Baráttan við Bakkus

Sápuópera tilveru minnar er sennilega í sumarfríi. Allavega hefur nákvæmlega ekkert frásagnarvert gerst í lífi mínu í meira en viku og það sem gerðist þá er ekki við hæfi á síðu sem viðkvæmar sálir kunna að rekast inn á af tilviljun (eða heimsækja reglulega án þess að viðurkenna það).

Að vísu höfum við Spúnkhildur verið venju fremur harðar í neyslu áfengra drykkja enda er hún barnlaus þessa dagana og um að gera að nota tækifærið til að gúlla í sig. Síðasta þriðjudagkvöld skiptum við með okkur einum litlum grols á meðan við vorum að mála hillurnar í verðandi verslun og í gærkvöldi bættum við um betur og drukkum næstum því heilt rauðvínsglas hvor á meðan ég heklaði 3 skuldafælur Mammóni til dýrðar. Við slepptum samt öllum drykkjuskap í kvöld -enda megum við ekkert vera að því að fara á snúrurnar korter í opnun. En eins máltækið segir; enginn ræður sínum næturstað; örlögin höfðu samt sem áður ætlað okkur ótæpilega neyslu vímuefna og þegar við fengumst ekki með nokkru móti til að taka áfengisbigðir með okkur í búðina, sáu þau (örlögin) til þess að viftan dó, einmitt á meðan við vorum að lakka kjallaragólfið. Einhverjir hefðu vísast notað tækifærið til þess að herða sig upp í þá þrekraun að fara á djammið en við ákváðum hins vegar að fara heim og sofa úr okkur lakkvímuna.

Ef eru margar innsláttarvillur í þessum texta er skýringin sú að ég er enn ekki sofnuð. Ég veit ekki alveg hvað Bakkusi finnst um fólk sem nýtir allar helgar til þess að vinna fyrir sjálft sig og fagnar ekki einu sinni þótt örlögin neyði það til að sniffa en hann Mammón minn er allavega ánægður með mig.

Best er að deila með því að afrita slóðina