-Voðalega erum við öll óhamingjusöm, sagði Bjartur og skolaði óhamingju sinni niður með gúlsopa af landamærabjór.
-Hulla og Eiki eru ekki óhamingjusöm, sagði ég.
-Nei ekki þau en næstum allir aðrir, svaraði hann. Hmmm… þetta samfélag okkar er nú ekki stórt og þessir allir eru Bjartur og Svartur, ég sjálf og kannski Dana María sem er nú venjulega ósköp kát.
-Hvað þarftu til að verða hamingjusamur? spurði ég og svarið var á þá leið að hlutirnir þyrftu bara að ganga upp. Hann þyrfti að vita á hvar hann stæði og fá einhverja staðfestingu á því að það sem hann er að leggja á sig skili einhverjum árangri. Ég held ekki að það myndi gera hann hamingjusaman. Ég held að það myndi draga úr áhyggjunum en ekkert meira en það.
Ég á hamingjusama vinkonu sem var einu sinni ekkert mjög hamingjusöm. Hún beit það í sig að maður yrði glaður af því að hoppa. Hún hoppaði og hoppaði, árum saman og var stundum glöð og stundum döpur, rétt eins og ég sem hoppaði ekkert. Dag nokkurn eignaðist hún kærasta sem reyndist henta henni öllu betur en fávitarnir sem hún hafði áður púkkað upp á óverðuga. Og þá varð hún hamingjusöm. Hún heldur samt að ég geti orðið hamingjusöm af því að hoppa.
Systir mín og mágur eru hamingjusöm. Það er alveg jafn mikið í steik hjá þeim og öðru fólki. Stundum er drasl heima hjá þeim, stundum eiga þau ekki pening fyrir því sem þau langar að gera, stundum er leiðinlegt í vinnunni og þau hoppa ekki neitt. En þau eru ástfangin og það virðist duga þeim til að vera ánægð allavega 29 daga af hverjum 30.
Ég á hamingjusaman vin. Hann hoppar aldrei og heldur að ástin sé eitthvað ofan á brauð en honum finnst svo gaman í vinnunni sinni að hann eyðir frídögunum sínum í áhugamál sem eru nátengd henni. Ég reikna fastlega með að til sé fólk sem finnur samskonar tilgang í því að hoppa.
Ég kalla það ekki hamingju að vera sæmilega sáttur. Hamingja er það að finna tilgang og ástríðu í því sem maður er að fást við meirihluta dagsins en ekki bara um helgar eða rétt á meðan maður hoppar. Að hafa raunverulega gleði af lífinu er ekki það sama og að vera ekki andvaka af áhyggjum . Heldur ekki það sama og að kalla fram þægileg efnasambönd með hreyfingu, mat eða vímugjöfum þótt allt sem maður hefur ánægju af sé auðvitað ágætis krydd.
-Ég held að þú sért vansæll af því að þú ert ekki ástfanginn og færð ekki kikk út úr vinnunni þinni, sagði ég og bauð honum súkkulaði því ég átti enga hamingju ofan á brauð.
-Jaaaá, sagði Bjartur og fékk sér sígarettu í staðinn fyrir súkkulaði. Svo dreif hann sig í vinnugallann því Svartur var kominn að sækja hann.
Daginn eftir komu Bjartur og Svartur í heimsókn og sögu mér að þeir ætluðu að fá sér líkamsræktarkort.