Og þá hitti skrattinn ömmu sína

Einn morguninn furða ég mig á tíðum komum gullfiskarlsins og föruneytis hans á veitingahúsið. Var það ekki bara um síðustu helgi sem þeir voru hér alla nóttina að þrífa búrin?
-Eruð þið alltaf að þrífa þessi fiskabúr eða hvað eruð þið eiginlega að gera? segi ég.

-Sýnist þér það? hreytir maðurinn út úr sér, ekki ögn blíðari á manninn en ef ég hefði beðið um að fá að sjá sprellann á honum. Nú jæja, mér finnst líka sumar spurningar ágengar þótt öllum öðrum þyki þær eðlilegar, t.d. hefur það alltaf farið í taugarnar á mér þegar fólk vill fá að vita hvar ég ólst upp og hvern kaus í síðustu kosningum. (Ekki svo að skilja að það séu nein leyndarmál, vil bara fá að stjórna því sjálf hvort og hvenær ég gef þessháttar upplýsingar um sjálfa mig.) Kannski finnst manngarminum að mér komi það hreint ekki við hvað annað fólk sé að þvælast í húsinu þegar ég á ekki von á því, eða kannski heldur hann að það sé ekki mjög fínt starf að vera fiskabúrshreinsir og vill sem minnst um það tala. Eða kannski er hann alls ekki fiskabúrshreinsir? Kannski er hann sprenglærður fiskabúrshönnuður og sár yfir því að óbreytt skúringakona hafi ekki áttað sig á goggunarröðinni?

-Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað þið eruð að gera, þess vegna spurði ég nú. Er búrið kannski eitthvað bilað? segi ég.
-Nú ef þú sérð það ekki sjálf vilt þú þá ekki bara sinna þínum störfum og láta okkur um okkar?
-Ég spurði nú bara af forvitni, það var ekki hugsað sem árás. En þú þarft auðvitað ekkert að svara mér frekar en þú vilt.
-Ég svara þér bara eins og þú svarar okkur.
Ég missti andlitið.
-Fyrirgefðu en ég minnist þess nú bara ekki að hafa átt nokkur samskipti við þig fyrr svo ég skil bara ekki hvað þú meina.

-Þú varst ekkert nema hortugheitin um síðustu helgi. Ég var að dást að myndarskapnum í þér að vera að þrífa á næturnar og þú snerir bara upp á þig; nú eru veitingahús ekki venjulega þrifin eftir kvöldið? Þetta sýnir hann með látbragði sem hver leikari væri sæmdur af og er greinilega afar móðgaður.

Eymingja gullfiskarlinn. Og hann sem ætlaði bara að vera almennilegur. Sennilega hugsað sér að gleðja skúringakonuna. Láta hana vita af því að til sé fólk sem áttar sig á göfuleik ræstingastarfsins. Kannski er hann skúffuskáld og langaði til að yrkja „konan sem kyndir ofninn minn“. Bjóst auðvitað við geislandi brosi og innilegu þakklæti fyrir hólið. Hélt að hann hefði bjargað nóttinni fyrir skúringakonu sem var niðurbrotin yfir því hvað öllum þætti starfið hennar ómerkilegt og auk þess dauðhrædd um að einhver héldi að hún ætti það til að gleyma að ryksuga undir mottunni eða dundaði sér við það á vaktinni að skrifa fleiri fermetra en hún skúraði.

Hvernig átti þessi líka almennilegi gullfiskakarl að vita að konan sem varð Davíð uppspretta að þessu yndislega kvæði, kunni honum hreint engar þakkir fyrir? Satt að segja varð hún stjörnuvitlaus þegar hún sá kvæðið (eða svo segir sagan) og gat aldrei litið Davíð réttu auga eftir það. En líklega veit gullfiskarlinn það ekki.

Ég sleppi því að segja honum frá þjóðskáldinu og kyndikonunni. Biðst bara auðmjúklegast afsökunar á því að hafa verið svona truntuleg.

Því fólk heldur í fyllstu einlægni að maður hljóti að byggja sjálfsmynd sína á því starfi sem maður sinnir hverju sinni. Líklega gera flestir það og þegar allt kemur til alls er fólk bara að reyna að vera almennilegt.

Best er að deila með því að afrita slóðina