Skrattinn á veggnum

Skrattinn á veggnum vakti mig í nótt. Vildi fá að koma uppí til mín en ég neitaði. Finnst alveg nóg bögg að hafa hann á veggnum, ég málaði hann ekki einu sinni sjálf. Hann gerði ekki frekari tilraunir til að troða sér undir sængina en settist á rúmstokkinn og másaði í eyrað á mér. Eins og ég hata það.

-Hættu þessari tímasóun. Þú finnur aldrei maka, sagði Skrattinn.
-Komdu þér upp á vegg og þegiðu, svaraði ég.
-Hvað varð aftur um stýrieiningarnar sem þú ætlaðir að ljúka fyrir mánudag? Eða nemana? Hvað eru mörg rúnasett eftir í búðinni? Það verður nú aldeilis skemmtilegt að þurfa að segja viðskiptavinunum að þau séu bara því miður búin.
-Fokkjú! Það er hægt að saka mig um marga persónubresti en leti er ekki einn þeirra.
-Neinei, ekki leti, bara mjög, mjööög heimskuleg forgangsröð. Hvaaaað varstu aftur að gera allan sunnudaginn?
vældi Skrattinn í hæðnistón.
-Markaðurinn fyrir öryggisbúnað er ekkert að hrynja en almennilegir karlmenn ganga út jafnóðum og þeir skilja. Og ég get bara ómögulega elskað vatnsnema og rúnasteina á sama hátt og karlmann, sagði ég og áttaði mig um leið á því að ég var að afsaka mig að óþörfu.
-Jæja. Þú ætlar þá líklega að fórna öllu fyrir ástina. Búðinni, vinnunni hjá Uppfinningamanninum, fjárhagslegu sjálfstæði þínu. Er það það sem þú vilt.
-Fólk afrekar það nú yfirleitt að vinna fyrir sér þótt það verði ástfangið.
-Fólk með þína greiðslubyrði?
sífraði Skrattinn og skældi sig.

Ég setti í brýn.
-Ég er bara ekkert í verri stöðu en hver annar, kannski eilítið skárri ef eitthvað er og nú skalt þú hundskast upp á vegginn aftur gæskur, í grænum hvelli ef þú vilt ekki að ég sæki sauðalegginn, hvæsti ég. Ég veit ekki hvort ég átti beinlínis von á því en merkilegt nokk, hann tók viðbragð og áður en ég vissi af sat hann á veggnum, glottandi samt. Ég ullaði á hann og slökkti ljósið. Hélt andartak að hann yrði til friðs en þótt ég væri laus við eyrnamásið get ég ekki sagt að nóttin hafi verið ljúf.

-Auk þess viltu ekkert með karlmann hafa. Allavega ekki ef hann er sambúðarhæfur, galaði Skrattinn á veggnum, og ég vissi að það skynsamlegasta sem ég gerði væri að hundsa hann en ég hef þessa knýjandi þörf fyrir að hafa síðasta orðið og gat ekki setið á mér að svara.
-Ég er nú samt búin að sjá einn sem ég gæti vel orðið skotin í, hahh! Og hann er enginn unglingur og ekki einu sinni stelpulegur í útliti.
-Ég spái því að hann sé fáviti. Eða þá að hann vilji þig ekki,
sagði Skrattinn á veggnum.
Ég ákvað að hætta að skemmta honum með því að halda áfram að þrasa við hann. Breiddi sængina uppfyrir haus. Hann gólaði nokkrum sinnum, rétt til að minna mig á að ég hefði ekki nýtt fulla tunglið eins og norn ætti að gera en ég og þóttist bara vera sofandi. Hann gafst ekki upp fyrr en um fimmleytið.

Í dag ætla ég að ná mér í rúmgóðan sauðarlegg, plokka Skrattann af veggnum með glersköfu og loka hann inni í leggnum. Ég sé enga ástæðu til að bíða eftir því að ódámurinn sem málaði hann komi og lagi til eftir sig.

Best er að deila með því að afrita slóðina