Þú valdir þér þægilegt líf. Vinna, sinna fjölskyldunni, fara í sumarbústað, ræktina, halda árshátíð og afmæli, sitja á kaffihúsi, rækja áhugamál, hitta vini, vinna meira…
Ég gerði það líka. Það er ekki rangt að vilja gott líf. Og ég finn, alveg eins og þú, fyrir þessu nagandi samviskubiti vegna þess. Það þjónar ekki miklum tilgangi. Jafnvel þótt ég dæi fyrir einhverja hugsjónina, reikna ég að samviskan myndi elta mig í gröfina.
Það er ekki hægt að gera samviskunni til geðs, ég veit það, en það er ekki þar með sagt að það sé æskilegt að hætta bara að hlusta á hana. Ég veit að þú telur þig ekki hafa vit á skáldskap en ég veit líka að þú ert ekki fáviti. Jóhannes úr Kötlum er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og gerðu það nú fyrir mig að lesa þetta erindi; þetta eina erindi úr Sóleyjarkvæði og taka við sársaukanum í stað þess að líta undan á meðan þú klastrar plástrum á sárið:
Bóndi tautaði: Margur verður
að bera hlekki
og meiningin er að hér á ég heima,
en heiminn lítið ég þekki
og grípa fram í hans gang
-það geri ég ekki.
Elskan, ég er ekki að biðja þig að grípa fram í gang veraldarinnar. Ég er ekki að biðja þig að fara í forsetaframboð. Ég er ekki einu sinni að biðja þig um veikburða tilraun til áhrifa. Ég bið þig ekki að hlaupa inn á flugbraut, vinna sjálfboðastarf, gefa peninga til líknarmála, skrifa blaðagrein, kommenta á blogg eða mæta á mótmælafund.
Það eina sem ég bið um er ein fokkans undirskrift. Bara eitt, ofurlítið tákn um að hlutirnir séu ekki alltaf nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera.