Fårikål

Fårikål (eða kind í kįli) er hefðbundinn norskur réttur og á haustin koma vinnufélagar og klúbbar saman og borða þennan rétt og skemmta sér, þetta er víst ekki ólíkt íslensku þorrablóti og meðalaldur gesta 78 ár alveg eins og á Íslandi. Við sóttum slíka samkomu í gær, á vegum þrælaleigunnar sem starfrækir tilvonandi manninn minn og tengdaföður. Halda áfram að lesa

Næstum viss

-Ætlaðir þú ekki að vera í Osló klukkan eitt? spyr ég.
-Ég var þar klukkan eitt í nótt. Lagði mig í tvo tíma og hélt svo áfram
-Ertu bilaður maður? Hvað er þetta eiginlega langur akstur?
-1000 mílur, svarar Bjartur, og Noregur er ekkert nema fjallvegir og krókar, víðast hvar 50 km hámarkshraði. Halda áfram að lesa

Gerði Facebook út af við bloggarann?

Bloggmenningin breyttist töluvert þegar flestir bloggarar voru komnir með facebook síðu. Facebook er að mínu mati mikil snilld, þrátt fyrir gerviheiminn, gerviblómin og gervirauðvínið, miklu þægilegra að nota fésið til að fylgjast með umræðunni, auðvelt að ná til margra í einu og þarf ekkert rss til að sjá hverjir eru virkir. Halda áfram að lesa

Komið í lag

Jæja, þá er ég flutt milli léna og nú á kerfið loksins að vera komið í það horf að hægt sé að birta nýjar færslur og athugasemdir. Það eru nokkar tjásur sem komu inn á meðan kerfið var í lamasessi en birtust ekki en þær eru komnar inn núna.

Útlitið á síðunni breytist eiithvað á næstu vikum og gamla lénið; nornabudin.is hverfur.

Aðgangsorðið og lykilorðið á Launkofann á að vera í lagi líka en ég hef ekki getað birt neinar færslur þar frekar en hér. Bæti úr því á næstu dögum.

Plastkona

Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni kom til mín í dag og færði mér að gjöf brúðu eina stóra. Kvað það koma til af því að hann hefði ákveðið að gerast plastpokamaður í kreppunni og brúðan, sem er tæpir 2 metrar á hæð en samt með grennri læri en ég, kæmist ekki fyrir í plastpokanum úti í horni á heimili unnustunnar. Hann spurði hvort væri ekki langt síðan einhver hefði gefið mér brúðu en áður en ég gat svarað því bankaði annar gestur upp á svo samræðurnar snerust að öðru. Halda áfram að lesa

Týr

Þingvallaskógur rétt fyrir dögun.

Völvan situr á gæruskinni og vaktar eldstæðið. Horfir milli trjánna á víkingana niðri á flötinni. Stingur mjórri grenigrein í eldinn. Handleikur rúnina sem hún fann í vasa sínum um morguninn. Týr. Getur ekki rifjað upp hvenær eða af hvaða tilefni hún stakk einmitt þessari rún í vasann en hún á vel við þessa dagana. Halda áfram að lesa

Aumingi

Æ hvað ég hef nú mikla óbeit á huglausu fólki og fávitum. T.d. þessum sem einn daginn kynnir sig með nafninu SS, þann næsta sem Gest og hann þriðja sem RA. Mikið vildi ég hitta þann einstakling augliti til auglitis svo ég geti sagt honum hvað mér finnst um hann. Það er bara hreinlega ekki sæmandi að birta orðbragð sem líkur eru á að ögri heimsmynd og grundvallar lífsviðhorfum saklauss fólks á opinni netsíðu. En fyrst þig langar svona mikið að hitta mig, kíktu þá bara í heimsókn næst þegar þú átt leið til landsins og ég skal bæta áhugaverðum kjarnyrðum í orðaforða þinn.

 

Bara að gá…

Birta: Heldurðu að geti verið að kynhvötin í okkur sé dauð?
Eva: Nei, ég hef nú enga trú á því, þetta er líklega bara lægð.
Birta: Endast lægðir virkilega svona lengi?
Eva: Það hlýtur að vera. Eða ert þú kannski með girndarauga á einhverjum?
Birta: Nei. Alls ekki. Heldurðu að þetta sé eðlilegt?
Eva: Æ bíddu bara. Eftir nokkra daga eða í mesta lagi nokkrar vikur verðurðu farin að kvarta undan því að við séum með óeðlilega mikla kynhvöt. Það er áreiðanlega normalt að hafa ekki áhuga í nokkrar vikur.Birta: Við ættum samt kannski að ganga úr skugga um það? Til öryggis.
Eva: Hvaða öryggi væri í því?
Birta: Bara þú veist. Vera öruggar um að við séum ekki búnar að missa áhugann endanlega. Við þyrftum ekkert að láta vaða, enda myndi ég nú ekki nenna því. Ég meina bara svona að gá hvort er hægt að koma okkur til. Athuga hvort við erum orðin uppþornuð piparjúnka.
Eva: Njaaat… við nennum nú ekki að fara heim og mála okkur og standa svo í einhverju eymdar hösli á börum borgarinnar fram eftir nóttu, bara svona í tilraunaskyni. Það er lágmark að hafa áhuga til að leggja það helvíti á sig. Hvað þá að ætla að hætta í miðju kafi. Hvaða karlmaður heldurðu að sætti sig við það?

Birta: Hmmm… Ég er að hugsa… Ungir menn eru hlýðnir. Kannski ekki við lögin en áreiðanlega í rúminu. Við gætum tekið einn og baðað hann.
Eva: Nei góða mín, við erum ekki að fara að forfæra einhvern anarkistahvolp, bara til að gá hvort kynhvötin í okkur sé dauð. Ekki einu sinni þótt okkur tækist að reka hann í sturtu fyrst og svo heim áður en nokkurt fallerí nær fram að ganga.
Birta: Nei það er líklega rétt. Líklega ættum við bara að fara heim að sofa.