Hve marga kjóla?

Í gær var mér sagt að það væri ekki von að þessi eilífa makaleit mín bæri árangur fyrst ég væri alltaf að hitta nýja og nýja menn. Þar sem hún er gipt en ég ekki, hlýt ég að gefa því séns að hún hafi rétt fyrir sér. Mér finnst þetta samt ekki hljóma sérlega sannfærandi og þar sem löng hefð er fyrir því að ég hafi rétt fyrir mér, hlýt ég að reikna með því að svo gæti og verið í þessu tilfelli.

Á undangengnum sjö mánuðum hef ég hitt sjö menn í þeim tilgangi að kanna hvort þeir séu vænleg kærastaefni. Ég gæti skilið að það þætti mikið ef ég hefði stofnað til ástarsambanda við þá alla og legið í dramkasti milli stefnumóta en það er öðru nær. Flesta þeirra hef ég hitt einu sinni eða tvisvar yfir mat eða kaffibolla og átt við þá kurteislegustu samræður. Tveir þeirra hafa mér þótt aðlaðandi en ég hef nú samt ekki stokkið á þá og tætt fötin utan af þeim (ekki af því að mér þyki í sjálfu sér neitt að því, það hefur bara ekki komið til þess.)

Ég velti því fyrir mér hversu margar gallabuxur venjuleg kona mátar yfirleitt áður en hún ákveður hverjar þeirra hún ætlar að kaupa. Eða brúðarkjóla. Skyldi sú sem ráðlagði mér, segja einhverri annarri að það sé nú engin von til þess að hún finni rétta brúðarkjólinn ef hún mátar alla sem eru í boði?

Einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að það þyki ekkert athugavert að skoða fleiri en sjö flíkur áður en maður kaupir. Og það er ekki af því að við álítum það ósanngjarnt gagnvart flíkinni að láta hana hanga ónotaða inni í skáp og horfa upp á okkur klæðast einhverju öðru. Svo er náttúrulega annar faktor sem skiptir ponkulitlu máli líka; flíkin hefur ekkert um það að segja hvort hún er keypt eða ekki, karlmaður gæti hinsvegar tekið upp á því að hafa skoðun á því hvort maður gerir hann að innanstokksmun.

Að vel íhuguðu máli hef ég þannig komist að þeirri niðurstöðu að vinkona mín hin velgipta hafi rangt fyrir sér. Ég þarf ekki að sitja uppi með ljótan kjól sem mig klæjar undan eða grenja yfir þeim sem ég hef ekki efni á eða er frátekinn. Ef maður ætlar að finna einhvern sem fer manni vel, gæti maður þurft að máta fleiri en einn, kannski fleiri en sjö. Verst að það er víst enginn sem tekur að sér að sérhanna maka.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hve marga kjóla?

  1. ————————–

    Klapp klapp klapp… er nýbyrjuð að villast hingað inn og maður lifandi… þetta sem þú skrifar hér að ofan er nákvæmlega það sem ég er að lenda í (taktu eftir „lenda í“).

    Takk fyrir mig :o)

    DÍSA

    Posted by: DÍSA | 5.12.2006 | 10:35:42

    ————————–

    ég er ekki nýbyrjuð að lesa en hef ekki látið í mér heyra fyrr, held ég. Mikill snillingur ertu, kona!

    Posted by: hildigunnur | 5.12.2006 | 18:26:03

    ————————–

    Getum við gert bissnessdíl og sett þetta konsept inn í garlabúðina. „Sérhönnum karlmenn“ – svona eins og „Skerpi skauta“ ?

    Posted by: lindablinda | 5.12.2006 | 18:43:07

    ————————–

    Ég gæti tekið að mér að endurforrita maka, en árangurinn yrði náttúrulega háður því að viðfangið væri reiðubúið til að taka meðferð

    Posted by: Eva | 5.12.2006 | 18:55:24

    ————————–

    Vissulega eru til falleg og flott föt og það er gaman að máta þau og bera við mann, en oftast nær klæðist maður fötum sem manni líður vel í, praktískum fötum, ekki endilega þeim fallegestu. Þegar þau slitna eða láta á sjá þá reynir maður að bæta þau þannig að þau endist og endist.
    Ég vona svo sannarlega að þú finnir góða og praktíska flík, það er löngu kominn tími til þess.
    Þinn vinur
    R 02

    Posted by: R 02 | 5.12.2006 | 20:17:27

    ————————–

    Hví ættu þægileg föt ekki að geta verið falleg?

    Posted by: Eva | 5.12.2006 | 23:34:15

    ————————–

    Að sjálfsögðu má hún vera falleg það væri það allra besta.

    Posted by: R 02 | 6.12.2006 | 11:45:43

Lokað er á athugasemdir.