Týr

Þingvallaskógur rétt fyrir dögun.

Völvan situr á gæruskinni og vaktar eldstæðið. Horfir milli trjánna á víkingana niðri á flötinni. Stingur mjórri grenigrein í eldinn. Handleikur rúnina sem hún fann í vasa sínum um morguninn. Týr. Getur ekki rifjað upp hvenær eða af hvaða tilefni hún stakk einmitt þessari rún í vasann en hún á vel við þessa dagana.

Þrátt fyrir leiksýninguna er eldurinn ekta, og rúnirnar. Og greinin. Hún tekur greinina og notar glóðina til að bræða galdrastaf í snjóinn. Það er ennþá dimmt. Hún veit að eldurinn slær bjarma á rauðan kyrtilinn og athöfnin kæmi ágætlega út ef hún hefði áhorfendur en er því fegin að fólkið er upptekið. Væri þó til í að hafa hrafn og úlf sér til fulltingis, jafnvel þótt hún, svona líka Rauðhettuleg útlits, hafi aldrei hitt úlf og myndi sjálfsagt stirðna af skelfingu ef hann birtist.

Seinna, þegar eldurinn er dauður og sæist hvort sem er ekki fyrir birtunni, og bæði völvan og Rauðhetta eru úr henni í bili, gengur hún stíginn milli trjánna niður á flötina. Hún er blá af kulda og hendurnar svo stífar að hún veldur varla kaffibolla.
-Kannski ættum við að kveikja í Þingvallaskógi, til að mótmæla kuldanum, stingur Birtan upp á í hálfkæringi.
Ingibjörg hjálpar henni úr búningnum og nuddar í hana hita og hún áttar sig allt í einu á því að þrátt fyrir naglakul og glamrandi tennur, hefur hún meiri þörf fyrir snertinguna en hitann.

Á áhugaverðum tímum gleymir maður þörf sinni fyrir mat, svefn og snertingu. Á endanum sofnar maður nú samt og einhvernveginn kemur líka alltaf að því að maður borðar. En það er flókið að verða sjálfbær hvað varðar snertingu. Engin orka og því síður tími aflögu fyrir tilfinningarunkið sem það hefur einatt í för með sér að kássast utan í fólki og alltaf má reikna með að það endi með konfliktum að biðja einhvern að deila með sér rúmi ef ekki stendur til að gera hopsasa paa sengekanten. Hvað varð af öllum krakkabörnunum í lífi mínu? Æ já, þau urðu víst fullorðin. Fjandans rassgat að eiga ekki barnabörn sem skríða uppí rúm til manns á nætunar og hvað er eiginlega langt síðan piltur hefur bankað upp á undir miðnætti og sest á rúmstokkinn til að ræða eilífðarmálin? Eins og það getur verið ergilegt að vera vakin er það aveg þess virði þegar maður rumskar aftur tveimur tímum síðar við að einhver breiðir sængina betur yfir mann áður en hann smokrar sér út. Eiginlega ætti ég fá Grím til að skjótast til mín og strjúka á mér bakið.

Og allt í einu rifjast upp fyrir henni hvers vegna hún stakk Týsrúninni í vasa sinn endur fyrir löngu. Hafði víst ætlað að magna tilteknum manni karlmennsku, sem hann skorti svo tilfinnanlega en lét aldrei verða af því. Hélt að hann yrði nú samt sem áður þrautgóður á raunastund en það reyndist vont gisk.

Hún kastar rúninni út í horn og brosir kvikindislega með sjálfri sér. Í morgun brenndi hún feyskna grein af grenitré. Og væri hún ekki sérlega elsk að skógum, með trjám sínum og úlfum öllum, hefði hún vel getað kveikt í öllum helvítis skóginum.

Best er að deila með því að afrita slóðina