögðin. Hann fylgdi mér inn. Halda áfram að lesa
Pappakassar
Sannleikurinn hefur aldrei gjört mig frjálsa, það hinsvegar gerir rækileg tiltekt. Eins leiðinlegt og það er að losa sig við dót sem þvælist fyrir manni er það stundum nauðsynlegt og yfirleitt saknar maður þess ekki að ráði. Að vísu veit ég ekkert hvað ég ætla að gera við dótið sem ég bar upp úr kjallaranum í fyrradag, ég er ekki alveg tilbúin til að aka því í Sorpu og hef ekki pláss fyrir það heima hjá mér en það er samt eitthvað frelsandi við að vera búin að koma því í merkta pappakassa.
Nauð
Stefán og drengirnir hans komu í mat til mín í gær.
Askur: Hversvegna skilur fólk? Ég myndi aldrei vilja skilja. Maður ætti bara að giftast einhverri sem maður er viss um að maður muni alltaf elska.
Stefán: Það er það sem fólk gerir. Maður trúir því en svo skiptir fólk um skoðun þegar vandamálin verða of mörg.
Eva: Og þegar þú þarft alltaf að vera með besta vini þínum þá verðurðu þreyttur á honum.
Askur: Maður ÞARF ekki að vera alltaf með besta vini sínum.
Það er nú þannig með drengi, þeir gera ekki endilega ráð fyrir raunveruleikanum.
Rún dagsins er Nauð.
Dylgjublogg
Kominn með Langbrók upp á arminn sé ég. Þokkalegt skor það. Bingó!
Ljótt
Horfir fjarrænn fram hjá mér, þambar kaffið. Ósköp fer honum illa að vera edrú.
-Eitthvað að frétta? Halda áfram að lesa
Úff!
Kínamann vill losna við dótið hans Helga úr kjallaranum. Hann hefur semsagt ekki náð því þótt ég notaði handapat og barnamál.
Göngum við í kringum
Jæja, þá er Kínamann búinn að dansa fyrir mig „göngum við í kringum einiberjarunn“ eða eitthvað álíka. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því af hverju hann var að útskýra svona nákvæmlega hvernig hann þvær og straujar skyrturnar sínar en ég náði því að hann á 20 hvítar skyrtur og engin þeirra er „kapútt“ af því að hann er svo duglegur að strauja. Halda áfram að lesa
Kínamann
Kínamann er fluttur í kjallarann. Sjoppmundur hafði víst bent honum á að tala við mig og athuga hvort dyngjan mín væri föl. Halda áfram að lesa
Tíðir
-Finnst þér þetta gott? spurði hann og togaði í geirvörturnar á mér.
-Nei, sagði ég.
-Hvað finnst þér gott? Mig langar að gera eitthvað bara fyrir þig, laug hann.
-Þú ert svo mikið karlmenni, svaraði ég. Halda áfram að lesa
Tókuð þið nokkuð eftir því sjálf hvað ég var sniðugur?
Þessa dagana fer fátt meira í taugarnar á mér en frasinn „pun intended“ nema ef vera skyldi „no pun intended“. Þetta orkar jafn illa á mig og spaugarinn sem getur ekki verið fyndinn nema með því að nota inngang á borð við; „á ég að segja þér brandara?“
Það er ekkert grín að vera hnyttinn. Ef maður getur ekki treyst áheyrandanum/lesandanum fyrir textanum, þá er það annað hvort vegna þess að hann er svo ómeðvitaður að hann á hvort sem er ekki skilið að fatta djókinn, eða þá að orðaleikurinn var hvort sem er of ómerkilegur til að verðskulda athygli.