Mara

Skrattinn steig niður af veggnum og tróð sér undir sængina.
-Hvað varð um líkið sem þú geymdir í kjallaranum? spurði hann og rak kaldar klaufirnar í vinstri sköflunginn á mér.
-Ég gróf það, svaraði ég og breiddi betur úr mér í von um að hann yrði fljótt leiður á þrengslunum.
-Meeeehhh. Hversvegna varstu að grafa þetta fallega lík? spurði hann og lét ekki á sér finna að plássleysið færi neitt fyrir brjóstið á sér.

-Það var farið að slá í það. Það er víst ekki heilsusamlegt að búa með líki. Getur líka fælt gesti frá húsinu, muldraði ég og breiddi sængina upp fyrir haus.
-Og hvaða tákn settirðu á gröfina, spurði hann ísmeygilega. Varla kross?
-Nei ekki kross. Reyndar ekkert tákn.
-Ekkert tákn? Meeehhh. Þú með þína táknsýki.
-Nei, ekkert tákn. Engin blóm heldur. Til hvers svosem? Eins og líkinu sé ekki sama.
-Fyrir þig kannski?
-Ég sé nú ekki alveg lógíkina í því. Það er ekki eins og ég ætli að fara að heimsækja gröfina.
-Nei, þú hefur auðvitað enga þörf fyrir tákn um það sem þú ert búin að grafa.
-Ég hef ekki drepið neinn.
-Nei, ekki drepið neinn. Bara grafið. Meeeehhh!
-Viltu vera svo vænn að hætta þessu jarmi, ég er að reyna að sofna. Já og viltu líka hætta að nugga hornunum við hnakkann á mér.
-Ókei, ég skal hætta því,
sagði skrattinn af veggnum og ég hnipraði mig betur undir súðina.

Ég var rétt að festa svefninn þegar hann rak hýjunginn í hálsinn á mér.
-Hvað viltu nú? hvæsti ég.
-Mig langar að gera eitthvað fyrir þig, sagði hann fleðulega.
-Ef þú vilt í alvörunni gera eitthvað fyrir mig, drullaðu þér þá út héðan, sagði ég.
-Út í garð að grafa upp líkið?
-Nei, út að skíta! Ég kæri mig ekkert um að þú sért að leysa vind hérna undir sænginni minni.
-Ég gæti gert það en fyrst ætla ég að sleikja eyrað á þér.

Þá fór ég fram úr og klæddi mig. Svo ók ég upp að aðalbyggingu Háskólans og settist á tröppurnar.