Tékklisti ritningarinnar

Skrattinn virðist vera skriðinn inn í sauðalegginn aftur. Allavega er ég með berkjubólgu og það er hvimleitt þótt það geti ekki talist veikindi. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég hafi eitthvað klikkað á fyrirheitnum illvirkjum. Ágætt að boðorðin eru sett upp eins og tékklisti.

1….þú skalt ekki aðra guði hafa,
-Hér hef ég staðið mig prýðilega þar sem ég hef heiðrað bæði Bakkus og Mammón síðustu tvo daga.

2. Þú skalt ekki leggja nafn guðs við hégóma
-Ég hef nú ekki einu sinni haft fyrir því að bendla þann kóna við eitt eða neitt og held að það hljóti að pirra hann ennþá meira að vera gjörsamlega ignóreraður en að fólk jóli eins og geðsjúklingar undir því yfirskini að það sé gert honum til dýrðar.

3. Heiðra skaltu föður þinn og móður
-M.a.s. Kölski fílar pabba minn of vel til að ætlast til þess að ég böggi hann og ég ekki hef ég sýnt móður minni meiri virðingu en öðrum sem kaupa Lögbirtingablaðið og leggja í stæði fyrir fatlaða.

4. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan
-Ég geri nú það sem mér bara sýnist þegar mér sýnist. Vinn um helgar ef það hentar mér og ligg í leti á miðvikudagsmorgni ef svo ber undir, þannig að Myrkrahöfðinginn hlýtur að líta til mín í náð sinni hvað þennan þátt varðar.

5. Þú skalt ekki morð fremja
-Halló! Það eru nú ekki nema 2 dagar síðan við gerðum samninginn, varla ætlast Andskotinn til þess að maður drepi fólk af handahófi á hverjum degi. Vel heppnað morð krefst bæði mótívs og undirbúnings og ég er þegar komin með áætlun um að ráða Kristínu Ómarsdóttur af dögum. (Fyrir að vanhelga íslenska bókmenntasögu með því að koma sérdeilis vondum og leiðinlegum bókmenntum á blað yfir verk sem fólk tekur mark á) svo hann hlýtur að gefa mér séns.

6. Þú skalt ekki drýgja hór
-Hmmm… ég hélt að ég hefði nú staðið mig með ágætum í hórlífi mínu hingað til en það er náttúrulega ekki við því að búast að nokkur maður fáist til að drýgja hór með mér á meðan hryglir í mér eins og berklasjúklingi við hvern andardrátt. Það mun hinsvegar bætt upp allsnarlega um leið og Satan sjálfur losar mig við leifarnar af berkjubólgunni.

7. Þú skalt ekki stela
-Ég er að vísu ekki búin að stela neinu ennþá en ekki vantar mig einlægan brotavilja og ég er þegar búin að panta tíma hjá manni sem ætlar að kenna mér ýmsa klæki til að hafa skattstjóra og kóna hans að fíflum.

8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum (Ath. að guð Ísraelsmanna hefur sennilega ekkert á móti því að menn ljúgi í öðrum tilgangi)
-Nú hefur bara sú staða ekki komið upp síðustu daga að ég hafi verið kölluð til vitnis. Darri yfirheyrði okkur Hauk reyndar um það, með nokkurri háreysti, hver hefði klárað ostinn. Ég hundskammaði hann fyrir frekjuna og hélt fyrirlestur um að á mínu heimili yrðu ostsneiðar ekki taldar ofan í fólk fremur en hingað til og ef enginn ostur væri til skyldi hann annaðhvort fá sér rúllupylsu ellegar hundskast sjálfur út í búð til að kaupa meiri ost -já og skammastu þín svo! Líklega hefði ég fekar átt að kenna Hauki eða Söru um. Ég bætti samt fyrir þetta með því að ljúga til um brjóstastærð mína og áhuga á aðskiljanlegustu sódómsku í samræðum við nokkra internetperverta á fimmtudaginn.

9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns
-Hér hef ég staðið mig prýðilega. Hef m.a.s. sökkt mér í draumóra um það hvernig ég geti vakið upp drauga og látið þá hrella menntamálaráðherra til að flytja úr húsinu sínu og selja mér það fyrir skít og kanil.

10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, úlfalda, þjón, þernu, né nokkuð annað sem náungi þinn á
-Sko! Ég bara girnist ekki konur. Hef það bara ekki í mér. Get svosem alveg slubbað kvenmann ef ekkert annað er í boði en ég girnist þær ekki. Ég álykta reyndar að eins megi snúa þessu við þannig að í mínu tilviki eigi þetta við um eiginmenn náungakvenna minna.

Nú ber svo við að í fyrsta lagi hafa flestar vinkvenna minna vit á því að halda hvorki karlmenn né önnur gæludýr en auk þess er ég frá unglingsárum forrituð til þess að kæfa í fæðingu allan áhuga á fráteknum karlmönnum. Það ber þó ekki vitni um að ég hafi minnsta snefil af siðferðiskennd. Mér finnst það bara ekki eftirsóknarvert hlutskipti að vera hjákona, fékk nóg af því um 17 ára aldurinn. Ég vil vera númer eitt, tvö og fimmtán og slík sjálfsdýrkun ætti að vera skrattanum að skapi. Hvað varðar úlfaldaeign nágrannanna þá hef ég enga ástæðu til að öfunda þá, fyrir nú utan það að eðalvagn minn Rolls limmúsínkrúser dugar mun betur í íslenskri hálku og kemst hraðar yfir en nokkur úlfaldi. Þjóna og þernur eiga mínir vinir og kunningjar ekki heldur í stóru upplagi en ég öfunda af öllu hjarta hvern þann sem hefur þræla til að skúra eldhúsið, láta renna í baðið fyrir sig og fara út í búð til að kaupa meira súkkulaði.

Ég held því að ég sé seif hvað varðar boðorðin, það hlýtur að vera eitthvað annað sem ég er að klikka á.

Hvaða bull er það annars að hafa boðorð 9 og 10 í tveimur greinum? Ég get ekki betur séð en að þetta sé eitt og sama boðorðið. Vottar Jehóva viðurkenna það en þeir halda því samt fram að boðorðin séu 10. Telja að annað boðorðið sé „nafn mitt er Jehóva“ eða eitthvað í þá veruna og það þriðja „þú skalt ekki leggja nafn guðs við hégóma“. Mér finnst þetta ekkert mikið gáfulegra en þeir fá þó prik fyrir að velta þessu fyrir sér. Mín kenning er hinsvegar sú að taflan hafi brotnað og það vanti eitt boðorð aftan á. Nefnilega boðorðið: Þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað. Það boðorð legg ég mig fram um að brjóta sem oftast.

Best er að deila með því að afrita slóðina