Djöfullegt plott

Eins og flestum vinum mínum og ættingjum mun kunnugt um þarf karlmaður að uppfylla ýmis skilyrði til þess að ég verði ástfangin af honum. Þau helstu eru eftirfarandi:

-Maðurinn þarf að vera haldinn áberandi persónuleikaröskun sem gerir hann óhæfan til sambúðar og helst óhæfan til samskipta almennt.
-Hann þarf að vera hinn mesti drykkjusvoli og helst óvenju leiðinlegur með víni.
-Hann þarf að vera með allt niður um sig í fjármálum, helst gjaldþrota.
-Hann þarf að hafa sofið hjá flestum vinkonum mínum og vera með þær sem hann hefur enn ekki lagt að velli á markmiðalistanum.
-Tilfinningagreind hans má alls ekki slaga upp í meðallag.
-Hann má ekki hafa persónulegan áhuga á mér eða sýna nokkur merki þess að hann beri umhyggju fyrir mér.
-Hann þarf að hafa lagt a.m.k. 10 konur í tilfinningalega rúst.
-Hann þarf að vera haldinn krónískri lygasýki.
-Hann þarf að vera haldinn fórnarlambskomplexum og sjálfsvorkunn á háu stigi.
-Hann þarf að hafa fullkomlega óraunhæfa sjálfsmynd, lifa í draumaheimi um sjálfan sig; kvenhylli sína, fjármálavit, greindarvísitölu og listræna hæfileika og vera fullkomlega ófær um að taka nokkrum skynsamlegum rökum hvað þessi svið varðar.
-Algerlega nauðsynlegt er að maðurinn sé veruleikafirrt gunga sem þorir hvorki að taka á vandamálum daglegs lífs né horfast í augu við eigin mistök og bresti.
-Hann má alls ekki nálgast það á nokkurn hátt vera jafningi minn hvað varðar almennt gáfnafar, menntun, hugrekki til að takast á við erfiðleika, skynsamlega lifnaðarhætti, ábyrgðarkennd og ræktarsemi við nánustu aðstandendur.

Nú vill svo til að maður nokkur hefur lýst sig ástfanginn af mér og uppfyllir eintakið ekkert fyrrgreindra skilyrða. Þvert á móti er maðurinn hið mesta prúðmenni, bráðgreindur, vel menntaður og viðræðugóður, hefur góð meðmæli frá sinni fyrrum spúsu (sem finnur honum það eitt til foráttu að vera ekki nógu djammgleiður) nánast skírlífur á minn mælikvarða, hefur sömu áhugasvið og ég, þreytist ekki á því að segja mér hvað ég sé fyndin og falleg, klár og kynþokkafull, yndisleg og æðisleg o.s.frv. er góður við mömmu sína, búinn að drita niður þeirri barnafjöld sem hann hefur áhuga á að eignast og það sem meira er; sýnir öll merki þess að vera þokkalegur uppalandi líka og virðist hafa nokkuð raunhæfar hugmyndir um eigið ágæti, hvorki að drepast úr minnimáttarkennd né mikilmennskuórum. Hann er ekki einu sinni leiðinlegur og til að toppa allt á hann meiri eignir og hefur hærri tekjur en allir þeir lúserar sem ég hef orgað mig í svefn yfir samanlagt (og þeir eru ekki fáir) og hefur sennilega minni skuldir á bakinu en nokkur þeirra.

Nú sér það hver maður að þar sem þessi mannlýsing er ekki í nokkru samræmi við minn draumaprins, kemur ekki til greina að ég hleypi eintakinu nær mér en sem nemur 5 metra radíus. Þó er ekki loku fyrir það skotið að megi hafa nokkurt gagn af manngarminum. Systkini mín mafíósarnir komu í heimsókn með bakkelsi fyrir bankastjóralaun (að sjálfsögðu eftir vel heppnað bakaríisrán) um það leyti sem ég var að dunda mér sunnudagskrossgátuna í Mogganum í morgun. Ég sagði þeim frá gripnum og eftir 20 mínútna mafíufund varð niðurstaðan þessi:

Ég mun á næstu dögum nýta dásamlega leiklistarhæfni mína til að gefa manninum þá hugmynd að ég kunni eitthvað að vilja með hann hafa í framtíðinni, haldi hann rétt á spilunum. Þetta felur í sér að ég mun blaka augnhárunum feimnislega, klæðast flegnum toppum og hlæja að öllu sem hann segir. Engin þörf er þó á því að hleypa mannnefnunni inn fyrir 5 metra radíusinn enn sem komið er enda mun það víst einkenni á tegundinni að þykja konur því eftirsóknarverðari sem þær eru tregari í taumi.

Þegar maðurinn stynur bónorðinu upp, mun ég láta lítil, falleg tár perla á hvörmunum og trúa honum fyrir því með viprum um munnvikin að sjálfstraust mitt sé bara í svo mikilli rúst að ég geti ekki hugsað mér að láta karlmann sjá mig nakta fyrr en ég sé búin að fara í brjóstastækkun og fitusog, aukinheldur leysermeðferð til að yndisfagrir fótleggir mínir verði ekki orðnir eins og á snjómanninum hræðilega 2 dögum eftir vaxmeðferð. Þar að auki sé ég haldin svo djúpstæðum ótta við karlmenn að ég þori ekki fyrir mitt litla líf að selja íbúðina og það sé náttúrulega vonlaust að leigja hana út nema mála hana fyrst, skipta um hreinlætistæki og innréttingar á baði og flísaleggja það í hólf og gólf og endurnýja eldhúsið.

Maðurinn, sem er hið mesta eðalmenni og flestum mönnum samúðarfyllri og skilningsríkari (reyndar yfirhöfuð ríkari) og aukinheldur áfjáður í að fá að berja mig augum í guðdómlegri nekt minni (takið eftir guðlastinu), mun að sjálfsögðu draga fram fulla tösku af fimmþúsundkallabúntum og fixa þessi smávægilegu vandamál á mettíma. Þegar hann kemur til að sækja mig á ljótafólksspítalann fell ég svo gjörsamlega saman og segi honum að andlitið á mér passi ekki lengur við skrokkinn. Ég muni ekki líta glaðan dag fyrr en ég sé búin að fara í augnpokaaðgerð, varastækkun, collagenmeðferð og bótox og hvað þetta allt heitir, fyrir náttúrulega utan augnlínutattú, umhverfisvæna húðbrúnku, akrílneglur o.fl. smálegt. Þar fyrir utan sé vonlaust að við getum nokkurntíma gifst þar sem ég sé haldin krónískum skuldakvíða og geti ekki hugsað mér að kenna karlmanns fyrr en ég sé búin að borga íbúðina og námslánin, skuldabréfin og víxlana, bílalánin og tryggingarnar, yfirdráttinn og vísa. Og auðvitað símareikningana, stöðumælasektirnar, hitaveituna og annað sem hefur safnast upp hjá mér í gegnum tíðina.

Þegar extrímmeikóverinu er lokið verð ég falleg og skuldlaus, íbúðin mín orðin eins og ég vil hafa hana og ef ég þekki hann rétt búið að fylla kæliskápinn af nautalundum og humri og setja blóm og konfekt á öll borð.

Og þá mun ég þakka honum fyrir með mestu virktum en segja honum að ég verði því miður að afþakka höfðinglegt tilboð hans um að taka mig sér til eiginkonu og gera mig hamingjusama til æviloka. Ég sé nefnilega orðin svo flott að ég eigi nú loksins séns í þessa fallegu og skemmtilegu fávita sem mér þykir svo gaman að grenja yfir.

Best er að deila með því að afrita slóðina