Afmælisgjöf

Mig vantar afmælisgjöf handa konunni minni, sagði kúnninn. Klukkuna vantaði 4 mínútur í 6 og frúin þegar komin heim.

Við ráðlögðum honum að kaupa góða nuddolíu. Fara svo heim og taka almennilega til, skipta á rúminu, láta renna í dekurbað fyrir konuna og enda rómantíska kvöldstund á því að gefa henni gott nudd.

Málið var í rauninni dautt þegar Spúnkhildur notaði orðalagið „dekra við“ og um leið og ég nefndi tiltekt, byrjaði hann að fikra sig í átt að dyrunum.

Demantar virka líka, kallaði Spúnkhildur á eftir honum.

Ég skal veðja að hann hefur farið niður í Blómálf og keypt pottaplöntu.

Matrósar

Hátíðasalur Mammons minnti helst á sardínudós á heitum degi. Ég opnaði út, af mannúðarástæðum, og á 2 mínútum fylltist búðin af mönnum í matrósafötum. Ég kom þeim út. Mundi ekkert eftir því hvað Spúnkhildur er veik fyrir mönnum í einkennisbúningum fyrr en hún nefndi það sjálf.

Tilraun til vopnaðs ráns

Í gær kom maður í annarlegu ástandi í Nornabúðina, gaufaði bitvopni upp úr rassvasanum og bað kurteislega um hundraðkall.

Spúnkhildur aftók með öllu að fyrirtækið hefði yfir að ráða hundraðköllum til ölmusugjafa og manngarmurinn paufaðist út, heldur sneypilegur.

Svo kom löggumann og hirti hann. Ég sárvorkenndi greyinu en það er ekki alveg víst að hann hefði mundað kutann af sama hengilmænuhætti gagnvart 12 ára barni eða íbúum elliheimilisins.

Þarf það endilega að vera verðmætt?

Anna segir að raunveruleg verðmæti séu fólgin í vinum þínum en ekki þeim sem þú sefur hjá.

Einhvernveginn finnst mér rökrétt að sofa þá bara hjá vinum sínum. Verst að vinir mínir eru allir fráteknir. Nema Spúnkhildur og ég vil ekkert sofa hjá henni.

Reyndar komst ég að þeirri niðurstöðu fyrir nokkrum árum að það væri vesenisminnst að sofa hjá einhverjum sem mér er hæfilega illa við eða hef allavega nógu lítið álit á til að ekki sé hætta á að það þróist út í einhverjar ástargrillur. Mér hefur samt aldrei verið neitt illa við Elías en ég vissi líka að hann yrði ekkert í boði nema í stuttan tíma svo það var ekki verulega hætta á að yrði eitthvað ástarkjaftæði úr því.

Í augnablikinu er mér því miður ekki illa við neinn.

Úr engu

Prrr…kalt í dag.

Ekkert að gera í búðinni og Spúnkhildur veik heima. Smábátur flýr kuldann inn í hlýtt hálfrökkur Nornabúðarinnar, horfir á mig fletta spilum og segir mér frá verkefnum sem hann er að vinna fyrir skólann.

Svo þegjum við saman smástund.

-Það er eitt sem ég hef aldrei almennilega skilið, segir hann svo skyndilega upp úr eins manns hljóði, þetta með það hvernig heimurinn varð til úr engu. Hvernig getur hafa verið ekkert?

Ekki hef ég svörin þrátt fyrir 30 ára aldursmun og skeggleysið hindrar hann ekkert í því að skeggræða endaleysu- og eilífðarmálin. Hann er spakur drengurinn en ætli hann eigi ekki eftir að komast að sömu niðurstöðu og flest okkar; að það sé örugg leið til að missa vitið að reyna að finna svörin.

Um andúð mína á hinum illa Mammoni

Guðfræðingur nokkur sem iðulega finnur hjá sér hvöt til sérdeilis frumlegrar bókmenntatúlkunar á skrifum mínum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að þar sem mér sé tíðrætt um „illsku Mammons“ hljóti ég að vera róttæklingur hinn mesti. Sjálf kannast ég ekki við öll þessi skrif um illsku Mammóns. Ég hef miklu fremur talað um hann sem fremur vingjarnlegan gaur sem ég vil gjarnan eiga næs samskipti við. Að vísu hef ég stöku sinnum talað um illsku Mammons í írónískum stíl. Halda áfram að lesa

Verði búð og það varð búð – Ný þáttaröð

Í fréttum er þetta helst:

Loksins sé ég fram á að hafa tíma til að sofa, borða, blogga og sinna öðrum frumþörfum mínum. Buðum vinum og ættingjum í kaffi í gær og í dag opnar míns eigins ostagerð; fullkomna búðin okkar Eyrúnar seyðkonu; Nornabúðin -hin eina sinnar tegundar á Íslandi, formlega á Vesturgötu 12. Hinn illi Mammon hefur lagt blessun sína yfir oss, dýrð sé honum. Halda áfram að lesa

Af Píplaugi hinum kvenþreifna

Píplaugur hinn kvenþreifni er að eigin sögn mjög sérstakur maður. Ég tók í spaðann á honum og sýndi honum aðstæður og innan 2ja mínútna var hann búinn að koma því að hann væri skilinn við konuna sína og búinn að ganga óvart utan í mig þrisvar sinnum í þessu 40 fermetra herbergi. Ég fékk strax á tilfinninguna að hann hefði megnið af hugmyndum sínum um starfssvið pípulagningarmanna úr klámmyndum því hann virtist ekki sjá neinn mun á niðurfalli og vatnsinntaki og sagðist ekki geta byrjað fyrr en Pípmundur hinn góði væri mættur. Ég bauð honum kaffi af kurteisi minni á meðan við biðum eftir meistaranum. Kannski hefur hann skilið það sem merki um að ég væri haldin bráðabrókarsótt. Allavega sagði hann mér alveg í óspurðum fréttum að hann hefði ekki kennt kvenmanns í 14 mánuði. Halda áfram að lesa

Uppsöfnuð sápa síðustu viku

1. Pípmundur hinn góði náði með ódýrleik sínum að bræða kalið Mammonshjarta Spúnkhildar. Hjartahlýja Spúnkhildar í garð Pípmundar hins góða olli aftur umtalsverðri taugadrullu amlóða nokkurs sem virðist telja dyggðugri konu best sæmandi að láta sauma saman á sér langrifuna þegar ojminginn í lífi hennar tekur sálarfróun sjálfvalinnar eymdar fram yfir hana. Halda áfram að lesa

Í fréttum er þetta helst

Í gær varð Spúnkhildur ástfangin. Hann heitir Píplaugur og er hobbiti. Flagðið Russlana hefur að vísu reynt að koma í veg fyrir að með þeim takist ástir en fyrir einarða eljusemi Spúnkhildar standa vonir til þess að þær fyrirætlanir hlaupi í ullhærða vörtu á nefi Ruslu sjálfrar.

Bráðum kemur betri tíð með heilt gróðurhús af peningablómum.
Dýrð sé Mammóni, drottni vorum sem hefur frelsað oss frá yfirdrætti og vísa.

Ammlis

Byltingamaðurinn og Sykurrófan færðu mér Haukslegustu afmælisgjöf sem ég hef nokkurntíma fengið. Ávaxtakörfu, þ.e.a.s. ruslakörfu fulla af ávöxtum.

Spúnkhildur færði mér eiginhandaráritun frá goðinu mínu og pabbi er loksins búinn að samþykkja nafnið mitt; kom með peningaumslag og fyrirmæli um að ég mætti ekki eyða þeim peningum í krakkana, heimilið eða fyrirtækið heldur bara í sjálfa mig. Hann setti Evunafnið sem seinna nafn utan á umslagið. Fátt hefði getað glatt mig meira.

Það er sitthvað norn eða flagð

Nú er ég loksins búin að hitta þetta sataníska kvendi sem nágrannarnir hafa talað svo mikið um. Ég játa að í fyrstu hélt ég að útlendingafordómar kynnu að spila inn í umsögn grannanna um Ruslönu (við höfum að hún heiti eitthvað svoleiðis) en hef nú komist að þeirri niðurstöðu að hún eigi fyllilega skilinn galdurinn sem Spúnkhildur kastaði á hana í morgun. Halda áfram að lesa

Osturinn fundinn – Ný þáttaröð

Spúnkhildur fann ostinn minn! Jess!

Húsnæðið hentar fullkomlega og Listamaðurinn bauð af sér góðan þokka. Fyrir mína parta var það steinslípunarvélin sem gerði útslagið. Tákn frá góðvættum goðheima um að okkur væri beinlínis ætlað að kynnast þessum manni og nota húsið hans.
Fáum afhent annað kvöld og þar með er einni af stærstu hindrununum rutt úr vegi.

Nú þarf ég bara að græja slatta af peningum, vinna eins og geðsjúklingur, galdra eins og vindurinn og þar með er ostagerðin komin á koppinn.
Launkofinn opnar 1. ágúst.

Ég held að gagnrýnandinn í mér sé vanstilltur

Borgarleikhúsið er vinur minn. Gaf mér frímiða á Draumleik. Við Spúnkhildur fórum í gær og það var dásamlegt. Svo fékk ég líka pakka og það var líka dásamlegt. Ég er annars að pæla í því hvort ég sé kannski óttalegur hálfviti á sviði leikhúss. Ég er búin að sjá helling í vetur og mér hafa þótt allar þessar sýningar góðar. Misfrábærar að vísu en engin sem ég hef ekki notið. Er ekki eitthvað að ef vantar í mann gagnrýnandann? Eða standa leikhúsin sig bara svona geypilega vel?

Hmmm… ég er allavega ekki í neinum vandræðum með að gagnrýna Arnald. Er sokkin í þá lágkúru að lesa bókina með því hugafari að finna sem mest af hallæri. Venjulega hendi ég bók frá mér ef mér leiðist hún í 3.ja kafla en nú læt ég eymingja Arnald næra í mér illkvittnina. Ég er ekkert spennt yfir sögunni en er orðin rosalega spennt yfir því að sjá hverju honum tekst að klúðra næst. Verst hvað ég á erfitt með að skammast mín fyrir að hugsa svona. Það er náttúrulega ekkert í lagi.

Komin niður

Held ég sé að koma niður af þessu vellíðunarflippi sem ég hef verið á undanfarið. Ekki svo að skilja að mér líði neitt illa. Meira svona hlutlaust. Eða frekar svona eins og ponkulítið eirðarleysi sé að byrja að springa út innra með mér. Mér leiðist eitthvað svo og skýringin er ekki sú að mig vanti félagsskap eða hafi ekkert að gera. Mig langar bara að hitta einhverja aðra en þá sem eru í boði og gera eitthvað annað en það sem liggur beinast við. Veit samt ekki hvað. Svo langar mig í phenylethilamin, heilt kíló en vil samt ekki þurfa að gúlla í mig 10 kg af súkkulaði. Halda áfram að lesa