Kínamann

Kínamann er fluttur í kjallarann. Sjoppmundur hafði víst bent honum á að tala við mig og athuga hvort dyngjan mín væri föl.

-I don´t have car. I working very much. Always working and don´t want to wait for friend every day. I rent room in your house ok?

Ég reyndi að útskýra fyrir honum að ég ætti ekki húsið sjálf og að Listamaðurinn hefði ekkert annað pláss fyrir alla safngripina sem fylla hluta kjallarans en ég gæti vel fjarlægt mitt dót og skyldi athuga hvað Listamaðurinn segði um málið. Ég hef ekki hugmynd um hversu mikið hann skildi, því hann svaraði með því að draga upp passann sinn og alls konar pappíra, eins og til að sannfæra mig um æru sína og opna seðlaveskið til sönnunar því að hann væri borgunarmaður fyrir leigunni. Vildi samt prútta um verðið:
-Iceland no good business. I pay 1.6 million rent in restaurant and no business. Icelandic only eat Saturday.

Ég lét á mér skilja að ég væri verulega miður mín yfir því smekkleysi landans að fylla ekki 300 manna kínverskan veitingastað á hverju kvöldi en þóttist algerlega skilningssljó gagnvart því að 10.000 krónur til eða frá gætu skipt sköpum fyrir hann.

Ég dauðsé eftir þessari aðstöðu. Það er auðvitað frábært að geta gist á vinnustaðnum þegar maður er að vinna fram á nótt og það bjargaði mér algerlega í sumar að hafa þetta herbergi. En núna, einmitt þegar tekur mig ekki nema 4 mínútur að komast heim, sendir Mammon Kínamann, veifandi feita seðlaveskinu sínu yfir til mín. Eitt símtal við Listamanninn og bingó. Kínamann fær svefnaðstöðu í næsta húsi við vinnustaðinn, Helgi hefur áfram tekjur af geymslu fullri af ónýtum húsgögnum og ég fæ péning. Allir glaðir.

Ég játa að mér finnst erfitt að halda uppi samræðum við mann sem talar bara hrafl í ensku. Af handapati og einföldum setningum má ráða að hann vilji betri lýsingu og straujárn en ég veit ekkert hvort hann er að biðja mig að útvega þessa hluti eða spyrja mig hvar þeir fáist. Ég afgreiði hann með einföldum skilaboðum.
-You buy lamp in Húsasmiðjan, you buy iron in Húsasmiðjan.
Eriðara er að svara því þegar hann kveður mig með kossi á báðar kinnar og segir;
-You are nice lady.
Fyrst hélt ég að þetta kossastand á honum kæmi til af langri dvöl hans í Frakklandi en í dag kom hann til mín og sagði:
-I like you. I like small woman, og faðmaði mig mjög innilega. Ég veit ekki alveg hvort hann var bara að tjá þakklæti sitt fyrir herbergið.

Best er að deila með því að afrita slóðina