Krútt

Þegar naggrísamamman dó, datt elskulegri systur minni í hug að kannski mætti bjarga krílunum með því að leggja þá á spena kisumömmu í staðinn. Ég var afskaplega efins þótt kisa léti sér bara vel líka, og ég átti satt að segja alveg eins von á að þeir yrðu veikir. Sá minnsti dó á öðrum degi en hinir tveir hafa þrifist vel. Halda áfram að lesa

Tilbrigði

Tristan litli þvertekur fyrir að kunna bókmenntastórvirkið Búddi fór í bæinn og Búddi fór í búð. Hann söng hinsvegar fyrir mig með sama lagi, Batmann fór í bæinn. Og reyndar líka með svipuðu lagi; Kertasníkir fór til kanínu.

Kurteisi

Takk fyrir komuna, sagði Tristan litli þegar þau voru að fara heim í gærkvöld.

Minnir mig á það þegar Keli og Lindita komu með telpurnar sínar í búðina til mín. Emma fékk litla brúðu og þegar ég rétti henni hana sagði hún -segðu takk. Vel uppalin börn fá snemma á tilfinninguna hvenær er viðeigandi að sýna kurteisi, þótt nákvæm útfærsla á reglunni komi ekki alveg strax.

Ég vaknaði ekki fyrr en hálf tólf í dag en nú er ég líka að verða úthvíld. Miriam var rétt í þessu að færa mér kaffibolla. Yndislegt.

Lítið ljós

Uppáhaldsviðskiptavinurinn okkar í Nornabúðinni, hann Árni Beinteinn, var í Kastljósinu á föstudaginn.

Þessi strákur er þegar búinn að ná langt en auk þess að vera hæfileikaknippi þá er hann svo indæll og skemmtilegur að í raun ættu Félags- og Menntamálaráðuneytið að gera hann upptækan og ferðast með hann um landið sem sýnidæmi um afleiðingu af jákvæðu hugarfari og góðu uppeldi.

 

Ný viðskiptahugmynd

Í dag kom ungur maður inn í búð til mín, 10 eða 12 ára kotroskinn og keikur. Hann stakk að mér viðskiptahugmynd sem ekki hefur brugðið fyrir í mínum villtustu fantasíum.

-Þessi búð þyrfti að vera stærri, sagði aðdándinn ungi og ég samsinnti því og sagði honum að það kæmi vel til greina að færa út kvíarnar í fyllingu tímans ef ég fyndi hentugt húsnæði.
-Þetta sagðirðu nú líka þegar við komum að kaupa jólagjafir, svaraði hann einbeittur og horfði beint í augun á mér. Mér leið eins og væru fjögur ár síðan hann kom hingað með mömmu sinni upp úr miðjum desember og að ég hefði verið staðin að því að svíkja kosningaloforð. Ég tautaði eitthvað um að það tæki tíma að safna peningum og finna rétt húsnæði, mér til afsökunar en fékk þá viðskiptahugmynd aldarinnar á silfurfati.
-Ég veit sko nefnilega um hús sem þú getur fengið, sagði hann íbygginn.
-Nú, er það hér í nágrenninu? spurði ég.
-Það er svolítið langt frá. Veistu hvar IKEA var áður?
Jújú, ég vissi það svosem.
-Það hús er sko laust. Þú getur áreiðanlega fengið það, sagði minn með sannfæringu.

Og nú er ég auðvitað á fullu að skipuleggja. Ég hugsa að ég setji reykelsin í sófadeildina og alla 60 stokkana af tarotspilum í svefnherbergisálmuna. Krákuvængirnir geta bara verið í Boltalandi. Ég á hvort sem er ekki nema tvo. Ég fæ allavega nóg pláss til að bæta við smá fatnaði og bókum. Staðsetningin er líka brilliant. Ég meina, sjáiði ekki fyrir ykkur föstudagsinnkaupin. Rúmfatalagerinn; tvö viskustykki og fimm herðatré, Bónus; helgarsteik, Cheerios, appelsínusafi og fleira, Ríkið, ein kippa af bjór og ein hvítvínsflaska, Nornabúðin; ein girndarrún, nokkrir stokkar af spáspilum, barnakrem, einn pakki af brenninetlu, slatti af rjúpnalöppum, tvær skuldafælur og eitt hreindýrshorn … Allt það nauðsynlegasta á einum stað.

 

Úr engu

Prrr…kalt í dag.

Ekkert að gera í búðinni og Spúnkhildur veik heima. Smábátur flýr kuldann inn í hlýtt hálfrökkur Nornabúðarinnar, horfir á mig fletta spilum og segir mér frá verkefnum sem hann er að vinna fyrir skólann.

Svo þegjum við saman smástund.

-Það er eitt sem ég hef aldrei almennilega skilið, segir hann svo skyndilega upp úr eins manns hljóði, þetta með það hvernig heimurinn varð til úr engu. Hvernig getur hafa verið ekkert?

Ekki hef ég svörin þrátt fyrir 30 ára aldursmun og skeggleysið hindrar hann ekkert í því að skeggræða endaleysu- og eilífðarmálin. Hann er spakur drengurinn en ætli hann eigi ekki eftir að komast að sömu niðurstöðu og flest okkar; að það sé örugg leið til að missa vitið að reyna að finna svörin.

Leónóra

Leónóra er þeirrar einlægu skoðunar að hinn byltingasinnaði frændi hennar sé í hæsta máta varhugaverður, gott ef ekki hið mesta illmenni á köflum. Í dag ásakaði hún hann um að hafa stolið snuðinu sínu. Samt er engu líkara en að hún sé eilítið skotin í honum líka, allavega spurði hún hvað eftir annað um hann um helgina. Halda áfram að lesa