Föstudagskvöld

350 manns í húsinu og ég hef ekki tekið heilan frídag síðan ég man ekki hvenær. Enn bólar ekkert á þessum skemli sem mér var lofað þegar ég byrjaði hér. Verkjar í liðina og þótt ég reyni að bera mig sæmilega kemur afkastaleysið upp um mig. Ég er vön að hamast eins og skriðdreki en í kvöld hef ég ekki undan. Eldhússmamman hjálpar mér og í lokin kemur kokkastelpan líka í uppvaskið. Öll eldhús ættu að hafa svona eldhússmömmu. Án hennar hefði ég verið að fram undir morgun. Lambasteikin enn í leðurgallanum, verður þessum dreng aldrei heitt?

Rétt fyrir lokun kemur Ættfræðingurinn fram í eldhús með þetta venjulega frænkutal. Ég er svei mér þá farin að halda að hann ætlist til þess að mér finnist einhver upphefð að því að vera skyld honum.
-Það er eitt sem mig langar að spyrja þig um frænka. Er þér eitthvað illt í mjöðmunum?
Undir sálarheminu bærir freðýsan ugga.
Nei frændi sæll. Það er bara hin munúðarfulla návist þín sem hefur þau áhrif á mig að ég finn mig knúna til að koma mér upp lostafullum mjaðmahreyfingum og það tekst bara ekki betur til en þetta.
Upphátt segi ég bara, já, og ekki orð um það meir. Hann tilkynnir mér að hann ætli ekki að spyrja um þetta aftur, rétt eins og hann hafi einn og sjálfur áttað sig á dónaskapnum í sér.

Ég er andskotinn hafi það búin að eyða símanúmerinu hans Haffa úr símanum mínum og hann er fluttur og ekki með skráðan síma. Ég man ekki föðurnafn hans og ef ég ynni á leigubílastöð myndi ég ekki svara kvenfólki sem hringdi til að fá persónulegar upplýsingar um tiltekinn bílstjóra, svo ég reyni það ekki einu sinni.

Í augnablikinu langar mig samt að hitta hann. Liggja í faðmlögum og vita að ég þarf ekki að hlusta á orð af því sem hann segir því það er bara fylliríisbull hvort sem er. Þurfa engu að svara og ekkert að gera til að þóknast honum. Bara liggja og þiggja. Án nokkurrar skuldbindingar annarrar en þeirrar að fara ekki frá honum fyrr en hann er sofnaður.

Best er að deila með því að afrita slóðina