Brugg

Verkefni dagsins er að brugga skáldamjöð. Ekki veitir af, ég hef ekki skrifað almennilegan texta í margar vikur, hvað þá að ég hafi ort kvæði. Syngipartý annað kvöld. Það eru sjálfsagt fáir sem gera sér almennilega grein fyrir því en aktivismi er t.d. það að syngja í stað þess að líta eingöngu á tónlist sem neysluvöru. Auk þess er ég ekki ennþá búin að jarða síðustu vonbrigði mín og ætli sé ekki kominn tími á Völuvísu.

Allt að gerast

Allar aktivistahreyfingar ættu að eiga a.m.k. eina ömmu. Okkar amma fann lausn á þessu með blóðið. Allt er að skríða saman og svo er líka nýtt tungl. Ég hef nú svosem ekkert auglýst þetta en vona að mínir dyggustu lesendur mæti og taki þátt í galdrinum því það þarf mikinn ofsa til að vinna á stóriðjuþursinum.

Og nei, þetta er ekki grín.

Inn vil ek!

Þegar Byltingin mætti til afplánunar inn í Hverfisstein, stundvíslega kl. 13 þann 6. ágúst, munaði litlu að hann þyrfti að brjóta sér leið inn. Engin kannaðist við að eiga von á honum og hann var m.a.s. beðinn að leggja fram boðun í afplánun til sönnunnar. Það vildi svo vel til að hann var með boðunina með sér, svo hann losnaði til að fremja glæp á staðnum til að fá inngöngu. Halda áfram að lesa

Forgangsmálin

Sonur minn Byltingin var dæmdur til 18 daga fangavistar fyrir að trufla stóriðjufyrirtæki við þá iðju sína að eyðileggja jörðina. Þetta er algengur dómur fyrir ölvunarakstur enda mun dómskerfinu þykja það álíka alvarlegur glæpur að stofna lífi og limum vegfarenda í hættu og að minna stjórnvöld og stórfyrirtæki á að til er fólk sem ætlar ekki að horfa aðgerðarlaust upp á náttúruspjöll og mannréttindabrot í þágu áliðnaðarins. Halda áfram að lesa

Bara

Frjádagur og frú eru að undirbúa krossferð gegn stóriðju og fara héðan á föstudaginn. Lærlingurinn kom heim frá Ítalíu í gær og ég er dauðfegin að þurfa ekki að vera hér ein allan daginn á meðan þau bjarga heiminum. Eins og ég er annars lítt mannelsk, þá hættir mér til að deyja úr leiðindum ef ég hef ekki félagsskap.

Komið til skila

Jæja Mogginn er búinn að leiðrétta mestu rangfærslurnar.

Ég varð frekar fúl þegar þeir sögðu frá þessu nánast eins og Haukur væri bara ranglandi um Palesínu á eigin vegum að snapa fæting en get kannski frekar lítið sagt þar sem ég neitaði að gefa upplýsingar (enda var ég búin að lofa Hauki að gera það ekki nema fá leyfi hjá honum fyrst.) Þetta er þá allavega komið á hreint og Haukur er kátur. Ekkert á heimleið held ég þótt flestum í fjölskyldunni hefði þótt best ef hann yrði bara rekinn úr þessu hræðilega landi.

 

Móðursýkin

Sonur minn Byltingin og Rósin sluppu lifandi úr eldsvoða nú um daginn. Gistu í trjáhýsi í 10-12 metra hæð og Haukur vaknaði við sviða í kokinu. Allt fullt af reyk og mér skilst að það sé ekkert grín að brölta hóstandi í gegnum brennandi tuskur og greinar og þurfa svo að klifra niður úr háu tré í niðamyrkri. Þau sluppu samt ósködduð og skógurinn líka. Af öllum frábæru ævintýrunum sem hann er búinn að segja mér frá er þetta það eina sem ég sé virkilega fyrir mér.

Rósin farin til Indlands og Byltingin einn á þvælingi um Evrópu. Mér fannst skárra að vita af honum með henni. Vil bara fá hann heim aftur sem fyrst og vita hann sofa innan dyra í alvöru húsi, þar sem er til sjúkrakassi og borða óhollan mat sem er búið að elda og setja á disk en ekki eitthvað gras sem hann finnur á víðavangi. Og svo vil ég líka fá að geyma vegabréfið hans sjálf.

 

Að búa við persónunjósnir

Það er langt síðan ég fékk staðfestingu á því að sími Byltingarinnar var hleraður. Hélt fyrst að þetta væri paranoja í honum en ég á vini á réttum stöðum og þetta ku víst vera tilfellið. Eða var það allavega um hríð. Hann ræðir ekkert sem máli skiptir í þann síma svo það er eins líklegt að menn telji tíma og fé lögreglunnar illa til þess varið að komast að raun um hvort þessi ógnvaldur þjóðarinnar ætli að hitta afa og ömmu eða kaupa skólabækur eftir hádegið. Halda áfram að lesa

Ofbeldismenn

Byltingin er með áverka eftir lögregluþjón. Ég er stolt af því.

Í sjónvarpinu sagði fulltrúi lögreglu að aðferðir þeirra væru ekki réttar. Fulltrúi Alcoa sagði að sjálfsagt væri að ungt fólk nýtti sér rétt sinn til að láta í sér heyra. Þau ættu bara að gera það utan dyra svo þeir sem mótmælin beinast að þyrftu ekki að heyra þau.

Mótmæli sem ekki valda truflun heyrast ekki og ég hef aldrei heyrt um rétta mótmælaaðferð sem skilar árangri.

Mér finnst frábært að sérsveitin skuli hafa vera send á þessa unglinga. Það sýnir bara að loksins eru menn farnir að taka mótmæli þeirra alvarlega.