Drög

Birta: Ég held að þú sért að leggja drög að vandræðum.
Eva: Æ, góða láttu mig í friði. Það er ekki eins og ég hafi verið að máta brúðarkjóla.
Birta: Nei, ætli þú mátir ekki bara dindilinn á honum. Og verðir svo steinhissa þegar þú kemst að því að ekkert annað í fari hans passar við þig. Ég sé alveg í gegnum hann get ég sagt þér, og þetta byrjar EKKI gæfulega.
Eva: Þú ert aldeilis athugul, ég tók ekki eftir neinu ógæfulegu.
Birta: Og þú ætlar bara að hundsa innsæi mitt? Dettur þér ekkert í hug að þetta bendi til þess að hann hafi eitthvað að fela?
Eva: Fjárans tortryggnin í þér alltaf hreint, hvað heldurðu að þetta eina smáatriði, EF það er þá rétt hjá þér, segi okkur um hann.
Birta: Ekki þetta atriði í sjálfu sér, heldur það að hann skuli ekki bara hafa sagt það hreint út. Af hverju er það feimnismál ef ekkert meira hangir á spýtunni?
Eva: Af því að fólk gengur út frá því sem vísu að ef þessi tiltekni kubbur er ekki í kassanum, hljóti pakkinn að vera gallaður. Sjáðu okkur, við spurðum ekki einu sinni, við reiknuðum bara með kubbnum.
Birta: Hann hlýtur þá að líta svo á sjálfur að hann vanti þennan kubb. Sárlega. Annars hefði hann leiðrétt okkur.
Eva: Jæja, segjum við kannski Pétri og Páli allt sem við skömmumst okkar ekki fyrir?
Birta: Nei en það er bara af því að fólk er fífl.
Eva: Flest fólk dæmir mann út frá yfirborðinu. Hann hefur enga ástæðu til að ætla að ég sé eitthvað öðruvísi og ég skil bara vel að hann nenni ekki að útskýra fyrir ókunnugri manneskju hluti sem þarfnast ekki réttlætingar. Auk þess getur vel verið að þér skjátlist. Ég var lengi að leita að bílastæði og túlkunargleði þín er ekki beinlínis í lágmarki þegar karlmenn eru annars vegar.

Birta: Kannski er hann líka áhættufíkill, þú sérð nú áhugamálin hans.
Eva: Jájá, það getur verið stórkostlega varasamt að reyna á skrokkinn á sér. Eða gæludýrahaldið, það er auðvitað mjög grunsamlegt að eiga kött.
Birta: Hann á nú ekkert bara kött.
Eva: Ég held ekki að hann sofi með hitt dýrið uppi í rúmi hjá sér.
Birta: Kannski er hann gjaldþrota laumureykingamaður og alveg á kafi í djamminu. Kannski hefur hann misst bílprófið vegna ölvunaraksturs.
Eva: Já, kannski. Kannski er hann líka keðjusagarmorðingi, hver veit?

Eva: Birta. Ertu búin að hleypa skrattanum úr sauðarleggnum?
Birta: You and me and the devil makes three.
Eva: Drottinn minn djöfull er ég orðin þreytt á að dragast með ykkur hvert sem ég fer.

Þá lagðist skrattinn í gólfið og tók traustataki í pilsfaldinn minn.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Drög

  1. ———————————————

    mig er farið að gruna sterklega að þú gangir um með diktafón í vasanum

    ekki einleikið hvað þú ert góð í að skrifa samtöl…

    Posted by: baun | 4.12.2006 | 11:36:52

    ———————————————

    Finnst þetta merkilegt. Finnst einmitt svo fáir dindlar henta eitthvað:)

    Posted by: Barbie | 4.12.2006 | 20:27:12

Lokað er á athugasemdir.