Bruni

Gaza: Ég á að vera að gera eitthvað í því.

Hælisleitandi sem var búinn að fá vinnu missir hana og útlendingastofnun svarar með því að taka atvinnuleyfið af honum aftur: Kræst, ég á að vera að gera eitthvað í því.

Sjálfstæði þjóðarinnar í bráðri hættu, fimm dagar búnir af árinu og ég hef ekkert gert í því. Mætti á Austurvöll á laugardag, bloggaði smá um aktivisma, auglýsti aðgerðir en ekkert meir, ekkert sem skiptir máli. Á FIMM dögum. Allt í rugli á þessu skeri: Ég ætti að vera að gera eitthvað í því.

Og þetta fyrirtæki mitt: Ég er með óafgreiddar pantanir: Ég á að vera að gera eitthvað í því.

Lögfræðingurinn bað mig um gögn svo hann geti lagt fram kæru. Fyrir jól. Ég á að vera að gera eitthvað í því.

Hárið á mér komið niður í augu, hendurnar ljótar og húðin þurr: Ég á að vera að gera eitthvað í því.

Klukkan tvö og ég er ekki sofnuð. Hef ekki náð fullum svefni í margar vikur: Ég á að vera að gera eitthvað í því.

Mörg ár síðan ég átti að láta tæta úr mér hálskirtlana og ég er að byrja að veikjast: Ég á að vera að gera eitthvað í því.

Einhversstaðar átti ég persónulega sápuóperu. Tilvistarkreppu og ástsýki, heimspekilegt tveggja manna tal. Galdur, skáldskap, matarboð, leikhús, postulínsbrúður, sunnudagskrossgátuna og Dexter einu sinni í viku. Held hún sé týnd og ætti að vera að gera eitthvað í því.

Eins gott að ég á ekki kærasta líka. Nóg sem maður vanrækir samt. Veit samt ekki hvort það gengur upp til lengdar að rjúka á næsta mann og heimta faðmlag í tíma og ótíma. Fólk sem þrífst ekki án snertingar þarf að eiga maka: Ég ætti að vera að gera eitthvað í því.

Bíddu annars. Stendur ekki einhversstaðar að þegar maður er undir álagi eigi maður að sinna eigin sálgæslu? Gæta þess að brenna ekki út. Anna stakk upp á þvi að ég tæki eitt kreppulaust kvöld í viku og mér þótti það mjög vond hugmynd.Gerði mér röklega séð grein fyrir því að hugmyndin er eiginlega frekar góð en fann hverja frumu líkamans rísa gegn henni. Sem bendir til þess að ég sé að koma mér upp vandamáli. Líklega ætti ég að gera eitthvað í því.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Bruni

 1. —————————

  Anna hefur mikið til síns máls. Farðu vel með þig góða kona.

  Posted by: Kristín | 6.01.2009 | 12:34:12

  —————————

  Þetta reddast, elskan mín.

  Þú stendur þig eins og hetja og það verður nægur tími til þess að gera eitthvað í þessu öllu…. seinna… þegar harðstjórnin er fallin 😉

  Posted by: Maldoror | 6.01.2009 | 19:52:34

Lokað er á athugasemdir.