Af krúttum

-Þú gleymdir að kyssa mig bless, sagði Bjartur.

Nújá? Gleymdi ég því? Er ég semsagt vön að kveðja hann með kossi? Já líklega geri ég það venjulega en ég hef aldrei pælt neitt sérstaklega í því.

Þegar ég hugsa út í það kyssi ég Bjart sennilega oftar en nokkurn annan. En það er náttúrulega bara eðlilegt, maðurinn er krútt og krútt geta reiknað með að vera kysst, allavega ef þau sýna engin merki um að vera því mótfallin. Auk þess hafa krútt sennilega meiri þörf fyrir kossa en annað fólk og allir aðrir sem kyssa Bjart búa úti í öskubuska. Það hlýtur þá að standa þá upp á mig að sjá til þess að hann sé kysstur reglulega. Nema Svartur ætti frekar að taka það að sér. Hann býr nú hjá honum svo það eru hæg heimatökin. Reyndar hélt Júlíus því fram um daginn að Bjartur og Svartur hefðu verið að kyssast úti í hlöðu en þeir þvertaka báðir fyrir það og hann er haugalyginn strákurinn. Enda væri Bjartur sennilega ekki að rukka mig um koss ef Svartur stæði sig í því að sinna knúsþörf hans.

-Ætli þú verðir þá ekki bara að koma við hjá mér og sækja þér koss, svaraði ég.

Sitjum í sófanum. Ég með prjónana, Bjartur með tölvuna opna á facebook.
-Ertu ekkert að verða leið á þessum prjónaskap? spyr hann loksins.
-Nei, svara ég.
-Áttu kannski við að þú viljir fara að fá þennan koss sem við töluðum um? bæti ég við, því þótt karlmenn hafi tilhneigingu til að álíta að maður sé að segja fréttir eða ef maður setur óskir sínar ekki fram í boðhætti, þá reikna þeir samt með að konur lesi hugsanir.
-Ha,já,nei,jamm, humm,eða ha, segir Bjartur. Svo slekkur hann á tölvunni.

Djöfull erum við skemmd, hugsa ég og klára umferðina áður en ég legg prjónana frá mér.

-Snerting er mannskepnunni nauðsynleg. Ég geri þetta bara til að koma í veg fyrir að við verðum geðveik, segi ég og kyssi hann á gagnaugað af því að þar eru engir skeggbroddar.
-Hmmm? Þú hefur engar áhyggjur af því að Svartur verði geðveikur? segir Bjartur.
-Nei, segi ég.

Hef ekki hugsað útí það fyrr en ég hef aldrei kysst Svart. Man ekki hvenær ég tók upp á því að kyssa Bjart. Samt nokkuð viss um að hann hefur aldrei kysst mig að fyrra bragði. Ég held að það hver kyssi hvern skýrist af krútt áhrifunum. Það er ekki auðvelt að útskýra fyrirbærið krútt en það er allavega eitthvað sem vekur í manni knúshvötina. Krúttið þarf samt alls ekkert að vera bjargarlaust. Geitur eru t.d. krútt.

Svartur er ekki krútt.
Ekki ég heldur.

Best er að deila með því að afrita slóðina