-Ég er svo ánægð með hann, sagði hún og strauk mælaborðinu ástúðlega. Ég gat vel skilið það. Lúxus er, tja… lúxus.
-Hvernig ferðu að því, einhleyp með unglinga, að eiga svona flott heimili, vera alltaf í nýjum fötum, alltaf í útlöndum og eiga nýjan, fjögurra milljón króna jeppa? spurði ég.
-Blessuð góða ég skulda þetta allt saman, sagði hún og hló glaðlega, rétt eins og það væri mikið fagnaðarefni að vera nýbúin að bæta fjórum millum við skuldahalann.
-Gott ef það virkar fyrir þig en ég gæti þetta ekki, sagði ég. Minn er nú bara gamall og ljótur en ég á hann þó allavega skuldlausan.
Hún kveikti sér ekki í sígarettu, því maður reykir ekki í nýjum bíl en handahreyfingarnar komu upp um hana. Hana dauðlangaði.
-Veistu dálítið Eva. Einu sinni átti ég allt skuldlaust. Litla íbúð, lélegan bíl og ljótt innbú. Gerði aldrei neitt og fór aldrei neitt, eldaði soyjakjöt og grjónagraut til skiptis. Ég var skuldlaus en ég var samt ekki baun hamingjusöm. Nú er ég svo skuldug að ef ég verð bráðkvödd mun bankinn setja hræið af mér á uppboð. En so what? Þegar ég kem út á morgnana, í almennilegum rúskinnsstígvélum og set þennan í gang, þá finnst mér ég eiga heiminn. Skuldlausan. Og maður lifir bara einu sinni.
Ég skil hana. Mér finnst eitthvað sjúkt og rangt við þetta viðhorf. Samt velti ég því fyrir mér hvort ég sé að missa af einhverju.
—————————————
ég hef margoft velt þessu sama fyrir mér og ekki komist að neinni niðurstöðu. stundum held ég að það að gefa skít í samviskusemi og ráðdeild sé það eina rétta.
haga mér samt ekki þannig…réði trúlega ekki við það.
Posted by: baun | 13.09.2007 | 17:19:59
———————————-
Held að sálarró verði seint metin til peninga.
Posted by: Guðjón Viðar | 13.09.2007 | 17:44:06
———————————-
Skil hana voða vel!
Mér líður svooo vel meðan ég er að eyða peningum sem ég á ekki. Strax á eftir ömurlega.
Þess vegna ákað ég að fá mér aldrei aftur visa eða ávísunahefti. Er svo mikill nautnaseggur að ég ræð ekki við mig með þannig freistingar í veskinu.
Posted by: Hulla | 14.09.2007 | 7:15:37
———————————-
Ætli það fáist nokkuð fyrir hræið á uppboði og hver borgar þá brúsann ? Erfingjarnir auðvitað. það er nefnilega bæði hægt að erfa eignir og skukldir.
Kæv kveðja,
Posted by: Ragna | 16.09.2007 | 0:11:42
———————————-
Ég tek það fram að ég var ekki drukkin þegar ég skrifaði kommentið í mesta lagi bara syfjuð, en svona stafavillur pirra mig ósegjanlega og bið ég því forláts á þeim.
Posted by: Ragna | 16.09.2007 | 0:15:09
———————————-
Þú erfir nú í rauninni ekki skuldir. Lánardrottnar eiga kröfu í dánarbúið og ef eignir hins látna duga ekki fyrir skuldunum er það kröfuhafinn sem situr uppi með tapið. Það er hægt að skilja fjölskylduna eftir arflausa en það er ekki hægt að steypa erfingjum sínum í skuldir nema þeir séu ábyrgðarmenn á lánum sem dánarbúið stendur ekki undir. Enda er það á ábyrgð lánardrottna að krefjast ábyrgðamanna og/eða veðs fyrir skuldum.
Posted by: Eva | 16.09.2007 | 12:04:11