Ó þjóð, mín þjóð!

Fékk fréttir af Byltingunni í gær. Hann hefur enn ekki verið handtekinn enda virðast ríkja allt önnur viðhorf til friðsamlegra mótmæla á Íslandi en í þeim hluta heimsins sem sýnir viðleitni til að þoka sér í átt til siðmenningar.

Í vikunni klippti löggan af hjólalás frá hálsinum á honum við fangabúðir þar sem flóttamenn voru í haldi. Flóttamenn sem hafa búið við mannréttindabrot í sínum heimalöndum. Breska ríkið hafði ákveðið að flytja hóp flóttamanna frá Kongó aftur til síns heima þar sem þeir verða pyntaðir fyrir glæpi á borð við rangar skoðanir og liðhlaup. Sonur minn hryðjuverkamaðurinn sá sig auðvitað knúinn til að vesenast yfir því enda haldinn arfgengri meðvirkni með bjánum sem vilja ekki lúta harðstjórn. Að sjálfsögðu var fólkið flutt til Kongó til áframhaldandi misþyrminga og kúgunar þrátt fyrir mótmæli einhverra hippatitta. Friðsamleg mótmæli hafa nefnilega afskaplega lítið að segja, jafnvel í ríkjum þar sem tjáningarfrelsi er vinsælla en á Íslandi.

Sem betur fer búum við Íslendingar ekki við flóttamannavandamál. Við Íslendingar neitum nefnilega ekki bara klámhundum um aðgang að landinu, heldur líka þeim sem eru svo vitlausir að fá upp á móti sér ráðamenn sem beita skoðanamótandi aðferðum á borð við frelsissviptingu án réttarhalda, pyndingum og dauðarefsingum.

Fyrir þann sem ekki veit hljómar þetta sjálfsagt eins og við séum öfgasinnaðir þjóðernissinnar og viljum helst ekkert samneyti við aðra en skoðanabræður okkar en sem betur fer erum við nú ekki alveg svo galin að úthýsa öllum sem kunna að hafa aðrar skoðanir en við. Umburðarlyndi Íslendinga endurspeglast í gestrisni okkar við menn á borð við Jiang Zemin því þrátt fyrir að vera algerlega mótfallin öllum mannréttindabrotum, bjóðum við slíka menn velkoma og bjóðum þeim til veislu. Svona erum við nú umburðarlynd. Þegar Jiang Zemin kom buðum við honum m.a.s. vernd gegn stórhættulegum mótmælendum. Það er líka eins gott því það er aldrei að vita nema þeir hefðu tekið upp á því að skaða ímynd Íslands. T.d. hefðu þeir getað sprangað um brókarlausir við Bláa Lónið.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ó þjóð, mín þjóð!

 1. ——————–

  Jæja Eva gott að heyra að strákurinn sé heill á húfi.
  Smá sögustund varðandi Zemin!
  Það vildi þannig til að einn ráðamaður þjóðarinnar (mig minnir Valgerður Sverrisdóttir) ákvað að skella sér til útlanda. Hún tók það fram að hún vildi láta taka á móti sér eins og þjóðhöfðingja (silly she!). Það þýðir í óskráðum lögum að öll atriði í heimsókninni skulu vera eftir þjóðhöfðingjans höfði. Það þýðir reyndar líka að það þurfi að endurgjalda greiðann.
  Þannig að þegar gula dótið mætir á staðinn, með þá ósk að… vilja ekki sjá neitt gult dót. Þá er það í raun okkar að verða við þeirri ósk (skv. þjóðhöfðingja-meðhöndluninni)
  Nær væri að þakka lögreglunni fyrir að standa sig ekki betur en þeir gerðu! Enda höfðu þeir lítinn áhuga á þessu gula dóti.

  Posted by: Langi Sleði | 28.02.2007 | 10:11:55

Lokað er á athugasemdir.