Gleðilegan 16. júní

Skrattinn er ekki ennþá laus. Ekki ennþá.

Við fáum gamla jaxla úr samtökum herstöðvarandstæðinga í mat í kvöld. Ég reikna með að fagna þjóðhátíðardeginum með bylingarelexír og ættjarðarsöngvum fram eftir nóttu.

Hvort það losar tappann úr sauðarleggnum eða kýlir hann inn, það verður bara að koma í ljós.

 

Andvaka

Eva: Ég held að tappinn sé að losna úr sauðarleggnum.
Birta: Andskotakornið. Ég var að vona að tappinn væri að losna úr Þvagleggnum.
Eva: Í alvöru, það er eitthvað í aðsigi, ég er með verk í hjartanu.
Birta: Kannski er það bara líkamlegt. Of mikið kaffi?
Eva: Nei, það er Skrattinn.
Birta: Við þurfum að sofa.
Eva: Við þurfum að troða tappanum í legginn.
Birta: Á morgun kannski. Við getum ekki tekið áhættuna á að hreyfa við honum núna.

Eva: Af hverju er ég í rusli? Af hverju núna?
Birta: Skiptir það nokkru máli? Geturðu ekki bara hætt að vera í rusli og þar með hætt að pæla í því?
Eva: Ég held að tappinn sé að losna úr sauðarleggnum. Ég held það í alvöru.

Bísam

Eva: Hvort þætti þér verra; að vera utangarðs út á það sem þú ert eða að njóta viðurkenningar út á eitthvað sem þú ert ekki?
Ljúflingur: Ég held að gagnvart hópnum vilji flestir vera inni, jafnvel út á falska ímynd. Ekki kannski þú en flestir eru háðir félagslegri viðurkenningu.
Eva: Ég held að þú hafir rétt fyrir þér en gildir annað gagnvart nánum samböndum en hópnum?
Ljúflingur: Jaaaaá, viljum við ekki geta tekið niður grímurnar í nokkuð góðri vissu um að við séum elskuð þrátt fyrir að vera eins og við erum?
Halda áfram að lesa

Kenndin

Mér finnst ég ekki veikbyggð en þótt hendur hans séu ekki stórgerðar nær hann utan um báða úlnliði mína með annarri þeirra. Rennir fingurgómum yfir kviðinn á mér og horfir á mig, mosamjúkum augum. Kyssir eins og á að kyssa. Elskar eins og á að elska. Fullkomið samspil hörku og blíðu, hann les mig rétt og ég finn að hann hefur það í sér, í alvöru. Leysir böndin á silkitoppnum mínum, sem er blágrænn eins og Pegasus. Og Kenndin rís úr djúpi aldanna; þykk, svört og voldug, hellist yfir mig, gagntekur mig.
-Já, hvísla ég þótt hann hefi ekki orðað neina spurningu.
-Ertu viss?
-Já.

Skrattinn steinsofandi í sauðarleggnum uppi við Rauðhóla og bærir ekki á sér. Það er fullkomnað.

Ligg í hálfmóki einhversstaðar milli ljóðs og vímu. „Maður fær ekki allt“ hef ég svo oft sagt. Hvílk della. Maður fær einmitt allt. Stundum meira að segja eitthvað betra en það sem maður biður um. Ég hefði orðið hæst ánægð með Elías en mér datt aldrei í hug að ég fengi Pegasus í staðinn.

-Ég treysti þér Pegasus,
segi ég.
-Já, það er greinilegt, svarar hann og brosir kankvíslega eins og hann er vanur. Líklega kemur það mér meira á óvart en honum.

Það er fullkomnað.
Eftir öll þessi ár er það fullkomnað.

 

Mara

Skrattinn steig niður af veggnum og tróð sér undir sængina.
-Hvað varð um líkið sem þú geymdir í kjallaranum? spurði hann og rak kaldar klaufirnar í vinstri sköflunginn á mér.
-Ég gróf það, svaraði ég og breiddi betur úr mér í von um að hann yrði fljótt leiður á þrengslunum.
-Meeeehhh. Hversvegna varstu að grafa þetta fallega lík? spurði hann og lét ekki á sér finna að plássleysið færi neitt fyrir brjóstið á sér. Halda áfram að lesa

Okkar maður

-Skil ég rétt að þú sért sátt við þetta fyrirkomulag eins og það er, en hafir áhyggjur af því að ég taki upp á því að gera meiri kröfur? spurði ég.
-Já, ég get ekki neitað því. Þú virðist vilja meira. Svo hef ég líka velt því fyrir mér hvernig þetta yrði ef við eignuðumst barn.
-Ég held að þú þurfir ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Hann vill ekkert eignast barn með þér, sagði ég. Halda áfram að lesa

Stál

Hefur gengið á með éljum. Skrattinn hamast á dyrabjöllunni og Amma hans sendir sms. Skrattinn svarar ekki símanum og Amma hans svarar ekki dyrabjöllunni. Lítið um sprungnar skeljar í þeirri fjölskyldu.

Um miðnætti tróð ég Skrattanum í sauðarlegginn og stáltappa í opið. En ég átti bara einn legg svo Amman lék lausum hala í alla nótt og hélt fyrir mér vöku. Um það leyti sem hún fékkst til að leggja sig var Skrattinn vaknaður. Ég gerði tilraun til að bjóða honum morgunmat ef hann lofaði að vera stilltur en hann trompaðist bara og hótaði að aka stórri ýtu á stáltappann ef ég opnaði ekki fyrir honum.

Svei mér þá ef lítur ekki út fyrir stórhríð.

 

Drög

Birta: Ég held að þú sért að leggja drög að vandræðum.
Eva: Æ, góða láttu mig í friði. Það er ekki eins og ég hafi verið að máta brúðarkjóla.
Birta: Nei, ætli þú mátir ekki bara dindilinn á honum. Og verðir svo steinhissa þegar þú kemst að því að ekkert annað í fari hans passar við þig. Ég sé alveg í gegnum hann get ég sagt þér, og þetta byrjar EKKI gæfulega.
Eva: Þú ert aldeilis athugul, ég tók ekki eftir neinu ógæfulegu.
Birta: Og þú ætlar bara að hundsa innsæi mitt? Dettur þér ekkert í hug að þetta bendi til þess að hann hafi eitthvað að fela?
Eva: Fjárans tortryggnin í þér alltaf hreint, hvað heldurðu að þetta eina smáatriði, EF það er þá rétt hjá þér, segi okkur um hann.
Birta: Ekki þetta atriði í sjálfu sér, heldur það að hann skuli ekki bara hafa sagt það hreint út. Af hverju er það feimnismál ef ekkert meira hangir á spýtunni?
Eva: Af því að fólk gengur út frá því sem vísu að ef þessi tiltekni kubbur er ekki í kassanum, hljóti pakkinn að vera gallaður. Sjáðu okkur, við spurðum ekki einu sinni, við reiknuðum bara með kubbnum.
Birta: Hann hlýtur þá að líta svo á sjálfur að hann vanti þennan kubb. Sárlega. Annars hefði hann leiðrétt okkur.
Eva: Jæja, segjum við kannski Pétri og Páli allt sem við skömmumst okkar ekki fyrir?
Birta: Nei en það er bara af því að fólk er fífl.
Eva: Flest fólk dæmir mann út frá yfirborðinu. Hann hefur enga ástæðu til að ætla að ég sé eitthvað öðruvísi og ég skil bara vel að hann nenni ekki að útskýra fyrir ókunnugri manneskju hluti sem þarfnast ekki réttlætingar. Auk þess getur vel verið að þér skjátlist. Ég var lengi að leita að bílastæði og túlkunargleði þín er ekki beinlínis í lágmarki þegar karlmenn eru annars vegar.

Birta: Kannski er hann líka áhættufíkill, þú sérð nú áhugamálin hans.
Eva: Jájá, það getur verið stórkostlega varasamt að reyna á skrokkinn á sér. Eða gæludýrahaldið, það er auðvitað mjög grunsamlegt að eiga kött.
Birta: Hann á nú ekkert bara kött.
Eva: Ég held ekki að hann sofi með hitt dýrið uppi í rúmi hjá sér.
Birta: Kannski er hann gjaldþrota laumureykingamaður og alveg á kafi í djamminu. Kannski hefur hann misst bílprófið vegna ölvunaraksturs.
Eva: Já, kannski. Kannski er hann líka keðjusagarmorðingi, hver veit?

Eva: Birta. Ertu búin að hleypa skrattanum úr sauðarleggnum?
Birta: You and me and the devil makes three.
Eva: Drottinn minn djöfull er ég orðin þreytt á að dragast með ykkur hvert sem ég fer.

Þá lagðist skrattinn í gólfið og tók traustataki í pilsfaldinn minn.

 

Skrattinn í leggnum

Hann brölti um í sauðarleggnum í nótt og tókst að hagga beininu, m.a.s. velta því nokkrum sinnum þannig að glumdi í gólfinu undir rúminu mínu. Þegar ég vaknaði í þriðja sinn, hótaði ég að sækja róðukross og fimmarmastjörnu og Ægishjálm ef hann hefði sig ekki hægan.
-Einhversstaðar verða vondir að vera, sagði hann.
-Gakktu þá í Sjálfstæðisflokkinn gerpið þitt, svaraði ég.
-Mig langar í karlmann! gargaði Birta. Kastaðu þessum skrattakolli fram af svölunum og sæktu strák í staðinn.
-Ef þú fengir að ráða myndirðu láta okkur éta allar kökurnar í bakaríinu,
sagði ég.
-Já en bara sætu kökurnarm ekki súrdeigsbrauðin og við færum EKKI í ruslagáminn til að sækja uppþornaðar kúmenkringlur.
-Þær eru nú samt hollari og það vill svo til að það er ég sem ræð þessu
sagði ég.
Þá hló Skrattinn í sauðarleggnum svo hátt að ég hélt að tappinn hrykki úr holunni.