-Hvað ertu eiginlega að gera? spurði Elías
-Útbúa dræsugaldur, svaraði ég.
-Dræsugaldur???
-Já, þessir hlutir sem þú sérð hér á borðinu eru notaðir til að galdra vörtur, líkamshár og fleira ógeðsbögg á dræsur sem manni er illa við, útskýrði ég og kepptist við að sauma.
Hálftíma síðar lágum við í faðmlögum en mér fannst hann einhvernveginn fjarrænni en venjulega.
-Hvað ertu að hugsa? spurði ég.
-Ég veit að það hljómar eins og ég sé snargeðveikur, en mér finnst eins og það gæti alveg verið að inni í stofu sé allt fullt af alvöru konum, lifandi konum í einhverskonar álögum þú veist, og að á næturnar farir þú fram og leikir þér að því að stinga þær með prjónum.
-Hafðu ekki áhyggjur, ég sting aldrei lifandi fólk með prjónum.
-Hmmm… – ekki lifandi fólk – áttu við að þú farir í alvöru upp í Heiðmörk á næturnar og potir prjónum í þessi brúðuskrípi?
-Þú ert þó ekki hræddur við mig Elías?
-Nei, ekki beint, ég fæ bara stundum á tilfinninguna að þér sé alvara með þessu kukli þínu.
-Sérðu eitthvað athugavert við kukl?
-Nei ég fíla það í ræmur, sagði hann og flissaði.
-Hafðu ekki áhyggjur Elías, það er ekki hægt að kalla refsigaldur yfir fólk nema það eigi það skilið svo það eina sem þú þarft að gera til að komast hjá því að ég kasti svörtum galdri á þig er að koma almennilega fram við mig.
-Fávitafælan, virkar hún? spurði Elías.
-Já, auðvitað.
-Samt er ég hér.
-Og hvað segir það þér?
-Að ég sé ekki fáviti?
-Það hljómar rökrétt.
-Ég er ekki hræddur við reiði þína Eva en ég er hræddur um að þú hafir meira álit á mér en efni standa til.
-Hafðu ekki áhyggjur af því, ef svo er kemur það bara í ljós.
-Geturðu búið til áhyggjufælu handa mér? sagði Elías.
-Á ég ekki frekar að vera áhyggjufælan þín? svaraði ég.
-Vernda mig frá áhyggjum?
-Já.
-Ég efast um að þú getir verndað mig, frekar en ég þig. Skrýtið að langa til að vernda einhvern sem er svona langt frá því að vera varnarlaus, sagði hann.
-Hver er ekki varnarlaus, ég eða þú?
-Við bæði líklega.
-Skrýtið að þekkja karlmann sem er einlægur.
-Iss þú ert bara skotin í mér.
-Gerir það mig að fávita?
-Líklega.
-Hafðu ekki áhyggjur Elías, þú elskar mig líka.
-Geri ég það?
-Ójá. Það gerir þú og það án þess að galdur komi til.