Ljóð handa aumkunarverðum heimskingja

Heimskingjar halda gjarnan að allir aðrir séu ennþá vitlausari en þeir sjálfir. Það reynist stundum heppilegt, einkum ef heimskinginn er illa innrættur í þokkabót.

Ég get skilið öfundsýki að vissu marki. Það er mannlegt eðli að bera sig saman við aðra og gleðjast eða ergja sig yfir útkomunni og það vekur vanmáttarkennd að sjá aðra í aðstöðu sem maður hefði getað verið í sjálfur ef einhver annar hefði ekki vaðið yfir mann eða ölögin tekið af manni ráðin. Það er jafnvel eðlilegt að slík kennd vakni, jafnvel þótt engum sé um að kenna nema manni sjálfum. Ég hef oft fundið fyrir órökrétti öfund sjálf, svo já ég skil það. Ég skil hinsvegar ekki fólk sem leyfir jafn ógeðfelldum tifinningum að ná tökum á sér og stjórna gjörðum sínum.

Ég skil að það geti verið óþægilegt að horfa á manneskju sem tekur þér fram á allan hátt, lifa lífinu sem þú hefðir getað lifað ef þú hefðir hegðað þér eins og hún. Því þegar allt kemur til alls þá er ástæðan fyrir því að hún er fallegri, gáfaðri, skemmtilegri og betri manneskja en þú, ekki sú að hún hafi verið svo heppin með gen, heldur sú að hún tók aðrar og betri ákvarðanir í lífinu.

Og það er verulega ógeðslegt að vita til þess að manneskja sem aldrei hefur troðið illsakir við nokkurn mann, skuli verða fyrir tilefnislausum árásum einhvers nafnleysingja. Því hún hefur ekki gert þér neitt og ekki tekið neitt frá þér, eingöngu hirt upp og farið vel með það sem þú hentir frá þér í geðillskukasti. Sjálfsagt fer það í taugarnar á þér að hún skuli hafa ánægju af lífinu. Þér finnst eflaust óþolandi að hún hafi svo mikla gleði af haustlaukunum sínum, eða finnist svo dýrmætt að steikja pönnukökur ofan í barnabörnin að hún sjái ástæðu til að skrifa um það og birta myndir á fallegu vefbókinni sinni. Það er auðvitað óþolandi að öðrum líði vel og hvað þá að þeir séu svo ánægðir með lífið að þeir skrifi um það opinberlega. Þú bara varðst að finna einhvern vettvang til að ráðast á hana er það ekki?

Ég get skilið að ég sjálf verði af og til fyrir andstyggilegheitum af þessu tagi. Ég hef umdeilanlegar skoðanir og á það til að pota í blygðunarkennd fólks. Ég segi stundum píka og þótt mér þyki eplakökur góðar, birti ég ekki myndir af þeim á blogginu mínu. Ekki af því að ég sé neitt á móti myndum af eplakökum, heldur er ég bara uppteknari af öðrum hlutum.

Svo já, ég get semsagt skilið að einhverjum finnist réttlæti í því að skíta yfir mig, þótt mér finnist engu að síður ósmekklegt að gera það þá ekki allavega undir nafni. Ég get hinsvegar ekki skilið fólk sem sýnir af sér þá illgirni að hrella konu sem skifar um eplakökur og krókusa.

Heimskinginn áttar sig líklega á illgirni sinni. Annars myndi hann væntanlega skrifa undir nafni. Hann áttar sig hinsvegar ekki á því að aðrir sjá í gegnum hann og að það krefst ekki sérstaks gáfnafars að koma upp um þá sem hafa ekkert vit á því sem þeir segja og gera.

Ég vissi reyndar vel en það er ágætt að hafa staðfestingu svo takk fyrir að senda mér ip-töluna þína, m.a.s. án þess að ég færi fram á það. Þú ert nú meiri sorglegi asninn.

Best er að deila með því að afrita slóðina